18.05.1942
Neðri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Forsrh. (Ólafur Thors):

Þessi síðustu orð hv. 2. þm. Skagf. eru alveg í fullu samræmi við allan loddarahátt Framsfl. í þessu máli. Hann veit það, sem allir vita, að á morgun eiga að hefjast umr. í áheyrn alþjóðar, þrjú kvöld í röð, um þetta mál. Það er bágborið verkefni stj. að fara að taka þátt í loddaraleik Framsfl. í því að tefja þetta mál. Þingið er búið að standa nægilega lengi, og hvítasunnan er fyrir höndum; og ég veit, að margir utanbæjarþingmenn eiga enga ósk heitari en að geta komizt heim af þingi fyrir hvítasunnuna. Málið verður að engu leyti skýrara, þó að við ráðh. förum að taka þátt í þessum umr. Í, útvarpsumr., sem nú fara í hönd, munu okkar skýringar koma fram, og ég vænti þess, að þá verði upplýst í áheyrn alþjóðar, að hægt er að færa fram mörg sterk rök með þessu máli, enda þótt við eins og langflestir aðrir sjáum ágalla á þessari skipan, sem hér á að lögfesta, og það er ekki enn séð, hver ríður feitustum hesti frá þeim umr., þar sem við leiðum saman hesta okkar um þetta frv. Það er ekki minn tilgangur að ganga af Framsfl. dauðum, en ég veit það, að ef þetta mál nær fram að ganga, verður hann að afhenda eitthvað af þeim sérréttindum, sem hann hefur haft. Það er sagt, að þeir, sem séu á banasænginni, fái stundum óráð og tali þá oft það, sem enginn maður geri með heilbrigðum sönsum. Og mörg þau rök, ef rök skyldi kalla, eru líkust óráðshjali deyjandi manns, og ég skal lofa honum því, að þótt hann hefji yfirreið um land allt til að skýra þetta mál frá sínu sjónarmiði, þá skal verða hafin eftir reið til að skýra, hveri rök eru fyrir þessu máli á báða bóga.