12.05.1942
Neðri deild: 56. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (318)

11. mál, sauðfjársjúkdómar

*Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Landbúnaðarnefnd hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Minni hlutinn, flutningsmaður, vill samþykkja málið, en meiri hlutinn, 3 nefndarmenn, leggur til, að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, og annar minni hluti skilar sérstöku áliti.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa skoðun nefndarinnar, því að það er tekið fram að mestu leyti í nál. því, sem hér liggur fyrir á þskj. 363. Ég skal þó geta þess, að málið var sent til álits og athugunar búnaðarþings og sömuleiðis til umsagnar sauðfjársjúkdómanefndar. Búnaðarþing gat ekki fallizt á að mæla með frv., eins og skýrt er frá í nál. Álit sauðfjársjúkdómanefndar er einnig prentað hér, og leggur hún einnig á móti því, að frv. verði samþ. Það, sem við sérstaklega höfum á móti þessu frv., er, eins og tekið er fram í okkar nál., að við teljum ekki rétt að fella niður þá liði úr lögunum, sem eru um styrki til vegabóta og jarðabóta og styrki til nýrra framleiðsluframkvæmda. Það er ekki nokkur vafi á því, að þessir liðir, a.m.k. sumir, koma að mestum raunverulegum notum fyrir bændur, þannig að menn, fyrir þá, geta stækkað bú sín og lyft þeim og að með lagningu nýrra vega geta þeir breytt búum sínum úr sauðfjárbúum í kúabú og á þann hátt komið undir sig fótunum aftur með nýju búskaparlagi og nýjum aðferðum og þannig létt á ríkissjóði þeim styrk, sem þeim er ætlaður, vegna þess að sauðfjársjúkdómanefnd hefur það fyrirkomulag að draga fra ákveðna tölu fjár fyrir hverja kú, sem bóndinn eignast, og á þann hátt létta á fóðrunum fyrir nefndinni. Það er ekki nokkur vafi á því, að þetta fyrirkomulag er mikið til bóta og getur óbeinlínis orðið til þess að létta þann stuðning, sem bændur ættu að fá eftir þessum lögum. Því að því stærra sem kúabúið er, því minni er styrkurinn vegna fjárpestarinnar.

Þá tel ég ekki rétt að gerbreyta því kerfi, sem nefndin hefur smátt og smátt skapað. Það er erfitt að úthluta bótum svo, að öllum líki, en ég er ekki í vafa um, að með þeirri samvizkusemi, sem nefndin leggur í störf sín, kemst hún næst því að úthluta réttlátlega, og hún leggur sig mjög fram um að haga svo styrkveitingum sínum, að þær komi að sem mestum notum og séu sem réttlátastar. Upphaflega, þegar þessi lög voru samþykkt og grundvöllurinn lagður, var gengið út frá því, að bætur yrðu veittar eftir því, hve miklu tjóni bændur hefðu orðið fyrir vegna fjárpestarinnar. Auðvitað er þetta aldrei bætt til fulls, en eftir því, sem kraftar ríkisins hafa leyft, hefur verið reynt að úthluta sem næst því, að það yrðu bætur fyrir orðið tjón. Það er ekki hægt að neita því, að nefndin hefur á ýmsum sviðum orðið að ganga lengra og hefur reynt að veita þeim, sem fátækastir eru, öllu meiri styrk en öðlum, og tel ég ekki hjá því komizt að haga þannig störfum áfram. Hins vegar, ef grundvellinum væri kippt undan því bótakerfi, sem nefndin hefur skapað, eins og ætlazt er til í frv. á þskj. 11, þá tel ég það stórt spor aftur á bak í þessu.

Það er ætlazt til þess í frv., að veittur sé uppeldisstyrkur, kr. 25.00, á hvert lamb, sem sett er á á þessum svæðum, jafnvel þótt veikin hafi ekki komið til einstakra manna á svæðinu, og er ætlazt til, að það verði aðalbæturnar, en nú vitum við, að svo er komið, að fjárstofn manna er mjög misstór á þessum svæðum. Menn hafa haft mismunandi krafta til þess að halda búinu við og jafnvel kaupa í skörðin. Þeir, sem sterkir hafa verið, hafa nokkurn veginn getað haldið búum sínum við, en hinir orðið svo að segja fjárlausir. Ef nú frv. hv. þm. A.-Húnv. yrði samþ., lenti styrkurinn óhjákvæmilega mest til þeirra, sem fjársterkastir eru og ríkastir, en menn fengju þeim mun minna sem þeir væru fjárfátækari, og það er því ekki nokkur vafi á því, að hér er beinlinis verið að lækka styrkinn til hinna fátækari, því að vitaskuld yrði það þannig; að þegar menn eiga vissan ákveðinn styrk til þess að ala upp lömb sín, mundu þeir setja á þau lömb, sem þeir gætu, til þess að fá uppeldisstyrkinn. Það gæti farið þannig, að þeir mundu lóga meiru annars, því að ef þeir eru vissir um að geta fengið 25 króna styrk fyrir hvert lamb, setja þeir á til þess að njóta þessa fjár. Nú er það þannig, að þeir, sem hafa sterkan stofn eða eru búnir að koma sér honum upp, selja á hverju hausti til bænda, sem setja á, og samkvæmt þeim reglum, sem nú gilda, fá þeir líka styrk, en mér skilst eftir þessu, að þeir mundu ekki setja á, og yrði þetta beint og óbeint til þess að bæta aðstöðu hinna ríku, en draga úr aðstoðinni til þeirra, sem fjárfátækastir eru. Ég hef rætt þetta mál töluvert við sauðfjársjúkdómanefndina og minnzt á ýmislegt við hana, sem ég hef orðið var við, að menn á sjúkdómasvæðinu eru óánægðir með, og veit ég, að nefndin tekur mikið tillit til allrar rökstuddrar gagnrýni á störfum hennar.

Nefndin hefur m.a. gert þær breyt. við viðhaldshundraðshlutann, sem dreginn er frá áður en uppeldisstyrkurinn kemur til greina, að færa hann niður í 15%, og er þetta stór bót frá því, sem áður var. Sömuleiðis hefur nefndin tekið upp þá reglu að veita ungum mönnum, sem eru að koma sér upp fjárstofni, hliðstæðan styrk við eldri bændur.

Þá veit ég enn fremur, að nefndin hefur í undirbúningi að styrkja þá, sem fátækastir voru, þegar veikin kom í fé þeirra, og veita þeim aukauppeldisstyrk á allt að 20 fjár. Tel ég þetta sömuleiðis mikið til bóta á hinni úthlutunarreglunni og álit, að það mundi bæta úr þeim kurr, sem er á sjúkdómssvæðunum, einkum hjá hinum fátækari bændum. Þannig tel ég þær umbætur, sem nefndin gerir nú, svo mikið til bóta, að ekki sé ástæða til að fara að binda hendur hennar, sem yrði gert með lögum, ef þetta frv. verður samþ. Þetta mál er svo vandasamt í framkvæmd, að það er ekki hægt að rígbinda það í lögum, nema illt hljótist af, og tel ég nefnd þá, sem hefur þetta mál til meðferðar, verða að hafa rúmar hendur til þess að geta framkvæmt það, og hygg ég, að það mundi sýna sig, að þótt horfið yrði til þess ráðs, sem ætlazt er til hér í frv. um úthlutun bótafjárins, að við fengjum ekki meira réttlæti en við höfum.

Af þessum ástæðum og fleirum, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja hér, leggjum við til, að málið verði afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Með því að neðri deild Alþingis er í höfuðatriðum samþykk þeim starfsreglum, sem sauðfjársjúkdómanefnd fylgir í úthlutun bótafjár, og telur þær breytingar, er hún hefur' gert á þeim undanfarið, eðlilegar, og í trausti þess, að hún sjái sér fært að bæta enn aðstöðu þeirra bænda um uppeldi sauðfjár, er fjárfæstir voru, er veikin kom í fé þeirra, eða hófu búskap eftir þann tíma, sér hún ekki ástæðu til að samþykkja frumvarp þetta, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“