19.05.1942
Neðri deild: 61. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

141. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég ætla ekki að fara að deila við hv. 2. þm. Árn. um kosti og gildi samskóla og skal viðurkenna, að hann hefur mesta reynslu í því, hversu farsælt það muni vera að hafa slíkt fyrirkomulag. En hins vegar get ég sagt honum, að almenningur í Borgarfirði hefur litla trú á samskólum og óskar ekki eftir því að breyta um frá því, sem nú er, og eins og ég sagði áðan, er það sameiginlegt álit allra kvenfélaga í Borgarfirði, sem stendur á bak við þetta mál, og fyrir það er málið flutt. Það verður að telja, að meiri hl. þeirra manna, sem að skólanum standa, eigi rétt til þess að fá einhverju um það að ráða, hvar skólinn skuli standa. Það má vel vera, að þar, sem margir skólar eru, sé hægt að nota kennslukrafta að einhverju leyti sameiginlega, en þó yrðu kennarar við húsmæðraskólann að einhverju leyti að vera fastir kennarar. Annars skal ég geta þess, út af því, að hv. þm. talaði um sparnað í þessu sambandi við að byggja leikfimishús og sundlaug, að sundlaug er nú þegar fyrir hendi á þessum stað og er tilbúin til notkunar, svo að það er enginn aukakostnaður við hana, en hins vegar vantar þarna leikfimishús. Í þessu sambandi skal ég geta þess, að á þessum sama stað stendur til, að komi heimavistarbarnaskóli fyrir mikinn hluta héraðsins, og verður þá væntanlega hægt að nota sundlaug og leikfimishús sameiginlega fyrir báða skólana. Ég vil svo vænta þess, að málinu verði vísað til hv. landbn. að lokinni umr.