09.04.1942
Neðri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

55. mál, lækningaleyfi

Helgi Jónasson:

Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir skilning hans á þessu máli, og er hann nú meiri en verið hefur undanfarin ár. Ég er honum sammála um það, að ekki beri að beita þessum þvingunarráðstöfunum, nema fyrst sé búið að reyna að bæta launakjörin. Ég tel það alveg rétt að launa þessi embætti vel. Annars fæst enginn í þau. Hæstv. forsrh. vildi telja, að það væru ekki eingöngu launakjörin, sem yllu því, að læknar fengjust ekki í þessi héruð, og það er satt. Ein meginástæðan til þess, hve illa gengur að fá lækna í þessi héruð, er óttinn við það að fara í þau, óttinn við það að verða algerlega einangraður í þessum héruðum. Þó að læknana langi til þess að komast burtu, t.d. um stundarsakir, þá reynist það oftast ómögulegt.

En sem sagt, ef launakjörin eru góð, ætti læknirinn að geta komizt burtu um tíma sér til hvíldar og upplyftingar. En er nokkur von til þess, að nokkur læknir uni við það að hafa ekki nema 300–500 kr. í laun á mánuði, rétt eins og sendisveinár hafa nú hér í Rvík? Og ég verð að segja það, að ég hygg, að fáar stéttir þjóðfélagsins hafi sýnt jafnmikinn þegnskap í þessu efni eins og einmitt læknastéttin.