30.04.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (2608)

117. mál, Kollabúðarheiði

Flm. (Finnur Jónsson):

Ég hef flutt þessa þáltill. fyrir sérstakar óskir frá bæjarstjórn Ísafjarðar og sýslunefnd N.-Ísafjarðarsýslu. Ég býst við, að fleiri mundu undir till. taka, þar sem mikill hluti íbúanna á Barðaströnd og V.-Ísaf jarðarsýslu kæmist í beint vegasamband við Reykjavík, er till yrði samþ. Þá er sérstök nauðsyn á því að koma á akvegasambandi við Vestfirði, vegna þeirrar miklu hættu, sem orðin er á siglingum með ströndum fram. Vestfirðir eru ekki enn komnir í þjóðvegasamband landsins, og ef nokkur möguleiki er á að leggja veg yfir Kollabúðarheiði, ætti að nota tækifærið nú, þegar ofan á þá nauðsyn, sem áður var á lagningu þessa vegar, bætist tundurduflahættan. Ég hef ætlazt til, að þessi till. yrði samhljóða brtt., sem hv. þm. Barð. flutti í þinginu, um veg yfir Siglufjarðarskarð. Ég læt mér í léttu rúmi liggja, í hvaða formi hún verður samþ., ef hún aðeins nær fram að ganga. Vildi ég biðja hæstv. forseta að bera fram till. um að vísa þáltill. til fjvn. að lokinni umr. Ég tel sennilegt, að hægt verði að fá verkamenn til vegagerðarinnar á Vestfjörðum. Þar er engin Bretavinna, og margir kjósa heldur að hafa sumarvinnu nálægt heimili sínu heldur en í fjarlægum landshlutum.