09.04.1942
Neðri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

55. mál, lækningaleyfi

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Mér þykir rétt, vegna þess hvað þessi mál eru orðin mikil vandamál, að fylgja frv. með nokkrum orðum og minnast um leið með leyfi hæstv. forseta á næsta frv. á dagskrá, um breyt. á skipun læknishéraða [50. mál].

Eins og tekið var fram af hv. 2. þm. Rang. (HelgJ), á með hinum föstu aðstoðarlæknum að ráða bót á vandræðum héraðslækna, fyrst og fremst í fjölmennari héruðunum. Það verður að teljast alveg óviðunandi, að læknar séu bundnir svo hver á sínum stað, að þeir geti með engu móti losnað tíma og tíma sér til heilsubótar eða til annarra aðkallandi starfa, séu sem fangar án vonar um að losna. Það getur einnig komið ungum læknum vel að byrja starf í héruðum, þar sem æfðir læknar sitja og geta veitt þeim handleiðslu. Móti þessu frv. hefur ekki heldur verið spyrnt verulega. En þótt það verði að l., eru vandræðin aðeins að nokkru leyst, og því þótti nauðsynlegt að bera um leið fram frv. það, sem fyrir liggur, um lækningaleyfi, og vona ég, að allir séu farnir að sjá, þrátt fyrir mótmæli, að það er engu ónauðsynlegra. Ráð er að vísu fyrir því gert, að grípa megi til hvers aðstoðarlæknis, allt að þriðjung árs, til að gegna störfum í læknislausum héruðum, en það er ekki nóg til að ráða bót á læknisleysinu. Í sum héruðin hefur nú enginn læknir fengizt árum saman. Það hefur haft svo alvarlegar afleiðingar, að ekki er hægt að ganga fram hjá, og verður að ráða því bót.

Ágreiningurinn hefur aðallega verið um skyldu læknastúdenta til þess að taka að sér störf tiltekinn tíma úti í hinum læknalausu héruðum eða þar, sem þörfinni á aðstoðarlæknum er ekki fullnægt á annan hátt. Ég get verið sammála hv. 2. þm. Rang. um, að heimildina til að nota þessa skyldu eigi ekki að nota, fyrr en aðrar leiðir hafa verið reyndar, og þá aðeins að því leyti, sem þörfin kallar. Ég get tekið undir, að þetta er ekki fullkomin lausn, ekki fullkomin fyrir héruðin, sem Iæknislaus eru, að mega búast við að fá óreynda menn beint frá prófborði, og verst, að þeir fara svo e.t.v. strax að fenginni 6 mánaða æfingu sinni, þannig að stöðugt skiptir um. Eins og ég hef rætt um í hv. Ed., geri ég ráð fyrir, að jafnhliða setningu þessara l. verði launakjör lækna í dreifbýlinu bætt til samræmis við læknatekjur í fjölmennari héruðum. Þessi afskekktu héruð eru Iíka vanalega erfið læknishéruð, a.m.k. fyrir þá, sem kveinka sér við ferðalög í snjóum og brattlendi. Fyrir þá, sem þeim venjast, þurfa þau ekki að vera svo slæm. En fyrir þá, sem lengi hafa setið skólabekk og afvanizt slíku eða aldrei vanizt því, er þetta þjáning, a.m.k. fyrst í stað, og menn flýja læknishéruðin, — það er reynslan. Ef bættar tekjur lagfærðu þetta vandamál, eins og hv. 2. þm. Rang. vonar og læknastéttin heldur fram, þá væri vel, og mun brátt reynt. En ég er hræddur um, að hér ráði meira hin almenna pest í mannfólkinu, sem veldur því, að allir sækja þangað, sem þægindin eru, hvað sem fjárhagshlið líður. Hef ég þar alveg greinilegt dæmi úr Reykjarfjarðarhéraði. Þar hafa læknar haft stórfelldar aukatekjur á sumrin bæði í Djúpavík og Ingólfsfirði, en engir læknar hafa fengizt til að hafa héraðið nú í þrjú ár. Vitanlega getur það ekki stafað af öðru en því, að ferðalög geta orðið þar erfið og héraðið þykir sumum leiðinlegt að byggja. Ég þori alls ekki að treysta því, að það hrifi, þótt þessum héruðum væri sýnt fullt réttlæti peningalega móts við þéttbýlli héruð. Þó að illt sé að þurfa að setja þvingunarákvæði í l., er um ekkert annað að gera, ef það eitt dugir, eftir að ríkið hefur á sanngjarnan hátt reynt að koma móti óskum læknanna um fjárhagslegt réttlæti handa læknum í strjálbýlinu. Það er með. engu móti hægt að halda uppi skólum í landinu til sérmenntunar, nema ríkið tryggi sér um leið, að uppfyllt verði a.m.k. sú lágmarksþjónusta, sem á þarf að halda í slíkum tilfellum sem þessum. Ég vil hins vegar ekki láta til þess koma, að heimildin verði notuð umfram brýnar þarfir og að fullreyndri þeirri leið, sem læknastéttin telur nú færa í þessu máli.

Þetta vildi ég segja, áður en þetta mál og bæði þau mál, sem hér liggja fyrir, fara til n. og eru þar athuguð.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Rang. sagði um kjarabætur fyrir læknastéttina yfirleitt og þann drátt, sem orðið hefur á því að taka ákvörðun um það mál, vil ég gefa hv. þd. þær skýringar, að það mál var tekið fyrir í stj. á síðasta ári af þeim ráðh., sem þá fór með þau mál. En samkomulag varð ekki um það í stj., og var ákveðið að senda málið fjvn. til umsagnar, en umsögn hennar var á þá leið, að hún teldi nauðsynlegt að endursemja launal. og þau yrðu lögð fyrir þingið. Hins vegar hefur ekki verið samkomulag um það í stj. Ýmsir telja óheppilegt að semja launal. á tímum eins og þeim, er nú standa yfir. Málið kom því aftur til stj. og var þar tekið fyrir á ný, en ágreiningur nokkur er um það, hvernig þessum kjarabótum til læknastéttarinnar eigi að vera háttað. Læknarnir hafa fremur lág laun frá ríkinu, og þó að þeir fái dýrtíðaruppbót á þau, þá hafa þeir samt sem áður minni kjarabætur en aðrir embættismenn, vegna þess að þeir fá mikið af launum sínum fyrir læknisstörf, og er þar farið eftir taxta, sem er bundinn í gjaldskrá. Þeir fá því ekki dýrtíðaruppbót á nema lítinn hluta launanna. Nú hefur nokkur ágreiningur orðið um það, hvort ætti að hækka taxtann þannig, að þeir með því móti fengju sams konar kjarabætur og aðrar stéttir. En þá hefur verið á það bent, að þeir, sem eru í fámennustu héruðunum og hafa þar af leiðandi minnstar aukatekjur, mundu vera tiltölulega lægst settir, en þeir, sem eru í fjölmennari héruðum, mundu fá sin laun geysilega mikið hækkuð. Þá kemur einnig að því, hvort rétt sé að hækka taxtann, því að það sé ekki rétt að leggja það á sjúklinga að greiða læknum dýrtíðaruppbót. Þess vegna hefur verið komið með þá till., að ríkið greiddi læknum dýrtíðaruppbót, eins og þeir hefðu 650 kr. á mánuði, þ.e.a.s. meiri upphæð en þá venjulegu dýrtíðaruppbót á laun þeirra. Þetta er till. landlæknis, og væri með því brugðið út af þeirri venjulegu reglu um greiðslu dýrtíðaruppbótar. Ég geri ráð fyrir, að þetta mál verði afgreitt næstu daga, þannig að læknar fái sams konar kjarabætur og aðrir, og að það verði látið verka aftur fyrir sig, þannig að sá dráttur, sem orðið hefur á málinu, komi ekki að sök.