19.03.1942
Neðri deild: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Um skemmdir af völdum tundurdufla, sérstaklega fyrir Austurlandi og Norðausturlandi hefur verið rætt í ríkisstj., og er þeim umr. að miklu leyti lokið. Þetta mál hefur verið rætt á þeim vettvangi, hvort þeir aðilar, sem fyrir tjóni af þessum skemmdum hafa orðið, fengju greiddar skaðabætur vegna þessa tjóns fyrir milligöngu hernaðaryfirvaldanna brezku frá brezku stjórninni. En það hefur komið í ljós við umr. um þetta mál, að það er ekki líklegt, að það sé hægt að fá peninga greidda með þeim hætti, sem stafar af því, að tjónið af tundurduflum er mjög víðtækt, bæði hér við land og annars staðar við strendur landa samanlagt. Og herstjórnirnar, sem slíkar skaðabætur sem þessar, sem hér er rætt um, eru gerðar kröfur til um, telja oft ekki hægt að sanna, frá hvaða hernaðaraðila tundurduflin eru í hvert skipti, sem springa og valda tjóni, svo sem t.d. við strendur Noregs og Danmerkur, og það sama gæti líklega að einhverju leyti átt við hér við land um þau tundurdufl, sem springa. Auk þess hygg ég, þó að hægt væri að sanna um slíkt, þá mundi hlutaðeigandi hernaðarþjóð ekki undir neinum kringumstæðum ganga inn á svo víðtækar skaðabætur, sem af því mundi leiða, ef greitt væri tjón það, sem þessi tundurdufl valda. Það hefur verið komizt að samkomulagi um það, hvernig ætti að fyrirbyggja, að þessi tundurdufl geti framvegis valdið því tjóni, sem þau hafa gert hingað til, sem er fyrst og fremst í því fólgið að reyna að eyðileggja þau, en inn á umr. um það ætla ég ekki hér. En eftir að málið hefur verið rætt á þeim grundvelli að fá skaðabæturnar greiddar frá þeirri þjóð, sem líklegast er talið, að hafi lagt þau dufl, sem hér springa, hefur það ekki verið tekið upp í ríkisstj. að láta þetta tjón falla undir ákvæði þessara laga. Það er náttúrlega atriði, sem má taka upp og líklegt er, að verði tekið upp, skemmdirnar, sem hafa orðið og kunna að verða af völdum þessara tundurdufla, enda þótt gerðar hafi verið ráðstáfanir til þess að fyrirbyggja sem mest, að tundurduflin geti valdið því tjóni framvegis, sem orðið hefur hingað til af völdum þeirra.