29.04.1942
Efri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

14. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 10. landsk. lýsti yfir reiði sinni út af því, að það hefði komið fram í ræðu minni, að komið g:rrti til mála að binda einhvern hluta af tekjum manna í Bretavinnunni. Mér finnst ekki., að hv. þm. þurfi að taka þetta á þennan hátt, því að það er öllum vitanlegt, að þegar verið var að undirbúa þessi lög og gera sér grein fyrir því, hvernig hægt væri að draga úr pundasöfnun bankanna sjálfra, þá var náttúrlega rannsakað til hlítar, hvaðan pundin komu. En í því sambandi voru auðvitað teknir til athugunar allir þeir liðir, sem til mála gat komið, að hægt væri að minnka pundastrauminn um. Þar höfðu menn fyrir framan sig alla þá læki, sem mynda hina stóru á.

Og eins og ég hef áður sagt, þá var komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki væri fært að stífla þennan læk né takmarka hann að nokkru leyti.

Það má vera, að hv. þm. hafi skilið mig svo, að ég teldi hægt að binda þetta með löggjöf, en það hefur ekki þótt fært. Það var lagt til hliðar sem óhugsanlegur möguleiki áður en frv. var lagt fram.

Hv. þm. skaut því inn í fyrirspurn sína, hvort nýlega hefði verið neitað um innflutningsleyfi frá Ameríku fyrir nýjum nauðsynjavörum, eins og t.d. járnvörum. Og fannst mér hann gera ráð fyrir, að það hefði verið gert, og að það væri óheppileg ráðstöfun, þar sem nú hefði rætzt úr um dollara. Í des., jan. og febr., og raunar marz líka, var ákaflega lítið um dollara. Þá þurftu bankarnir að lifa á yfirdráttarlánum, í von um væntanlegar dollaratekjur, en þá var ekki búið að koma því á að greiða fiskandvirðið í dollurum. Á þessu tímabili var það svo, að menn ræddust til að flokka niður það, sem bezt væri að nota þennan gjaldeyri í, og kaupa aðeins það, sem mest lá á að fá. Og það varð að gæta þess, að það skipsrúm, sem fyrir hendi var á hverjum tíma, yrði notað sem bezt, og að fyrst og fremst yrði það flutt, sem beinlínis vantaði, og eftir þessu hefur gjaldeyris- og innflutningsnefnu fyrirskipun frá ráðuneytinu um að haga störfum sínum. Það stóð alltaf til, og ráðuneytið var þess hvetjandi um þessar mundir, að taka meira lán í Bandaríkjunum, til þess að ekki þyrfti að láta dollaraskort hamla sér í viðskiptunum, en ýmsar tafir urðu í sambandi við þá lántöku, svo að ekki. varð úr henni fyrri en of seint, að farið var að rætast úr. En hins vegar var það um tíma svo, að innflutningsleyfi urðu að miðast við dollarainnistæðu, því að það þurfti ævinlega að borga um leið og varan var keypt.

Um járnvörurnar er það að segja, að við fengum ákveðinn „koda“ fyrir þær í Ameríku, ég held 10 eða 11 þúsund tonn. Og það var búið að tryggja, bæði af hálfu sendiráðsskrifstofunnar í Washington og innkaupanefndarinnar í New York, að þessar vörur eru fáanlegar. En til þess hins vegar að þessi „kodi“ gæti skipzt sem réttlátast niður milli innflytjenda, þá var ekki annað ráð fyrir hendi en að auglýsa eftir umsóknum um þessar vörur, til þess að þær gætu allar komið til athugunar í einu. En ef þessi aðferð hefði ekki verið tekin upp, gat farið svo, að sumir hefðu orðið útundan, en aðrir fengið meira en þeim réttilega bar. Það má vera, að eitthvert stutt tímabil hafi mönnum þótt standa á svari, en það hefur þá einungis verið vegna þess, að það varð að taka umsóknirnar fyrir í einu lagi. (JJós: Það var ekkert stutt tímabil, eða hefur hæstv. viðskmrh. ekki fylgzt með því ?) Það hefur þá engu að síður verið fyrir það, hvað innflytjendur hafa verið seinir að senda umsóknir sínar nógu snemma. Sem sagt, málið liggur þannig fyrir, að með aðstoð þessara manna fyrir vestan hafið hefur járnið verið tryggt, svo að það er nú til staðar fyrir þá, sem kunna að vilja kaupa það í gegnum viðskiptanefnd, sem hefur milligöngu um þetta í umboði ríkisstj. Annars hygg ég, að ef staðið hefur á þessum hlutum, þá sé það fyrst og fremst fyrir það, að mönnum gekk illa að fá forgangsleyfi vestra, og sendiherrann í Washington símaði, að það væri hætt við að reyna forgangsleyfi, því að það væri tilgangslaust. Aftur á móti ráðlagði hann að kaupa í gegnum opinbera stofnun. En eins og hv. þm. vita, þá er innflutningsverzluninni frá Ameríku þannig fyrir komið. að útbúin eru þar ýmiss konar forgangsleyfi, en ef ekki er hægt að fá þau, sem fyllilega er upplýst að á sér stað um sumar vörur, eins og t.d. stál og járn, þá er það keypt af opinberri stofnun, sem hér heima er viðskiptanefnd, en vestra 2ja manna nefnd í New York. Til viðbótar um járnið vil ég segja það, að það var, að ég hygg í janúar eða febrúar, auglýst af viðskiptamálaráðuneytinu, að menn skyldu senda járn- og stálpantanir sínar til ráðuneytisins til frekari fyrirgreiðslu, en það kom aðeins lítið af þeim, af því að menn vildu reyna forgangsleyfaaðferðina sjálfir, en hún hefur ekki reynzt framkvæmanleg.

Hv. þm. Vestm. sagði, að sér hefði í fyrra, undir meðferð þessa máls, verið gefið fyrirheit um það, að mönnum yrði leyft að kaupa skip og vélar fyrir frosin pund. Hann komst svo að orði, að það hefði a.m.k. verið hálfsvikið. Ég veit ekki, hvað hann á við með þessu. Eftir því sem ég bezt veit, þá hefur verið staðið við þetta til þessa. Hins vegar hefur það ekki verið samþ., að menn fengju heimild til þess að láta öðrum mönnum í té sín lokuðu pund, til þess að þeir gætu keypt fyrir þau skip eða vélar. Það var heldur aldrei tilætlunin. Ég hygg því, að þetta hljóti að vera á misskilningi byggt hjá hv. þm. (JJós: O, ekki mikið.) Það má vera, að pundanefndin hafi brugðið út af þessari reglu, og ef svo væri, þætti mér vænt um að fá að vita það.

Hv. þm. Vestm. gerði sér far um í sinni seinustu ræðu að sýna fram á það misrétti, sem kæmi fram gagnvart þeim mönnum, sem hefði byrjað atvinnurekstur sinn eftir að þessi pundalokun fór að eiga sér stað, miðað við þá, sem áður höfðu starfað og haft hafa tækifæri til þess að borga upp skuldir sínar og jafnvel safna einhverju í sjóði. Ég vil í þessu sambandi benda hv. þm. á það, að þegar þetta mál var til umr. í fyrra, var talsvert rætt um þessa hlið málsins og áherzla lögð á það af ýmsum, að félögum og einstökum mönnum yrði leyft að fá fé sitt laust til þess að greiða með því skuldir, fyrst og fremst venjulegar afborganir, og enn fremur aukaafborganir, ef þess var nokkur kostur. Og ég veit ekki betur en að það hafi yfirleitt verið mjög vel í þær umleitanir tekið, sem komið hafa til pundakaupanefndarinnar af þessu tagi. Það hafa skilyrðislaust verið afgreiddar yfirfærslur til greiðslu afborgana, og í nærri því öllum tilfellum hefur nefndin fallizt á að heimila greiðslur á verulegum aukaafborgunum, sem mér finnst sanngjarnt.

Þá spyr hv. þm., hvort ég sé reiðubúinn að athuga breytingu á fyrirkomulagi reglugerðarinnar út af þessum lögum. Það er rétt hjá hv. þm., að það hefur enn þá ekki verið gefin út reglugerð um þessi lög, og það er fyrir það, að þau atriði, sem komið gæti til mála að ákveða í reglugerð, eru þannig vaxin, að það hefur ekki þótt heppilegt að gera ákvarðanir um þau til frambúðar nú. En ég hef sízt á móti því, að þetta mál verði tekið af dagskrá og rætt í þeim fresti, sein fengist á umr. Ég get verið til viðtals í því hléi, sem þá skapaðist. Hins vegar er mér ekki ljóst af þeim ræðuhöldum, sem farið hafa okkar á milli, hvað fyrir honum vakir í þessu efni, eða hvaða tilefni gefur ástæðu til þess an fá þennan frest.

Ég sé ekki ásfæðu til að fara mínar út í þetta, en get fallizt á, að umr. verði frestað um skeið, og tekið til athugunar í hléinu, hvort hugsast gæti, að hægt væri að gera einhverja þá framkvæmd, sem gerði hv. þm. Vestm. ánægðari með lögin en nú á sér stað.