24.04.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (1477)

73. mál, áfengismál

*Jóhann G. Möller:

Þar sem útlit er fyrir, að málið fari til n., get ég stytt mál mitt svo sem verða má. Ég verð þó að svara nokkru af því, sem fram hefur komið út af ræðu minni, sem ég flutti, þegar málið var fyrst tekið fyrir. Ég skal ekki vera á móti því, að málið fari til n. og ég álít, að málið sé þannig vaxið, að það þurfi athugunar, sem þeir menn, sem eru blindastir bannmenn á Íslandi, gefa sér aldrei tíma til að veita málum, því að þeir, sem vaða um í trú á þetta mál, taka aldrei tillit til staðreynda og gera sér ekki grein fyrir því, sem hér er að ske. Það er einkennilegt að heyra hinn mikla þingskörung, hv. þm. Borgf. (PO), flytja slíka ræðu sem hann flutti áðan, hann er annálaður fyrir rökvísi í málflutningi sínum, en í þessu máli hefur honum þótt bergðast rökvísi. Ég hef í þessu máli reynt að kynna mér þá hluti, sem í þessum málum hafa skeð, t.d. í Bandaríkjunum, og ég hef fengið skýrslur um þessi mál, sem ekki er hægt að vefengja, og í Bandaríkjunum hefur það sama skeð og hér, að þessir þurru senatorar stanga alltaf höfðinu við steininn og segja eins og sagt var, „og samt er síld í tunnunni“. Þó að búið sé að sýna þessum mönnum, að það sé ekki hægt að þurrka landið, þá halda þeir samt áfram að herja höfðinu við steininn hvað þetta snertir. Þessir menn í Bandaríkjunum héldu því fram, að það væri hægt að þurrka landið með því að hafa nógu öflugt tolleftirlit í landinu. Rannsókn á þessu leiddi í ljós, að það mundi kosta um 300 millj. dollara að halda uppi svo öflugu tolleftirliti þar í landi, og þá fóru menn að efast um, að það væri hægt að þurrka landið. Menn skulu svo í þessu sambandi athuga strandlengjuna hér við Ísland og allar aðstæður og bera það saman við Ameríku, og þá munu menn sannfærast um það, að þetta er óframkvæmanlegt vegna hins gífurlega kostnaðar. Ég vil svara þeirri hártogun á orðum mínum, sem kom fram hjá hv. þm. Borgf., er hann var að lýsa forsendunum fyrir minni dagskrártill. Ég álít, að hv. þm. þurfi ekki að koma fram með neitt dekur við hæstv. forseta um það að vísa þessu frá, enda var sams konar till. flutt hér í fyrra og var tekin gild af þáverandi forseta. Annars er það einkennilegt við ræðu hv. þm. Borgf., að hann telur till. mína saka hv. þm. yfirleitt um lögbrot. Hv. þm. virðist skilja þetta þann veg, að hver einn einasti hv. þm. eigi að bera persónulega ábyrgð á því, sem sagt er, að eigi sér stað samkv. dagskrártill. Ég er hræddur um, að þingið afgr. ekki mörg mál, ef það ætti að vera bundið við það, að þm. hefðu persónulega reynslu í hverju einasta máli, sem fram er borið. Ég held, að hv. þm. verði í því tilliti að trúa staðreyndum og umfram allt að vera ekki svo blindir í málfylgi sínu eins og þessi hv. þm. virðist vera a.m.k. í þessu máli. Ég veit ekki, hvort hv. þm. vildi með orðum sínum bera mér á brýn vínsmygl eða að ég viti eitthvað ákaflega mikið um. þetta. Ég hef gert mér far um að kynna mér þetta mál, og ég hef komizt að raun um það, að það, sem til staðar er í þessu máli, er það, sem ég hef haldið fram og átt hefur sér stað hjá öðrum þjóðum. Hann neitar því, að bruggið hafi vaxið. Hann neitar því enn fremur, að hv. alþm. geti dæmt um það, hvort brugg hafi farið í vöxt eða ekki. Hvers vegna voru áfengisl. sett? Var það ekki vegna þess, að bruggið var orðið svo ískyggilega mikið í landinu? Ekki höfðu hv. þm. þá farið um allt landið og lyktað upp úr hverjum kopp til þess að kanna það, hvort mikið væri bruggað.

Ég vil aðeins nefna örfá dæmi um rök þessa hv. þm. (PO). Hann neitar því, að menn hafi dáið af því að neyta banvænna vökva, og spyr, hvort hv. þm. hafi drukkið slíka vökva. Þessi hv. þm. virðist ganga svo langt í efasemdum sínum, að hann mundi vilja vinna það til, að þm. neyttu þessara bannvænu drykkja til þess að sannfærast um, að menn létu við það lífið. Nei, það vita það allir menn í þessu landi, að banvænir drykkir hafa orðið mönnum að fjörtjóni, og það er vegna þess eins, að ríkið neitaði mönnum um lögleg vín.

Þessi hv þm. þóttist ekki ætla að svara mér, en eyddi þó miklu af tíma sínum í það. Hins vegar þarf ég ekki að svara honum meira, en ætla með nokkrum orðum að svara hinum flm. og ætla ég þá fyrst að snúa mér að hv. 2. landskjörnum. Hann er nú, sem kunnugt er, einn mesti bannmaður hér á þingi. Hann beindi orðum sínum mjög til stj., en talaði þó við stólana tóma. Er það táknrænt, að þegar menn eru að berjast við að þurrka landið, verða þeir að tala við tóma stóla. Hann spurði, hvers vegna hefðu ekki verið gefin út brbl. um lokun áfengisverzlunarinnar. En það var vegna þess, að ráðh. vita, að langsamlega mikill meiri hl. þjóðarinnar er á móti því, og enn fremur vegna þess, að þjóðin unir ekki lengur þessari hræsni í áfengismálunum, að láta lítinn hóp manna ráða þessum málum á mjög óeðlilegan hátt.

Hv. 2. þm. N.- M. talaði um, að vín væru veitt í fermingarveizlum. Ég skal að vísu ekki mæla því bót. En engu að síður er það mjög mikilsvert í því skyni að kenna fólki að umgangast vin siðlega (vínkultur), að fólk umgangist það sem yngst. Í þáltill. þessari stendur, að undanþágur um vínveitingaleyfi hafi verið veittar broddborgurum þessa bæjar. Hverjir eru þessir broddborgarar hér í bæ? Hvar eru sannanir fyrir öllum þeim dylgjum um vininnflutning, sem þeir segja, að Íslendingar standi fyrir? Hvaða menn eru þetta? Nei, öll till. er byggð á fullyrðingum út í loftið, á dylgjum og ósannindum. Hvaða þm. haldið þið, að geti greitt atkv. með svona þáltill.? Í minni dagskrártill. er hins vegar aðeins vikið að því, sem allir vita, að gerist með þjóðinni. Hv. 2. landsk. sagði, að ég héldi því fram, að víni væri smyglað inn í landið. Já, ég held því fram, og ég veit það. Þm. sagði enn fremur, að ég væri þá um leið að stimpla íslenzku tollverðina, sem ótrúa í sínu starfi og að þeir gættu ekki embættisskyldu sinnar. Þetta er ekki rétt. Það er ekki hægt að hafa fullkomið tolleftirlit hér í Reykjavík um þessar mundir. Í fyrsta lagi koma hingað fleiri skip en til nokkurrar annarrar hafnar í heiminum að tiltölu. Í öðru lagi koma hingað skip, sem tollverðirnir hafa ekki aðstöðu til að hafa eftirlit með, nema að nokkru leyti, og í þriðja lagi koma hingað skip, sem tollverðirnir geta ekkert eftirlit haft með. — Og svo bætist við þetta allt, að í landinu býr þjóð, sem kaupir vín við afar háu verði.

Af framansögðu er það ljóst, enda á allra vitorði, sem vilja vita það, að ógrynni af vini er smyglað inn í landið.

Hv. þm. sagðist ekki efast um, að til væru menn, sem vildu brjóta lögin. — Já, honum er óhætt að trúa því, að slíkir menn eru til. Fleiri menn verða svo til þess að brjóta bannlögin heldur en nokkur önnur lög, og þykir engin smán að. Og það er vegna þess að lögin eru vitlaus. Öll lög eru vitlaus, sem brjóta í bág við réttarmeðvitund þjóðarinnar.

Í þessu sambandi vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp úr Alþingistíðindunum frá 1934 kafla úr ræðu hæstv. forsrh., Hermanns Jónassonar, til þess að lofa hv. þm. að heyra, hvað hann sagði um þessi mál. Hann segir svo:

„En það má vel vera, að fólkið verði orðið svo þroskað eftir 100 ár, að þá megi takast að setja aðflutningsbann á áfengi og framfylgja því. Og það er svo um hvers konar refsilöggjöf, að hún getur alls ekki staðizt til lengdar, nema hún hafi almenningsálitið í landinu að bakhjarli. Menn forðast ekki að brjóta refsiákvæði laganna vegna refsingarinnar sjálfrar, sem á eftir kemur, heldur vegna almenningsálitsins og þeirrar sannfæringar og réttlætismeðvitundar, sem býr þeim í brjósti. Það, sem hamlar því, að menn steli og gerist t.d. sauðaþjófar, er sú móralska sannfæring, sem búið er að koma inn hjá þeim, að þetta sé rangt. En það er ekki refsingin sjálf eða óttinn við hana, sem heldur mönnum frá því að stela. Og svo er það annað, sem er enn verra; refsiákvæði hafa engan mátt, nema staðið sé við þau og að nægilega þroskað almenningsálit standi á bak við þau.“

Í þessum ummælum er mikill sannleikur fólginn. — Þess vegna telur það enginn lagabrot, þó að hann nái sér í flösku af víni, þó að hann þurfi að brjóta lögin til þess. Ég veit það vel, að vínneyzla í óhófi er til skaða. En við verðum að taka staðreyndum. — Það er ekki hægt að þurrka landið, þess vegna verður að kenna þjóðinni að fara með vínið.

Mig undrar það, að þessir hv. þm., sem mikið tala um sjálfstæði þjóðarinnar, skuli ekki treysta Íslendingum til þess að fara með vín á borð við aðrar þjóðir. Hví skyldu þeir, ef þeir eru færir um að stjórna sjálfir málum sínum að öðru leyti, vera allsendis ófærir til þess að hafa þennan þátt málefna sinna með höndum? Ég beini því sérstaklega til hv. þm. Borgf. (PO) að athuga þetta.

Hv. 2. landsk. sagði, að að vísu væri áfengislöggjöfin brotin, en það væri hægt að koma í veg fyrir það. Ég er búinn að benda á, að það er ekki hægt. Í Bandaríkjunum var það ekki hægt fjárhagslega og hafði auk þess í för með sér svo mikla siðferðislega demoraliseringu, að allsendis ófært var við að una. Ofan á þetta hvort tveggja bættist svo það, að meira var drukkið á banntímunum heldur en á þeim tímum, þegar vínið var frjálst. Á banntímanum var drukkið af hreinu alkoholi 1,14 l á mann í stað 0,97 l áður en. banninu var skellt á. Þessar tölur tala sínu máli.

Þessir hv. þm. halda því svo líka fram, að lokun áfengisverzlananna hafi ekki aukið kynnin við setuliðið. En ef þeir vita ekki, að Íslendingar liggja á setuliðunum um vínkaup, þarf ég ekki við þá að tala, því að þá vilja þeir ekkert vita. En þó stendur nú þetta hér í þeirra plaggi. M. ö. o. ef ég segi það, er það ósatt, — segi þeir það sama, er það satt. (PO: Þetta er vesall útúrsnúningur.) En hins vegar vita það allir, að kynnin við setuliðin hafa aukizt stórkostlega, og er það vegna þess, að Íslendingum er meinað að neyta víns, nema í salarkynnum erlendra hermanna.

Að lokum vil ég aðeins drepa á örfá atriði úr framsöguræðu hv. þm. Borgf. í gær. Hann sagði m.a., að mesta meinið í eðli okkar væri drykkjuskaparlöngunin. Ég er honum ekki sammála. Í fyrsta lagi verða ekki allir menn, sem smakka vín á Íslandi, drykkjuræflar, svo er nú guði fyrir að þakka. En það er áreiðanlega ekki þessum mönnum að þakka. — En til þess að lækna þetta drykkjaskaparmein þarf að beina vínneyzlunni inn á aðrar brautir. Þm. sagði, að bindindishreyfingin hefði mörgum sinnum bjargað. Skal ég ekki bera á móti því, ég hef aldrei verið á móti bindindishreyfingunni, en hún rekur sig hins vegar alltaf á steinvegg, þegar hún er að hamast í því skyni að þurrka landið.

Hv. þm. Borgf. sagði, að náttúran hefði notið sín á meðan lokað var. (PO: Ég átti ekki við ónáttúru þm.) En ef náttúra fólksins á að fá að njóta sín, verða öll skilyrði til þess að vera fyrir hendi. Ef um ónáttúru væri að ræða hjá einhverjum, á að beina henni inn á nýjar brautir, svo að náttúrlegur lifnaðarháttur verði úr. Íslenzka þjóðin á ekki að vera eins og hundaþúfa í menningu nútímans.