11.05.1942
Efri deild: 54. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

43. mál, húsaleiga

*Ingvar Pálmason:

Ég hef ekki heyrt allar umr., en ég heyrði, að hjá hæstv. fjmrh. gætti misskilnings á orðum mínum. Ég hef ekkert um það sagt í brtt. né annars staðar, að ekki geti verið um þau tilfelli að ræða, að almenningsheill krefjist, að gengið sé á rétt einstaklinga. En ég held því fram, að í smærri kaupstöðum sé gengið á rétt mikils fjölda einstaklinga að óþörfu, og það eigi ekki að haldast svo (SÁÓ: Ákvæðið var ómótmælt, þegar l. voru sett.). „Ómótmælt“ segir hv. 2. landsk., en ég held, að l. hafi alls ekki verið borin undir aðila utan Rvíkur. Það er þjóðhættuleg stefna, sem mér virðist fylgt meir og meir á síðari árum, að miða alla löggjöf, við ástand og þarfir Reykjavíkur og skella skolleyrum við sérþörfum annarra kaupstaða og annarra landshluta, nauðga upp á þá löggjöf, sem hæfir höfuðstaðnum einum. Mér er ekki kunnugt um, að húsnæðisvandræðin séu neitt nándar nærri slík í þeim kaupstöðum, sem brtt. mín nær til, eins og þau eru í Rvík, og í umræddum kaupstað, Nesi í Norðfirði, hafa þau ekki verið tilfinnanleg. Fólk hefur flutzt mikið milli húsa. Síðan þessi sala fór fram hafa verið seld ýmis hús þar, þar af tvö með tveimur gríðarstórum íbúðum og það lausum íbúðum, og þá hefði þessi maður getað keypt sér hús, ef hann hefði ekki áður verið búinn að festa fé sitt í hinu húsinu, sem hann treysti á að fá til íbúðar. Verzlunin um það hús fór í rauninni fram miklu fyrr en sagt er, var a.m.k. afráðin á s.l. vori, þótt afsalsbréfið sé ekki gert fyrr en í nóv., svo að biðtími mannsins er orðinn nægilega langur. Hv. frsm. segir, að hann geti kennt sjálfum sér um, hann hafi mátt vita um l. En geta menn gert sér í hugarlund, að l. verði sett, sem raska öllum áætlunum manna þannig og greinilega að óþörfu? Ég skil ekkí, hvaða kapp það er að geta ekki litið með sanngirni á svona mál og halda í svona löggjafaratriði, sem allir verða að viðurkenna, að séu ákaflega vafasöm utan Reykjavíkur. Það er ekkert nema firra, að ekki megi gilda önnur ákvæði utan Reykjavíkur en innan hennar. Vel má vera, að brtt. mín falli, en allir sanngjarnir menn munu fallast á, að hún fer ekki í bág við almenningsheill.