30.03.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (1339)

29. mál, verksmiðja til að hreinsa og herða síldarlýsi

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það mun vera skoðun flestra, að stefna beri að því að selja útflutningsvörurnar sem mest unnar, og margir líta svo á, að framtíðarskipulagið sé í sambandi við vinnslu á ísl. afurðum, t.d. vinnslu á síldarlýsi frekar en verið hefur.

Ég sneri mér til formanns síldarútvegsn. og spurði, hvernig þessi mál stæðu og hvort af hennar hálfu lægju fyrir sérstakar rannsóknir um möguleika í þessum efnum. Mér voru gefnar þær upplýsingar, að síldarverksmiðjustj. hefði haft málið með höndum og að framkvæmdarstj. hennar væri í Ameríku og hefði sérstaklega verið beðinn fyrir athugun á þessu máli. Ég fór fram á að fá skýrslu hans og býst við að fá hana bráðlega. Mér er auk þess kunnugt um, að út af þál. frá síðasta þingi var Trausta Ólafssyni falið að athuga málið, og hann hefur skilað skýrslu til atvmrn. Ef frekari rannsókna verður þörf, mun ég, þegar ég hef séð skýrslu framkvæmdarstjóra síldarverksmiðjustj., beita mér fyrir því, að þeim verði hraðað sem mest.

Ég vil að lokum lýsa yfir því, að ég er algerlega samþykkur þáltill., sem fyrir liggur.