16.05.1942
Efri deild: 59. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

*Magnús Gíslason:

Herra forseti ! Ég get fallizt á þá hugsun, sem mér virðist liggja á bak við þetta frv., að það sé rétt að leggja til hliðar þann tekjuafgang, sem varð á síðasta ári, til þess að verja honum til stuðnings atvinnuvegunum að stríðinu loknu. En ég skil bara ekki vel eftir orðalagi frv., hv e mikil trygging er í því fólgin, að þetta takist, þó að frv. verði samþ., því að það fer eingöngu eftir því, hvernig afkoma ríkissjóðs verður á þeim árum, sem stríðið kann að standa enn þá. Ég þykist vita, að með þessu sé á engan hátt verið að binda hendur hæstv. Alþ. í framtíðinni um það, hvernig það búi út fjárl. Og það getur farið svo, að fjárl. verði svo úr garði gerð, að þau standist ekki í framkvæmdinni, þannig að þegar búið er að taka svo og svo mikið af tekjuafgangi undanfarinna ára frá, þá geti kannske orðið tekjuhalli. Á þá að taka lán, eða á þá að grípa til þessa fjár, sem fyrir hendi er? Það er ekki nema tiltölulega stutt síðan ríkissjóður var í 5 millj. kr. skuld við Landsbankann. Og aðaltekjur ríkisins eru tollarnir. Og ef eitthvað það kemur fyrir, sem dregur úr innflutningnum til landsins, þá minnka tekjur ríkissjóðs að sama skapi. Og það er ekkí víst, þó að það hafi gengið vel á síðasta ári að afla tekna fyrir ríkissjóð og útlitið um það á þessu ári sé líka sæmilegt, að það haldist lengi. Tímarnir eru svo óvissir, að maður veit aldrei, hve miklar þessar tekjur ríkissjóðs verða, hvort þær verða lengur eða skemur eins og þær hafa verið að undanförnu. Svo má í öðru lagi á það minnast, að við skuldum enn þá allmikið fé erlendis, rúmlega 20 millj. kr. í Bretlandi, sem ekki hefur verið hægt að greiða enn þá sökum þess, að það er ekki hægt vegna samninga um lánin. En ef það tækist að fá því til vegar komið með samningum, að við mættum greiða þau lán, þá er það spurningin, hvort það eigi að taka til þess lán innanlands eða nota til þess eitthvað af þeim tekjuafgangi, sem er í ríkissjóði. Mér finnst þetta ekkí vera svo vel athugað sem skyldi, og vildi ég því vekja athygli hv. þd. á því, að þessi möguleiki getur komið fyrir, kannske áður en. varir, að hægt verði að fá að greiða upp eitthvað af þessum lánum. Og ef það fengist, þá yrði til þessara greiðslna að taka annaðhvort eitthvað af því fé, sem handbært er til í ríkissjóði, eða taka til þess nýtt lán.