02.05.1942
Efri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

56. mál, sala Hólms í Seltjarnarneshreppi

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þessi brtt. hefur ekki komið fyrir allshn. og nefndin því ekki getað rætt hana. Hins vegar verð ég að segja það, að þar sem hér er aðeins um heimildarákvæði að ræða, verður að leggja það á vald ríkisstjórnarinnar að fylgja öllum formsatriðum, sem lög og venjur krefja.

Hins vegar liggur ekkert fyrir um það, að Mosfellingar hafi sömu skoðun á þessum málum og hv. 1. þm. N.-M., því að hann virðist hafa gengið í málið alveg óbeðinn.

Ég álít, að það sé allt af mikil tortryggni í garð bæjarstjórnar Rvíkur, að hún taki ekki tillit til þarfa nágranna sinna.

Nú hefur það verið upplýst hér í umr., að sauðfjáreign bænda í Mosfellssveit hefur minnkað hin síðari ár. Mun nú sauðfjáreign þeirra vera svipuð og Reykvíkinga. Hér er svo skotið inn nýju atriði, að hið nýreista rannsóknarbú ríkisins að Keldum þurfi á svo og svo miklu upprekstrarlandi að halda. — Sennilega verður þó land Rvíkur nægilegt handa þessu búi, ef það vill heldur hafa féð innan girðingar. Þessi hv. þm. gat þess svo að lokum, að hann hefði sýnt hæstv. landbrh. þessa till. og að honum hefði ekkert fundizt athugavert við hana.

Ég trúi því vel, að hann vilji gera flokksbróður sínum greiða, en hins vegar hefur hann sagt í viðtali við mig, að frv., eins og það er, sé algerlega fullnægjandi. Fjölyrði ég ekki frekar um þetta, en vildi gjarnan heyra hv. 1. þm. Reykv., sem er 1. flm. frv.