18.05.1942
Neðri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Steingrímur Steinþórsson:

Þetta mál er um það bil að fara út úr d. Ég vil ekki láta hjá líða að segja nokkur orð um það nú; þegar ég lít framan í þá nýju ríkisstj., af því að mér þykir einkennilegt, að þessi ríkisstj., sem hefur ekki samkomulag nema um eitt mál hér á þingi og er sett upp til þess eins að koma fram þeirri frumvarpsómynd, sem hér er á ferðinni, skuli enn kinoka sér algerlega við að segja um þan nokkurt orð, en láta hv. þm. V.-Ísf. algerlega einan um að verja það. Það virðist vera sú þjónkun, sem hann hefur gengizt undir í þessu samkomulagi, að taka að sér það skítverk að vera til andsvara hér í d. fyrir þetta frv. Mér þykir þetta nokkuð einkennilegt, að ríkisstj., sem er mynduð um þetta eina mál, skuli ekki segja eitt einasta orð um það hér, áður en það fer út úr d., og það því fremur sem hæstv. forsrh., meðan hann átti sæti í fyrrv. stj., lýsti yfir því við 1. umr., að hann væri mótfallinn þessu máli og teldi ekki rétt, að það næði fram að ganga á þessu þingi. Nú hefur hann gengið undir þetta jarðarmen að ganga inn í þessa nýju stj., sem hefur það hlutverk eitt að koma í gegn þessu máli, sem hann, hæstv. ráðh., fyrir fáum vikum hefur lýst yfir, að hann vildi ekki láta ná fram að ganga á þessu þingi. g verð að segja, að mér finnst þetta frv., sem er grundvöllur ríkisstj., ríkisstjórnin sjálf og sá sundurlausi stuðningur, sem hún hefur allt hvað eftir öðru, og það er enginn vafi, að það svarar allt hvað öðru og sömuleiðis undirbúningur þessa máls. Allt frá því, sem skeð hefur í janúar og byrjun febrúar í þessu máli, og til þessa dags sýnir gerla, hvers konar mál er hér á ferðinni.

Ég vildi aðeins leyfa mér að láta í ljós undrun mína yfir því, að stj. skuli ekki segja eitt einasta orð um þetta mál, áður en það fer úr fjölmennari d., um afstöðu sína til þess.

Ég vil svo með örfáum orðum snúa mér því, sem hv. þm. Borgf. sagði, því að þeir, sem hafa tekið til máls af hálfu Framsfl., hafa ekkert komið að því. Ræða hans var einkennileg og kannske það einkennilegasta, sem sagt hefur verið um þetta stjórnarskrármál, en þó mjög eðlileg.

Hv. þm. lýsir yfir því, að hann sé á móti því að afgreiða málið á þessu þingi, og þó ætlar hann að greiða atkv. með því, Hann lýsir yfir því, að hann sé á móti fjölgun þm., og til málamynda ber hann á þskj. 81 fram till. um fækkun, þannig að talan verði sú sama og áður. Hvað meinar hann með þessu, því að í næstu setningu segir hann: „Ég tel þetta ekkert atriði og ætla að greiða atkv. með frv., þó að þetta verði fellt: Að hugsa sér aðra eins framkomu á Alþ.,þm. skuli bera fram málamyndartill., sem hann lýsir yfir í umr. á Alþ., að hann meini ekkert með. En þetta er kannske mjög eðlileg afstaða hjá þeim mönnum, sem enn telja sig fulltrúa dreifbýlisins, því að þótt ég viðurkenni, að hv. þm. Borgf. sé einn af reyndustu, greindustu og gætnustu þm. á Alþ., þá veit hann vel, að þetta er aðeins byrjun á því, sem lýst var yfir af hv. 5. þm. Reykv. (SK), þar sem hann sagði, að síðar ætti að fá meira réttlæti, sem hann nefndi svo, en það er ekki hægt nema með því að afnema gömlu kjördæmin og annaðhvort gera allt landið að einu kjördæmi eða að taka upp nokkur stór kjördæmi. Þetta veit hv. þm. Borgf., um leið og hann greiðir atkv. með því að taka upp hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum. Hann ætlar sér að fylgja flokki sínum til þessa skemmdarverks gagnvart dreifbýlinu, eins og, hann hefur fylgt flokki sínum nauðugur svo oft áður.

Ég er, sannfærður um, að þetta er eitt stærsta hagsmunamálið fyrir dreifbýli landsins og að það er stór ógæfa að afnema þá skipun, sem staðið hefur, frá því að Alþ. var endurreist, að hér séu sérstök kjördæmi, sem hvert hafi sinn fulltrúa, sem komi fram fyrir það á Alþ. Þess vegna vil ég fyrst og fremst beina orðum mínum til þeirra, sem telja sig vilja hafa hagsmuni dreifbýlisins fyrir augum, því að það er óhugsandi, að þeir sjái ekki, til hvers leikurinn er gerður, þegar því er lýst yfir af þeirra eigin flokksmönnum, hvað það er, sem til er stofnað. Þetta mun greinilega verða dregið fram í kosningabaráttunni, sem nú er fyrir hendi í landinu. Þetta gerir það að verkum, að menn úti um landið sjá, hvert stefnir, og það er ekki víst, að þeir vilji ljá því lið sitt, að þessi frumvarpsómynd verði samþ. á þingi í sumar, því að það verður reynt að koma þjóðinni í skilning um, hvert er stefnt með þessu.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég tók það fram í upphafi þessara orða, að það, sem hefði komið mér fyrst og fremst til að standa upp nú, þegar umr. hér virtist vera að verða lokið, væri það, að ég hefði ekki heyrt neinn úr hæstv. stj. segja neitt um þetta mál, sem væri það eina, sem hún hefði samkomulag um eða fylgi til að koma fram. Mér virðist það því vera lágmarkskrafa til stj., að hún láti eitthvað til sin heyra um þetta eina mál sitt, áður en það fer úr þessari deild.