21.05.1942
Efri deild: 63. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (2469)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. minni hl. (Jónas Jónason):

Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort hann gefi ekki fundarhlé kl. 4, því að ég þarf þá að vera snöggvast á fjárveitinganefndarfundi, en vildi nota tímann þangað til. (Forseti: Ég býst við, að það verði fundarhlé.)

Ég ætla þá að víkja að nokkrum atriðum í ræðu síðasta ræðumanns, áður en ég kem að málinu sjálfu, mest til þess að sýna honum og öðrum hv. þdm., hve veikur sá málstaður er, sem hv. þm. berst fyrir. Hann heldur því fram, að sjálfstæðismenn úti um allt land séu ánægðir. yfir þeim breyt., sem flokkurinn berst fyrir. En þeir eru það ekki. Ég get að vísu ekki lagt fram sannanir fyrir því, en ég veit ekki betur en almenn óánægja sé hjá öllum sjálfstæðismönnum úti um byggðir landsins, ekki út af málinu sjálfu, heldur afleiðingum þess, hvernig flokkurinn neyðist inn í bandalag við kommúnista. Ég hitti í dag barnakennara úr sveit og spurði hann, hvernig stæði með pólitíkina hjá þeim þar í hreppnum. Hann svaraði því, að presturinn og aðrir, sem hafa fylgt Sjálfstfl. að málum, mundu ekki gera það núna, af því að þeim líkar ekki ráðabrugg flokksins. Þetta kemur fram við kosningarnar, og mun þm. reyna það þá, að mönnum er illa við þetta ráðabrugg.

Í öðru lagi heldur hann því ranglega fram, að það sé ekki nema lítill meiri hl. hjá Framsfl: í 6 tvímenningskjördæmum og það séu ekki dæmi fyrir því, að slíkur meiri hl. ráði. Ég vil í því sambandi benda honum á okkar ágæta bæ, sem við erum báðir búsettir í. Ef ég man rétt, höfðu þeir þrír flokkar, sem ekki fengu meiri hl. kosinn í bæjarstjórn, meiri hl., en Sjálfstfl., sem fékk meiri hl. í bæjarstjórn, hafði minni hl. atkvæða. Eftir sömu reglu ættu nú þessir 3 minni flokkar í Rvík að gera samband með sér um það, að sá minni hl., sem vann við kosningar í vetur, legði niður völdin og nýjar kosningar færu fram. Þetta er eitt af þeim dæmum, sem nærtækust eru. Nei, Sjálfstfl. fer með meirihlutavald í Rvík, og ég hef ekki heyrt nokkurn mann halda því fram, að hann notaði það vald með minni skörungsskap heldur en meirihlutaflokkar gera á þingi. Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar bæjarins í vetur man ég ekki eftir, að nokkrar af tillögum Alþfl. væru samþ. Alþfl., sem er næststærsti flokkurinn í bæjarstj., hefur kannske ekki álitið alla afgreiðslu þessara mála skynsamlega, en hann sagði ekkert um það. Það er því nýstárleg röksemdafærsla, að Framsfl., hafi fengið sinn meiri hl. hér á þingi ranglega. Það er aðeins spurt um, hver hafi fengið löglegan meiri hluta og hver hafi notað hann, svo að það er engin brú í þessari röksemd. Framsfl. hefur enga skjallega sönnun fyrir því, að hann verði áfram í meiri hl., og þess vegna ætti ,ekki að þurfa að breyta stjskr. í tilefni af því. Flokkar breytast eftir málefnum. Það er hinn rétti lýðræðislegi dómur. Þetta er eins, ef við framsóknarmenn hefðum gert samband við Alþfl. um að breyta og ógilda kosningarnar hér í Rvík og taka af þeim helminginn af því valdi, sem bæjarstjórnarneirihlutinn nú hefur. Það voru nægir vegir til þess, ef þingið hefði viljað breyta þessu. Einn af dómurum hæstaréttar sagði einu sinni, að ef þingið samþ. lög um að höggva mann, þá væru það lög. Þau lög, sem þingið samþykkir, eru lög, en þm. talaði hér um. að þau lög, sem meiri hl. samþ., væru ranglát. Þess vegna er það, að það, sem ég ætla að koma næst að og mun sérstaklega víkja að eftir hlé, er það, hvernig þessi stjskrbreyt. er til orðin.

Þessi stjskrbreyt. er byggð á hagsmunapólitík, undirbúningslaust og án undangenginnar rannsóknar. Hún er knúin fram í hasti og vantar alveg þann undirbúning, sem þarf að vera um meðferð stjórnarskrármáls. Þetta er allt af því, að það á að knýja fram ranglæti yfir réttlætinu, mundi þm. segja. Það er ekki verið að segja: Við skulum skipta tvímenningskjördæmunum í einmenningskjördæmi. Eða t.d. þar sem gert er ráð fyrir í frv., að Siglufjörður verði sérstakt kjördæmi, þá var auðvelt fyrir þá að segja: Við skulum láta Eyjafjarðarsýslu hafa 3 þm. hlutfallskosna. Af hverju var þetta ekki gert? Af því að Alþfl., sein undirbjó frv., heldur, að hann fái þm. á Siglufirði, en aftur býst Sjálfstæðisfl. við að fá annan þm. Eyfirðinga. Þess vegna mun þessi stjskr. ekki eiga langa lífdaga, því að hún stendur á brauðfótum. Hún er byggð á meiri heimsku en nokkurt annað mál. Það hefur ekki verið gerð nokkur minnsta tilraun til þess að vinna skynsamlega að henni eða láta undirbúning hennar nálgast nokkuð það, sem gerist um slík mál annars staðar. Þjóðin hefur ekki haft tíma til að átta sig á breytingunni. Það er ekki einu sinni kosin mþn. í málið. Það var síðast gert 1920 og einnig 1915, og í báðum þeim tilfellum var reynt að gera góða stjskr., en ekki reynt að níða neina sérstaka flokka niður. Þess vegna var fólkið með því, þegar landskjörnu þingmennirnir komu í stað hinna konungskjörnu. Það var af því, að þetta var byggt á reynslu.

Frá 1927–1931 var mjög náið samstarf framan af með þeim tveim flokkum, sem stóðu að ríkisstj., en þegar líða tók á kjörtímabilið, var það einn ævintýramaður, Héðinn Valdimarsson, sem nú er drukknaður pólitískum dauða í því hafi, sem hann hefur skapað. Hann sá það, að ekki var von um kjörfylgi fyrir sinn flokk, nema fundið væri upp eitthvert bragð. Svo rétt fyrir kosningarnar gerir hann leynisamning við Sjálfstfl. um að gera stjskrbreyt. En ef við athugum Noreg, þarf slík breyt. þar að vera 3–4 ár á leiðinni. Það má ekki bera slíka breyt. fram á árinu fyrir kosningar. Þjóðin á að hafa tíma til að gera sér grein fyrir henni, og það á að útiloka laumuspil og vélræði eins og það, sem Héðinn Valdimarsson innleiddi árið 1931. Þess vegna má nærri geta, hvaða undirbúningur það var á þessu máli, þótt Héðinn Valdimarsson semdi við Jón Þorláksson um breyt. á stjskr., án nokkurrar þeirrar málsmeðferðar, sem þarf um slík mál. Og hvaða undirbúningur var undir þetta mál hjá Sjálfstfl.? Hann var sá, að hinu látni foringi, Jón Þorláksson, var búinn að halda því fram, að hlutur kjördæmanna yrði að vera óskertur. En af hverju féll Jón Þorláksson í freistni? Það var af því, að flokkur hans hafði verið að tapa fylgi í sveitunum, og þá var það hvorki meira né minna, sem átti að gera í þessu laumuspili, en leggja niður kjördæmin, sem voru arftakar gömlu goðorðanna. Það átti að sameina 6–7 kjördæmi og þurrka út öll þeirra einstaklingseinkenni, sem þau höfðu haldið í gegnum allt okkar niðurlægingartímabil, gegnum alla kúgunartíð Norðmanna og Dana, og svo átti að gera þetta upp eins og reikning fyrir Bridgespil.

Ég ætla ekki að fara mikið út í þetta. Það endaði með þingrofinu 1931 og kosningunum á eftir. Fólk kvað upp þungan áfellisdóm yfir þessum mönnum, og hvorugur þessara herra hafði þor til þess að byrja á þessu á nýjan leik. Ef til vill fá þeir, sem standa að þessari breyt., ekki eins þunga áminningu upp úr þessari breyt., en það vil ég biðja þennan hv. þm. að muna, að það getur farið svo, að hans flokkur fái þá ráðningu, að þeir óski þess, að þeir hefðu ekki farið út í þetta. Kosningarnar 1931 læknuðu sjálfstæðismenn af því að vera að bræða sig saman við pólitíska glæframenn, því að kjósendur hafa fyrirlitningu á slíku og hafa það til að segja, að það sé eitthvað til, sem heiti héraðaréttur.

Upp úr þessum jarðvegi spratt stjskrbreyt. sú, sem nú er borin fram, og það gerist á þann hátt, að sami maður, Ásgeir Ásgeirsson, sem bar fram þessa breyt., var eini þm., sem Framsfl. fékk kosinn 1931, sem var linur í trúnni á rétt héraðanna, og þessi maður vann það sér svo til augnabliksbrautargengis að svíkja umbjóðendur sina til þess að verða stjórnarforseti. Honum tókst með þessu móti; með algengu liðhlaupi, að eyðileggja, eftir því sem hægt var, dóm kjósenda frá I931. Og ég ætla að gleðja hv. þm. meiri hl. með því, að maðurinn, sem vann mest að þessari svikamyllu, Jón Jónsson í Stóradal, kúgaði Sjálfstfl. á áberandi hátt í samningum til þess, sem hann óneyddur hefði ekki viljað gera. að hafa landslistann ekki raðaðan, heldur væri það tilviljun sem réði, en hún var þess eðlis, að ef Framsfl. við síðustu kosningar hefði unnið Seyðisfjörð, þá var ekki útilokað, að komið hefðu kommúnisti, alþýðuflokksmaður og sjálfstæðismaður sem uppbótarmenn úr kjósendahópi Seyðisfjarðar. Það lá við borð, að það kæmu 2 þm. fyrir Seyðisfjörð, þó að tilviljun réði, að svo varð ekki. Þess vegna er það ef til vill fróðlegt fyrir hv. þm., ef hann veit það ekki, að heyra það, að Jón í Stóradal reiknaði út svo persónulega þetta dæmi og lagði á það slíkt ofurkapp, að það væri þessi tilviljun með uppbótarþm., af því að hann bjóst við að verða eftirmaður Guðmundar í Ási, en gerði ráð fyrir, að Þórarinn á Hjaltabakka, sem þá var aðalmaður Sjálfstfl., kæmist þar að sem uppbótarmaður. Svona var langt gengið í smáleik, þegar verið var að útbúa stjskr., að það voru gerðir útreikningar, um, hvernig þessir menn gætu unnið kjördæmi. En hvorugur fékk þetta hlutskipti og allra sízt sá, sem bjó það út, Jón í Stóradal.

[Fundarhlé.] Ég var kominn að því atriði í sögu undirbúnings þessa máls að minnast á lausatökin, sem voru á stjskrmálinu frá 1933–34. Ég hafði minnzt á, hvernig aðalmaðurinn, Jón í Stóradal, hafði komið sumum þessum atriðum fyrir, sem áttu að verða honum í hag og hans kunningjum. Og þetta bar þann ávöxt, sem mönnum er kunnugt; sem sátu á þingi, að Jón Þorláksson tók sér svo nærri, að stjskr. var gerð með þessum endemum, að hann lét það verða til þess, að hann hætti að bjóða sig fram og sagði af sér formennsku flokksins. Svo mjög þótti þessum mæta manni á skorta um skynsamlegan undirbúning málsins. Og þegar um þessar breyt. er að ræða, er sama undirbúningsleysið á ferð. Ef Sjálfstfl. hefði talið nauðsynlegt að endurbæta stjskr., þá hefði hann á þessum 8 árum komið með þáltill. um að setja mþn. til að rannsaka stjskrmálið. Alþfl. hefði getað gert það sama. Hvorugur flokkanna gerir neitt í því, og er ekki sýnilegt, að þrengi neitt að þessum flokkum. Þessi vanræksla og síðan þetta fum Alþfl. í vetur um stjskrbreyt. verður til þess, að sömu ágallarnir haldast og voru hjá Jóni í Stóradal og Ásgeiri í fyrra skiptið. Það er ekki leitað til erlendra fyrirmynda á nokkurn hátt. En sá ráðh., sem hefur bætzt inn í ríkisstj. í tilefni af þessu máli, Magnús Jónsson guðfræðiprófessor, hefur einmitt sagt um að fyrirkomulag, sem á að taka upp, að það væri svo mikil vitleysa sem mest gæti verið. Þetta var það, sem hann sagði fyrr, og það er satt og rétt.

Ég vil nú víkja að því atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl., að hann taldi það óhjákvæmilega réttlætið, að það stæðu helzt jafnmargir kjósendur að hverjum þingmanni. En í Noregi t.d. er stjskr. þannig úr garði gerð, að bæirnir geta aldrei haft nema einn þriðja af þm., og Osló ekki nema 7 þm. af 150 þm. Og það hefur ekki þótt taka því að breyta þessu. Ég vil sérstaklega benda fulltrúum Alþfl. á, að þeirra samherjar í Noregi, sem lengi hafa verið áhrifamikill flokkur og farið með völd, hafa ekki reynt að gera neina breyt. á þessu, en hafa sætt sig við eina stjskrbreyt. í Noregi á 3–4 árum. Í Noregi er það beinlínis stjórnskipulega lögfest, að þjóðin skuli að verulegu leyti taka tillit til annars en höfðatölunnar, nefnilega landsins sem heildar, láta dreifbýlið hafa tiltölulega meiri áhrif á þennan hátt á þjóðmálin, af því að þéttbýlið hefur sín áhrif með fjármagni og ýmsum hætti. Og það, sem er fordæmanlegt í framferði Alþfl. og Sjálfstfl., er, að þeir hafa ekki reynt að afla sér nokkurra upplýsinga, — það eru meiri líkur til, að þeir hafi ekki vitað þetta, — því að það er töluvert hart að gera sér stjskr. með allt öðrum hætti en aðrar siðaðar þjóðir, flaustra breyt. á henni hvað eftir annað undirbúningslaust og án tillits til reynslu annarra. Það eru nákvæmlega sömu orsakir í bæði skiptin, að nokkrir menn vilja ná augnablikshagnaði og gera þá hluti, sem þeir telja andstæðingnum koma verst, en sjálfum sér bezt. En slíkum verknaði fylgir þung ábyrgð. Hvað engilsaxneskar þjóðir snertir, þá er algerlega gengið fram hjá reynslu þeirra. Hvorki meira né minna en England, öll enskumælandi sambandslönd þeirra og öll Bandaríkin hafa byggt á því fyrirkomulagi, sem við nú búum við, nema við höfum leitt inn hlutfallskosningar með landkjörinu.

Ef um nokkurn skipulegan undirbúning hefði verið að ræða á stjskrbreyt., þá hefðu verið samdar um málið fræðilegar ritgerðir, dreift um landið og málið rætt við kjósendur. Þá hefði komið í ljós fyrir allra sjónum, að öndvegislönd frelsisins hafa einmenningskjördæmi og ekki það fyrirkomulag, sem hér á að taka upp, Það eru þessi lönd, sem, nú á þessum erfiðu tímum halda uppi kyndli lýðræðisins. En í löndum, sem hafa reynt að ná réttlætinu með hlutfallskosningu, eins og hæstv. atvmrh. lýsti ýtarlega í útvarpsræðu sinni í gær, hefur pólitískt líf og lýðræði grotnað niður, en óendanleg mergð flokka þotið upp, eins og t.d. í þýzka ríkinu. Í enskumælandi löndum, einu löndunum, sem standa uppi með sína þjóðfélagsskipun, þar er hlegið að þessu fyrirkomulagi, t.d. hlutfallskosningum eins og í Rvík., og enn þá hærra er hlegið að hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmum. Núverandi hæstv. atvmrh. á mikið hrós skilið fyrir að hafa fyrr á tímum sagt rétta orðið um þetta, nefnilega að það væri eindæma vitleysa. Það er svo mikill vísdómur í þessari eina setningu ráðh., að ég er ekki fyllilega sannfærður um, að nauðsynlegt sé að fella hann úr stj. strax, vegna þess að .þessum glampa hefur brugðið fyrir í hans anda, sem getur e.t.v. orðið lýsandi fyrir aðra menn, þegar tímar líða, því að þessi setning verður undirstaðan að stefnunni, þegar þetta mál verður leiðrétt aftur.

Þessi hlutfallskosning í tvímenningskjördæmum er bersýnilega hugsuð fyrst og fremst vegna þess, að viðkomandi flokkar hafa örvænt um það að ná meiri hl. á landsbyggðinni með réttum rökum. Ef þessir flokkar vildu fá eðlilega þingræðislegt skipulag, þá mundu þeir frekar leggja til að skipta tvímenningskjördæmunum, og til þess þyrfti ekki nema einföld lög. Og þá væri ekki hægt að segja, að þessi skipting væri gerð til bráðabirgðahagsmuna fyrir nokkurn flokk, því að það væri lítt hægt að segja, hvar meiri hl. myndaðist eftir skiptinguna.

Hv. frsm. meiri hl. taldi það ósvífið að ætla framsóknarmönnum að hafa öll 12 sætin í tvímenningskjördæmunum, af því að meiri hl. samtals væri svo lítill. Eftir sömu hugsun hefðum við framsóknarmenn átt að bera fram till. eftir bæjarstjórnarkosningarnar um að taka bæjarstjórnar-meirihlutann úr höndum sjálfstæðismanna, með því að á bak við hann er minni hl. kjósenda í bænum. Það hefði verið hægt að búa til einhver svikalög til að taka af núverandi borgárstjóra hans vald til hálfs, ef við hefðum verið nógu miklir labbakútar til að gera það.

Ég vil enn fremur beina því til hæstv: atvmrh., hvernig á að skilja það, að hans flokki þótti svo nauðsynlegt að gera þessa stjskrbreyt. nú, mitt í ófriðnum. Þetta mun verða eitt af því, sem skaðar Sjálfstfl. mest í kosningunum, því að ýmsir góðir menn eru svo óánægðir með þetta ástand og að rjúfa samvinnuna af þessum ástæðum. Sumir munu því sitja hjá og aðrir kjósa með framsóknarmönnum til að sýna sinn óvilja.

En úr því að farið er út í stjskrbreyt., hvers vegna þá að láta það standa óhreyft, að konungur Dana sé okkar konungur2 Flokkurinn hefur sem fyrsta lið á stefnuskrá sinni skilnað Íslands og Danmerkur. Skilnaðurinn er svo undirbúinn af rás viðburðanna ag ályktun Alþ. Hvers vegna ekki að setja í stjskr., sem á að kjósa um, að lýðveldi sé sett á stofn? Ég hygg það stafi af því, að innan þessa meiri hl., sennilega frekar af hálfu Alþfl. en Sjálfstfl., eru menn, sem ekki kæra sig um skilnað. Það kom a.m.k. fram í stjskrn. í Nd., að formaður hennar, hv. þm. V.- Sk., vildi taka þetta upp, en bæði menn úr Sjálfstfl. og einnig menn úr Alþfl. og kommúnistar vildu ekki. Þetta er svo ótrúlegt, að það getur varla leynzt á bak við annað en að það eigi að leggja þetta á hilluna. Því að ef það er meiningin að skilja, þá er eins gott að gera það nú. Því að það er einskis virði sá undirbúningur, sem hægt er að hafa fyrir kosningarnar. Það eru mjög fáir menn fyrir utan þingflokkana, sem hafa sérstaka aðstöðu til að rannsaka þetta mál eða þingflokkarnir taka gilda. Þetta er mál, sem allar líkur eru til, að verði leyst af trúnaðarmönnum þingflokkanna. Og hvernig á. hæstv. atvmrh., sem verður í kjöri og hefur vandasama stjórnardeild, eða aðrir slíkir að leggjast djúpt í rannsókn þessa máls og koma með skipulag fram á næsta þingi? Þess vegna verð ég yfirleitt að segja, að ég tel þetta veilu á þessu frv. um stjskr. Ég skal geta þess, að í fórum fyrrv. stj. lá fyrir uppkast, sem undirbúið var af færustu lögfræðingum landsins, sem bæði felur í sér óhjákvæmilegar leiðréttingar á stjskr., sem ekki geta orðið deilur um, og enn fremur eru atriði, sem fylgja því, að Ísland verði lýðveldi og vald konungs færist á hendur forseta. Það er ekki gert ráð fyrir annarri efnisbreyt. Og um þetta hefur þingið verið sammála, enda hefur ríkisstjóri fengið þetta vald með alþingissamþykkt.

Hins vegar mætti segja, að það mætti líta í aðrar áttir en til nágrannaþjóða okkar um lýðræðisfyrirkomulag, nefnilega Bandaríkjanna. Þar er fyrirkomulagið byggt upp gagngert á annan hátt um kosningar og margt fleira. Til þess að byggja eitthvað á þeirri fyrirmynd þarf ýtarlega rannsókn og miklar umræður. Þar af leiðandi er ekki hugsanlegt, að á þessum fáu vikum, sem eiga að líða til væntanlegs sumarþings, að gera neina rannsókn, sem sé nokkurs virði í þessu efni. Það verður, ef slík n. verður kosin, ekkert annað gert en að taka þetta frv., sem liggur fyrir frá fyrrv. ríkisstj., sem er alveg til og var hægt að taka upp nú.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta meira og mun mjög lítið taka til máls aftur, með því að þessu máli er þegar ráðið til lykta með samkomulagi. Það væri sama, þó að engill frá himni kæmi og talaði sínu himneska máli, það mundi ekki sannfæra þessa menn, — ekki einu sinni prófessorinn í guðfræði. En ég hef hins vegar talið rétt að benda á það, að þessi stjskr. er byggð á ranglæti og sérstaklega vanþekkingu, ákaflega mikilli. Þessi stjskr. er eins og stjskr. Jóns í Stóradal, hrákasmiði, byggð upp af mönnum, sem alls ekki hafa rannsakað skipulag frjálsra þjóða með. þekkingu, heldur er hlaupið af stað með mestu léttúð til þess aðallega að' ná sér taki á andstæðingnum, sem þó engar líkur eru til að náist. Ég vil benda á, að eftir það að átti að kreppa alvarlega að Framsfl. 1933–4, hefur að vissu leyti staðið yfir hið merkilegasta tímabil síðan 1875. Ríkisstj. hefur verið undir forustu manna úr þessum flokki í samfleytt átta ár, þrátt fyrir margs konar stórbreytingar í landinu. Flokknum óx ásmegin, hefur verið trúað fyrir stjórn landsins þennan tíma, og hann hefur tekið með öðrum flokkum þátt í hinum vandasömustu lausnum fjölmargra mála. Þetta vil ég benda þeim á, sem hafa trú á því hrákasmíði, sem Ásgeir Ásgeirsson er fær um að búa til, hvort sem það er 1933 eða 1942.

Af því að hér sitja nú tveir forráðamenn Sjálfstfl., vil ég endur taka það þeim til minnis, að hans mikli leiðtogi, Jón Þorláksson, taldi sig nauðbeygðan til að hætta að vera forsvarsmaður kjördæmamálsins og formaður flokksins fyrir það, að hann átaldi svo mikið eina af þessum svikabrellum, sem aðrir sjálfstæðismenn höfðu komið inn.

Sá flokkur, sem Ásgeir Ásgeirsson hefur brugðizt, hefur haft ástæðu til að telja, að kosningalukkan og dómur þjóðarinnar hafi staðið með honum um þennan tíma. Ég vil spá því, að þó að stjskrbreyt. gangi fram, sem ég býst við, að verði stöðvuð í sumar, verði hvorki Alþfl. né Sjálfstfl. gagn að þessu hrákasmíði, af því að til er innra réttlæti í hlutunum. Og ég vil benda á, að þó að Sjálfstfl. vaxi, er því svo farið, að það eru engar líkur til, að hann geti stjórnað í anda sinna ráðsettu manna nema með hjálp Framsfl. En enginn segir, að Framsfl. verði þess ekki langminnugur, hversu nú er að farið. Sjálfstfl. mun finna, hvernig upplausnaröflin eru. Það kemur að því, að Framsfl. getur sagt sitt stóra orð, og hann mun leggja sína þungu hönd á vogarskálina til að bjarga landinu. Ef þessi stjskrbreyt. verður samþ. nú, verður það fyrsta verk Framsfl. að heimta varanlega, mþn. til að breyta henni, ekki með ræfilsvinnubrögðum, heldur vinnubrögðum, sem eru byggð á þekkingu. Við munum sækja fram til að þvo blettinn af okkar stjórnarskrá.