08.04.1942
Neðri deild: 30. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Finnur Jónsson:

Ég vildi segja nokkur orð um það, sem hæstv. viðskmrh. sagði í sambandi við þetta nýja fyrirmæli, sem ætlazt er til, að sett verði um skatt- og útsvarsgreiðslu þeirra fyrirtækja, sem hafa yfir 200 þús. kr. í skattskyldar tekjur.

Útsvarslöggjöf okkar Íslendinga hefur verið allmiklu róttækari heldur en útsvarslöggjöf annarra landa, þar sem ákveðið hefur verið, að leggja mætti útsvör á eftir efnum og ástæðum, ekki eingöngu eftir efnum og ástæðum gjaldendanna, heldur einnig eftir efnum og ástæðum sveitarfélaganna. Þessi róttæka útsvarslöggjöf hefur leitt til þess, að í hallærisárferði hefur mönnum verið gert að greiða meira til bæjar- og sveitarfélaga, ef nauðsyn hefur krafið, heldur en hreinu árstekjurnar. Það er beinlínis hægt að framkvæma eins konar eignarnám eftir núverandi útsvarslöggjöf, ef efni og ástæður sveitarfélaganna krefjast þess. Það er vitanlega alls ekki ætlazt til þess, að til slíks þurfi að gripa. En það getur verið þannig ástatt í einstökum sveitarfélögum og jafnvel nokkuð víða, að þetta þurfi að gerast. Nú skilst mér, að eftir þessari löggjöf séu þeir, sem hafa yfir 200 þús. kr. árstekjur, settir í sérstakan flokk, þannig að það megi ekki taka af þeim meira en 90% af hreinum árstekjum þeirra, jafnvel þó að þarfir sveitarfélaganna krefjist þess. Hins vegar er fræðilegur möguleiki fyrir því og hefur verið framkvæmt að leggja útsvar á tap. Með þessu lagafrv., sem hér liggur fyrir, hafði ég litið svo á, að þarna væri verið að skapa misrétti. Það væri verið að undanþiggja þá, sem hafa yfir 200 þús. kr. í tekjur, frá þessari borgaralegu skyldu, en hún er látin standa fyrir alla hina, sem hafa undir 200 þús. kr. árstekjur. Nú upplýsti hæstv. viðskmrh. að vísu, að þetta mundi ekki vera ætlunin með frv., heldur væri eftir sem áður hægt að leggja á eignaútsvör og rekstrarútsvör. En eigi að síður, ef teknar eru allar árstekjur þeirra manna, sem hafa minna en 200 þús. kr. í tekjur, þá hafa þeir, sem hafa yfir 200 þús. kr. í tekjur, — að mér skilst eftir frv. — samt rétt til þess að halda 10% eftir af tekjunum, þó að allar tekjur annars, sem hefur undir 200 þús. kr. í tekjur, væru teknar af honum. En ef hægt væri að ná, eftir því sem hæstv. viðskmrh. sagði, því sama gagnvart þeim, sem hafa yfir 200 þús. kr. í tekjur, með útsvörum á eignir, gæti það valdið því, að menn þyrftu að greiða meira í útsvar en allt það, sem eftir væri af tekjunum, þegar skattur er greiddur af þeim, og undir sérstökum kringumstæðum þá eitthvað af eignunum, þegar eignarútsvar og rekstrarútsvar væri á lagt. Ef þetta er meining frv., þá finnst mér rétt að hafa það þannig orðað, að þetta gæti ekki valdið neinum vafa. Það er að vísu gott að fá yfirlýsingar um þetta frá einum hæstv. ráðh. hér við umr. En eigi að síður finnst mér þetta frv. vera þannig orðað, að það gæti leikið á því nokkur vafi, hvort hægt sé að ná því, sem hæstv. viðskmrh. vildi segja, að hægt væri að ná. En ef það er meining hæstv. ríkisstj. að breyta ekki til um þetta, að setja ekki í l. sérstök fríðindi fyrir þá, sem hafa yfir 200 þús. kr. í tekjur, þá skilst mér, að hæstv. ríkisstj. ætti að geta gengið inn á brtt. við seinni umr. málsins, sem tæki af allan vafa í þessu efni. Ég vildi mjög gjarnan heyra álit hæstv. viðskmrh. á því. Ég fyrir mitt leyti get ekki skilið það, að hæstv. Alþ. geti verið þekkt fyrir það að ganga frá löggjöf, sem gæfi þeim, sem hafa yfir 200 þús. kr. í tekjur, alveg sérstök forréttindi umfram þá, sem hafa minni tekjur. (EystJ: Það er hægt að lækka tekjuskattsskalann). Mundi það verða gert í hvert skipti með brbl.? Mér skilst, að það, sem ætti að gera í þessu, væri að hafa l. þannig orðuð, að ekki gæti orkað tvímælis um þetta, því að jafnvel þó að það muni vera búið að handjárna eitthvað af hv. þm. í þessu efni, svo að þeir fari með þetta mál á móti sinni samvizku (eins og einn hv. þm. sagði hér áðan), þá finnst mér ekki líklegt, að þeir séu svo handjárnaðir, að þeir séu bundnir beinlínis við það fyrirfram að afgr. lagafrv., sem kemur af stað stórum misrétti á milli borgaranna.