24.04.1942
Neðri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (307)

30. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

*Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson):

Eftir beiðni hæstv. forseta mun ég nú ekki fara inn á einstök atriði þessa máls, þar sem tíminn er naumur. En ég vil aðeins benda á það, að mér finnst það ákaflega harðvítugt gagnvart okkar sjávarútvegi að neita honum um jafnnauðsynlega löggjöf og þessa, ár eftir ár, með þeim rökum, að málið sé ekki nógu vel undirbúið, og það 4 árum eftir, að málið var borið fyrst fram.

Ég vil benda á það, að þegar er orðið stórt tjón af þessum drætti, þar sem við höfum sleppt þeim tekjuhæstu árum, sem komið hafa fyrir sjávarútveginn, síðan landið var numið. Um allt þetta skraf um undirbúningsleysi er það að segja, að allsherjar félagsskapur sjávarútvegsins hefur fjallað um þetta mál, og nú á landsþinginu var þetta samþ. Einstakar deildir þessa félagsskapar hafa rætt um þetta ár eftir ár og komið með kröfu um, að eitthvað verði gert í þessum málum.

Ég vil spyrja háttv. minni hl. um það, hvort honum fyndist landbúnaðarmál illa undirbúið, ef Búnaðarfél. Íslands hefði það til meðferðar ár eftir ár og það væri síðan tekið tvisvar fyrir á búnaðarþingi, auk þess sem einstök búnaðarfél. ræddu það og gerðu um það sínar till. Andstaðan gegn þessu máli hefur alltaf komið úr sömu átt, og verður að skeika að sköpuðu, hvort andstæðingunum tekst enn að hindra framgang þessa nauðsynjamáls, sem ekki þolir neina bið.