26.03.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (375)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Emil Jónsson:

Ég vil hér í örstuttu máli hreyfa nokkrum atriðum varðandi bæði yfirlit það, sem hæstv. fjmrh. gaf um afkomu ríkissjóðsins árið sem leið, fjárlag;frv., sem fyrir liggur fyrir næsta ár, og nokkur atriði önnur, er þetta mál snerta. Það liggur reyndar í hlutarins eðli, að það er ekki hægt, svo að í neinu lagi sé, að kryfja hér til mergjar ræðu hæstv. ráðh. um afkomu s.l. árs, þar sem eiginlega enginn veit neitt fyrr en öllu þessu töluflóði er dembt yfir. og er þar úr svo miklu að moða, að ekki veitti af, að nokkurt tóm gæfist til þess að átta sig á aðalatriðunum, áður en umr. hefjast. Sömuleiðis er sá tími, sem flokknum er hér ætlaður, svo stuttur, að ekki er hægt að pinnast á nema fátt eitt af því, sem annars væri vel þess vert, að það væri gert að sérstöku umræðuefni. Að vísu hefur skrifstofustjóri fjármálaráðuneytisins gert fjvn. grein fyrir örfáum atriðum úr reikningi s.l. árs, sérstaklega umframgreiðsluaum, en ekkert heildaryfirlit var þar um að ræða, og má því segja, að nefndin viti eiginlega lítið meira um þessi mál en aðrir hv. þm., enda þótt 5 vikur séu nú senn liðnar af þingtímanum.

Það er annars einkennilegt tímanna tákn, hve áliðið er orðið þings, þegar fjárlagafrv. kemur fyrst fram, og enn líða þó þrjár vikur frá þeim tíma og þar til 1. umr. er látin fara fram.

Ég minnist í þessu sambandi, að fyrsta árið, sem ég átti sæti á þingi, árið 1934, var gerð hörð hríð að þáv. hæstv. fjmrh. (EystJ) fyrir þið, að fjárlagafrv. var þá ekki lagt fram fyrr en 6 dagar voru liðnir af þingi og ekki tekið til umræðu fyrr en 2 dögum síðar. Það var Sjálfstfl. eða fulltrúi hans,. sem stóð fyrir þessari gagnrýni þá. En nú, þegar Sjálfstfl. hefur tekið við embætti fjmrh., fer þessi umr. fram ekki einu sinni viku eftir þingsetningu eins og þá, heldur sex vikum seinna.

Ekki er þetta þó vegna þess, að þingið hafi haft svo ógn annríkt síðan það kom saman, þvert á móti. Það hefur bókstaflega ekkert gert, annað en að bíða, bíða fyrst eftir bæjarstjórnarkosningunum í Reykjavik í heilan mánuð — og bíða enn eftir að finna sjálft sig, að þessum kosningum afstöðnum — og það á enn eftir a átta sig á þeirri lexíu, sem stjórnarflokkarnir þar hafa fengið.

Hér liggur þó fyrir fjöldi mála, sem þarfnast bráðrar úrlausnar, ég nefni gengismálið og dýrtíðarmálið, sem þola helzt ekki neina bið, og fjölda annarra aðkallandi vandamála. Engin þessara mála eru enn komin frá nefnd í fyrri deildinni, hvað þá meira. Þessi afgreiðsla, og þó sérstaklega fjárlagaafgreiðslan er næstum óafsakanleg og getur tæpast endað nema á einn veg, að engin fjárl. verði afgreidd á þessu þingi. Þá vil ég enn nefna eitt dæmi af sama tagi: Enn hefur enginn þm. séð ríkisreikninginn fyrir 1940. Hann hefur enn ekki verið prentaður né lagður fram. Það eina, sem þingmenn því hafa að halda sig að um fjárhagsafkomu ríkissjóðsins og við samningu fjárl. fyrir árið 1943, er ríkisreikningurinn 1939 — frá því fyrir stríð, þegar frá eru skilin bráðabirgðauppgjör þau, er hæstv. fjmrh. gaf nú og í fyrra. Þessi undirbúningur allur að starfi þingmanna er svo fráleitur, að ég hef ekki komizt hjá að fara um hann nokkrum orðum. Einmitt á þessum tímum óvæntra atburða og snöggra breytinga er nauðsynlegt að hafa sem fyllstar og nýjastar upplýsingar um hag ríkissjóðsins og hina ýmsu tekna- og gjaldaliði ríkisreikningsins, nóg er óvissan um þessa hluti samt.

Sú tala, sem mesta eftirtekt hlýtur að vekja af öllum þeim mörgu tölum, sem hæstv. fjmrh. nefndi, er auðvitað tekjuafgangur ríkissjóðs s.l. ár, sem hann taldi vera nálægt 17 millj. kr. Sömuleiðis og í beinu framhaldi af þessari tölu hljóta líka að vekja athygli heildarupphæð tekjuhliðar reikningsins, sem sögð er 49,5 millj. kr., og gjaldahliðin í heild, sem hann taldi vera um 38 millj. kr., en var áætluð 18 millj. kr. Báðar þessar tölur og þó einkum sú fyrri hafa farið svo gífurlega fram úr áætlun, að slíks eru engin dæmi, hvorki fyrr né síðar. Út af fyrir sig er náttúrlega ekki nema gott eitt um það að segja, að hagur ríkissjóðs standi með svo miklum blóma og tekjuafgangurinn hefur orðið svo mikill, sem raun ber vitni um. En þó skyggir þar eitt á, og það er, að þessi tekjuafgangur er ekki að öllu leyti vel fenginn. Fjárl. fyrir þetta ár, 1941, voru samin á öndverðu ári 1940, eða með öðrum orðum í upphafi stríðsins, þegar mönnum var enn ekki ljóst, hverjar afleiðingar þetta stríð mundi hafa á fjárhag ríkis og þjóðar en yfirleitt á afkomu okkar allra. Fjárl. voru því afgreidd mjög varlega, t.d. var ekki gert ráð fyrir tekju- og eignarskatti nema tæpum 2 millj. kr. og ekki fyrir vörumagnstolli samtals nema fyrir 8.8 millj. kr. Reynslan hefur nú sýnt, að þessir tveir liðir hafa farið fram úr áætlun, sá fyrri um ca. 9 millj. kr. og sá síðari um ca. 14.5 millj. kr. Þegar á Alþingi í fyrra var mönnum ljóst, hvert stefndi með þetta. Menn sáu þá, að tekjur ársins 1940 höfðu orðið svo miklar, að tekju- og eignarskatturinn — og stríðsgróðaskatturinn hlaut að fara langt fram úr þeirri upphæð; sem fjárl. frá árinu áður höfðu gert ráð fyrir, og það var einnig þá sýnilegt, að með þeim kaupmætti, sem þannig hafði skapazt, og þeim innflutningsmöguleikum, sem fyrir hendi voru, hlutu einnig tollarnir að fara langt fram úr fjárlagaupphæðinni.

Því var það, að á þessu þingi var ráðstafað verulegum hluta þess fjár, sem sýnilegt var, að mundi verða. afgangs venjulegum þörfum ríkissjóðsins. Á ég þar við „lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til ráðstöfunar og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna, sem samþykkt voru á því þingi, en sem kunnugt er hafa þessi lög aldrei komið til framkvæmda nema að örlitlu leyti, og það í öfuga átt við það, sem til var ætlazt.

Í þessum l. er gert ráð fyrir því, að ríkisstjórnin leggi fram úr ríkissjóði af tekjum ársins 1941 5 millj. kr. í þessu skyni. Þetta hefur aldrei verið gert.

Auk þess var þar gert ráð fyrir að fella niður með öllu tolla af „baunum, ertum, linsum, hveiti, rúgi, rís, byggi, höfrum, maís og annarri ómalaðri kornvöru, mjöli úr hveiti, rúgi, rísi, byggi, höfrum, maís o. fl: ` Enn fremur að lækka um helming tolla af alls konar sykri.

Er enginn vafi á, að ef þessi lið hefði verið farin, sem Alþingi og ætlaðist til, hefði verðlag á þessum og öðrum nauðsynjavörum getað lækkað til stórra muna og þetta því orðið mikið atriði í þeirri baráttu, sem allir voru og segjast vera enn — sammála um að heyja til að halda dýrtíðinni niðri, en sem bara aldrei er háð. Allt þetta var látið undir höfuð leggjast, og féð, sem átti að notast í þessu skyni, tekið og lagt í ríkissjóðinn, og kemur nú fram hér í dag sem tekjuafgangur, með því fína nafni, — en ætti raunar að heita fé, sem ranglega. er dregið undan í baráttunni við dýrtíðina.

Ég hygg, að það sé ekki of í lagt, að í þetta mundi hafa farið um helmingur „tekjuafgangsins“, ef fyrirmælum laganna hefði verið fylgt, eða, svo að ég orði það rétt, ef heimildir þessara l. hefðu verið notaðar eins og til var ætlazt. Loks voru svo settar í þessi sömu lög heimildir handa ríkisstj. til tekjuöflunar — í þessu sérstaka augnamiði — til að halda niðri dýrtíðinni, svo sem heimild til að hækka tolla á áfengi og tóbaki, heimild til að leggja á útflutningsgjald og heimild til að innheimta tekju- og eignarskattinn með 10% viðauka. Auðvitað átti ekki að nota þessar heimildir, nema því aðeins, að tekjunum af þeim yrði varið til að halda niðri vöruverðinu, enda var það ekki gert, nema hvað tekju- og eignarskattinum viðkom; hann var innheimtur með 10% viðaukanum, enda þótt lögin kæmu ekki til framkvæmda að neinu öðru leyti. Þessi tekjulind virðist hafa numið ca. milljón kr. fyrir ríkissjóðinn.

Þetta, var það, sem ég leyfði mér að kalla, að tekjuafgangurinn væri ekki að öllu leyti vel fenginn. Loks er þess að geta, að ríkisstj. hefur, samkvæmt l. um tollskrá, heimild til að innheimta ekki toll af „stríðs“farmgjöldum, þ.e.a.s. miða tollinn við farmgjaldaupphæðina fyrir stríð. Þetta hefði auðvitað átt að vera ein sú fyrsta og sjálfsagðasta ráðstöfun á móti dýrtíðinni. Hefur hæstv. ríkisstj. þá gert þetta? Nei, hún hefur innheimt margfaldan toll af farmgjöldunum á helztu nauðsynjavörum, í staðinn fyrir að nota heimildina til að miða tollinn við farmgjöldin eins og þau voru fyrir stríð, og eins og útkoman sýnir, — án þess að þurfa þess til að standa undir venjulegum rekstri ríkissjóðsins, eins og þessi „tekjuafgangur“ sýnir, sem hér er nú lagður fram. — Ríkisstjórnin hefur því raunverulega unnið að því að magna dýrtíðina og auka hana. Eftir höfðinu dansa svo limirnir.

Er það óeðlilegt, þegar kaupmenn og atvinnurekendur sjá aðfarir ríkisstjórnarinnar, að þeir reyni líka að taka þátt í þessu kapphlaupi, — reyni að klófesta í sinn hlut eitthvað af stríðsgróðanum með hækkaðri álagningu og hærra söluverði? Vissulega er þeim það ekki láandi, þegar ríkisstjórnin vísar sjálf leiðina og segir: Sjá, hér er ég búin að aura saman 15 milljónum með því að fara í kring um allar dýrtíðarráðstafanir, sem Alþingi fól mér að gera. Aðeins einni stétt þjóðfélagsins er bannað að verða þessara gæða aðnjótandi og það þeirri, sem helzt þyrfti þess með, launastéttinni. Við hana er beitt gerðardómi og þvingunarráðstöfunum til þess að hindra þann voða, að hún fái í sinn hlut sanngjarnan hluta.

En við skulum sleppa þessu. Það er komið sen komið er. Hæstv. ríkisstj. hefur glatað því tækifæri, sem hún átti til að halda niðri dýrtiðinni, og hafði möguleika til með dýrtíðarl. og því fé, sem hér er borið fram sem tekjuafgangur, svo að um það þýðir ekki að fást héðan af.

En næsta atriðið er þá að ráðstafa þessari gífurlegu fjárfúlgu á þann veg, að það komi virkilega þjóðinni að notum í þeirri baráttu, sem allir eru sammála um, að hún muni þurfa að heyja að stríðinu loknu, kannske harðari en hún hefur þurft að gera nokkru sinni fyrr. fyrir afkomu sinni og lífi. Virðist því einsýnt, að heppilegust ráðstöfun á fénu hljóti að beinast í þá átt að létta undir með atvinnuvegunum að stríðinu loknu og skapa atvinnuskilyrði fyrir þann mannfjölda, sem nú vinnur að þeim störfum, sem ekki er að vænta að endast muni þeim til framfærslu nema skamma stund. Ég skal ekki fara langt út í þetta nú, en skal hér nefna nokkur atriði, sem mér finnst, að vel megi tala um, þó að margt fleira komi að sjálfsögðu til álita.

Það, sem sjávarútvegurinn þarfnast mest nú þegar, og kemur þó alltaf til að þarfnast meir og meir, eftir því sem tíminn líður, er aukinn skipakostur. Það verður því að vera eitt höfuðatriði fyrir ríkisstj. og Alþingi að styðja alla þá viðleitni, sem miðar að því að bæta úr þessu.

Nýafstaðið fiskiþing samþykkti einum rómi að fara fram á, að Fiskveiðasjóður væri efldur í þessu skyni og að ríkissjóður legði honum til 6 milljónir króna á tveimur árum, svo að sjóðurinn gæti orðið sú lyftistöng í þessum efnum, sem hann enn hefur ekki megnað að verða. Hingað til hefur alltaf verið borið við fjárskorti. Nú er sú ástæða ekki lengur fyrir hendi, og áreiðanlega væri því fé vel varið, sem þannig væri ákveðið til stofnlána fyrir aukin atvinnutæki sjávarútveginn til handa.

Landbúnaðinn mætti sjálfsagt búa undir erfiðleikana á ýmsan veg, en ein sú veigamesta ráðstöfun í því skyni er vafalaust sú að reisa, ef unnt er, áburðarverksmiðju, sem sæi að mestu eða öllu fyrir hinni innlendu áburðarþörf fyrir svo vægt verð, að not þessarar vöru gætu orðið enn almennari og meiri en nú er. Mér er kunnugt um, að þetta er til athugunar, og reynist það tekniskt fært, gæti að mínu viti vel komið til greina, að ríkið reisti verksmiðjuna og afskrifaði um leið stofnkostnaðinn, svo að hann þyrfti ekki að leggjast á framleiðsluna. Væri þar áreiðanlega um að ræða eina hina þörfustu ráðstöfun fyrir þennan atvinnuveg. Fleira mætti auðvitað nefna, svo sem rafmagnsmál sveitanna o.fl. o.fl.

Fyrir iðnaðinn skal ég vera hæverskur mjög, aðeins fara þess á leit, að leiðrétt verði gamalt misrétti og felldir burt með öllu tollar þeir, sem nú eru greiddir á efnivörum til þessa atvinnuvegar, og honum ekki sköpuð verri aðstaða en hinum erlendu keppinautum. Þetta virðist ekki ósanngjarnt, en ég er viss um, að ef skilyrðin væru að þessu leyti bætt fyrir þennan atvinnuveg, þá muni hann aukast og dafna vel í framtiðinni og geta tekið fyllilega sinn hluta að tiltölu af atvinnufærum mönnum.

Auk þessa þarf svo að ætla ríflegt fé til verklegra framkvæmda ríkisins að stríðinu loknu, hvort sem það nú verður kallað jöfnunarsjóður, eins og við gerðum Alþýðuflokksmenn, eða það verður kallað framkvæmdasjóður, eins og nú er gert í frv., sem útbýtt hefur verið á þessu þingi, eða eitthvað annað. Loks þarf svo að gera ráð fyrir skuldagreiðslum og varasjóði til að mæta tekjuhalla, ef hann skyldi sýna sig á næstunni, því að nú eru mörg veður í lofti, og getur á skömmum tíma skipazt margt öðru vísi en menn gera sér í hugarlund og nú er.

Einhverjum hv. þm. kann nú kannske að finnast, að þessar bollaleggingar eigi ekki heima hér við þessa umr., en það eiga þær vissulega, því að það hlýtur að koma til kasta þingsins, hvernig tekjuafgangi þessum verði ráðstafað, og úrslitaþýðingu getur það haft fyrir okkar þjóðfélag, hvernig það .verður gert. Útgjöld ríkisins til að halda niðri dýrtíðinni hef ég hér ekki minnzt á, ekki vegna þess, að ég telji þau þýðingarminni en annað, sem ég hef nefnt, heldur vegna þess, að um það höfum við Alþýðuflokksmenn borið fram till. í sérstöku frv., og þurfa því ekki þau útgjöld að takast með hér.

Um sjálft fjárl.- frv. þarf ég ekki að vera langorður. Það virðist mjög sniðið eftir fjárl. yfirstandandi árs, en þó eru þar nokkur atriði, sem ástæða er til að vekja athygli á strax, t.d. tekju- og eignarskatturinn. Hann er í frv. áætlaður 7 millj. kr., en hefur orðið árið sem leið hér um bil 11 millj. kr. með stríðsgróðaskattinum. Má af þessu álykta eitt af tvennu, annað hvort hefur hæstv. fjmrh. talið óvarlegt að gera ráð fyrir jafnmiklum tekjum hjá skattþegnunum á þessu yfirstandandi ári og voru 1940, og skatturinn 1941 er miðaður við, eða þá hitt, að tekju- og eignarskatturinn á að innheimtast eftir öðrum og vægari reglum en þá. Nú er vitanlega ekki hægt að segja neitt um það með vissu, hvað þetta ár muni bera í skauti sínu, en eins og útlitið er og reynslan bendir til enn sem komið ef, þá má ætla, að það verði síður en svo lakara en áður, því að aldrei, síðan stríðið hófst, hafa tekjurnar (hátekjurnar) verið meiri en það, sem af er þessu ári. Þó var í vitanlega miklu hægara að dæma um þetta atriði síðar á árinu, eða undir árslokin, og ég skal segja það sem mína skoðun, að ég álít það miklu hyggilegra að fresta afgreiðslu fjárl. nú, úr því að búið er að draga svo lengi, sem raun ber vitni, að leggja þau fram. Fjvn. hefur setið aðgerðalaus að heita má og beðið hátt á sjöttu viku, og úr þessu er sýnilegt, að ekkert verður unnið að afgreiðslu þeirra fyrr en eftir páska, en þá er tíminn til þingloka væntanlega orðinn svo stuttur, að það atriði, ásamt þeirri óvissu, sem ríkir með alla afkomu þjóðarinnar, gerir það alveg óforsvaranlegt að afgreiða einhver bráðabirgða- eða flaustursfjárlög, eins og væru afgreidd nú.

En svo mikil óvissa sem ríkir um afkomu ár sins, virðist þó ríkja enn meiri óvissa um hitt atriðið, eftir hvaða reglum tekjuskatturinn verður innheimtur.

Þegar kosningunum í Reykjavík var frestað í janúar í vetur, var látið í það það skína — og enda beinlínis sagt —, að samkomulag hefði náðst um afgreiðslu nýrra tekju- og eignarskattslaga milli Framsfl og Sjálfstfl., og var látið í veðri vaka, að þetta væri allt klappað og klárt áður en þing kom saman. fleira að segja lýsti einn hæstv. ráðh. yfir því í útvarpi fyrir alllöngu, að nú væri ákveðið að taka 90% af öllum hátekjum, sem færu fram úr vissri upphæð, sem hann einnig tilgreindi.

En hvar eru þessi lög? Hvar er frumvarpið til þessara laga? Ekki hef ég séð það, og áreiðanlega hefur því ekki verið útbýtt enn þá hér á hv. Alþingi. Hvar er það, og hvað dvelur það“ Og það er ekki nóg með, að Alþingi bíði eftir því. Skattanefndirnar úti um land bíða líka eftir því, og mér er sagt, að niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur hafi frestað störfum og bíði líka eftir því. Yfirleitt er þetta eina frv., sem beðið er eftir frá hæstv. ríkisstj. Og þó var lýst yfir því, að samkomulag hefði náðst um það, áður en þing kom saman, og samt sést ekkert, þó að þingtíminn sé sennilega hálfnaður eða meira, 40 dagar og 40 nætur hér um bil síðan. Eina vísbendingin, sem maður fær um það, sem koma á í þessu efni, er, að hæstv. fjmrh. leggur til í frv. sínu, að tekju- og eignarskatturinn verði lækkaður um hér um bil helming frá því, sem hann var í fyrra. Og þetta eru líka upplýsingar út af fyrir sig, þó að þar bendi í aðra átt en 90%-in, sem ég nefndi áðan.

Annað atriði í fjármálastefnu hæstv. ríkisstj. kemur einnig glöggt fram í þessu fjárlagafrv. fyrir 1943, og það er, að því er gert er ráð fyrir, að verðtollurinn hækki. úr 5.5 millj., sem gert er ráð fyrir í fjárl. yfirstandandi árs, í 10 milljónir eða nálega helmingi hærri upphæð, eða til samræmis við reynsluna frá síðasta ári. En eitt augnablik virðist það hvarfla að hæstv. ríkisstj. að lækka eitthvað af þessum tollum, t.d. tollinn af stríðsfarmgjöldunum, svo að eitthvað sé nefnt.

Auðvitað væri hér hið upplagðasta tækifæri að lækka til verulegra muna dýrtíðina í landinu með tollalækkunum, vegna þess fyrst og fremst, að ríkissjóður þarf ekki á öllum þessum tekjum að halda.

Tekjustofnar ríkissjóðsins eru yfirleitt allir, — eða a.m.k. flestir —, ákveðnir í erfiðu árferði, þegar allt hefur orðið að kría inn, sem hægt hefur verið, til að mæta hinum nauðsynlegustu útgjöldum. Er þá nokkur goðgá, að mönnum detti það í hug, í öðru eins veltiárferði og peningastraum eins og nú gengur yfir landið, hvort ekki sé unnt að lækka eitthvað tolla á nauðsynlegustu vörutegundum og aðra þá tekjustofna ríkisins, sem harðast koma niður á þjóðfélagsþegnunum? Mér finnst það ekki, og áreiðanlega verður að athuga það vel og vandlega áður en til fulls er frá fjárl. gengið.

Og svo má líka spyrja: Ef hæstv. ríkisstj. ætlar nú að nota alla þá tekjustofna, sem til voru tíndir á erfiðleikaárunum, til hvers ætlar hún þá að grípa, þegar aftur harðnar í ári? Ef hæstv. ríkisstj. er hrædd við að hafa of mikla peninga í umferð hjá almenningi vegna verðbólgur, sem af því kynni að skapast, eru ýmis ráð til, til að bæta úr því, önnur en að taka féð af almenningi í ríkissjóðinn, — t.d. skyldusparnaður og ef til vill fleira.

Og svo kemur Sjálfstfl. og vill telja almenningi trú um, eins og núna við bæjarstjórnarkosningarnar síðustu, að hann sé sá flokkur, og sá eini flokkur, sem telji hagsmunum þjóðarinnar bezt borgið með því að geyma féð í vösum borgaranna sjálfra, — en vill svo um leið pressa aura úr vösum þeirra með hallæristollum af nauðsynjavörum.

Ýmislegt fleira mætti um fjárlagafrv. þetta segja, en til þess. er enginn tími, og verð ég því að láta þetta nægja.

Að síðustu vil ég aðeins segja þetta:

Sjálfstfl. hefur oft haldið því fram, að hann hafi verið kallaður til samstjórnar með alþfl. og Framsfl., þegar allt var að komast í fjárhagslegt þrot hjá ríkissjóði. Og nú mætir fjmrh. þess flokks með tekjuafgang upp á 7 millj. kr., svo að fljótt á litið virðist vera nokkuð til í þessu og Sjálfsfl. hafi virkilega bjargað fjárhag landsins, eins og hann heldur fram. En ég hygg, að ljóminn fari af þessu björgunarafreki, þegar þess er gætt:

1. Að tekjuöflunin, — og þá. tekjuafgangurinn —, er á engan hátt orðinn til fyrir þeirra atbeina sérstaklega.

2. Að gjöld ríkissjóðs hafa undir þeirra stjórn farið allt að 77% fram úr áætlun.

3. að þessi hæstv. ríkisstjórn, og þá sérstaklega Sjálfstfl. hefur vanrækt allt það, sem alþingi fól henni að gera í dýrtíðarmálunum, nema það eitt að innheimta 10% viðaukann á tekju- og eignarskattinn og þannig búið til tekjuafgang, sem raunverulega var ráðstafað til annars.

4. Að stefnan virðist vera sú, að halda við öllum tollum og sköttum af nauðsynjavörum, en hika við að bera fram tekjuskattsfrv., þangað til komið er fram á síðari hluta þingtímans, sem sýnir a.m.k., að forustan er ekki örugg á þessu sviði, að ekki sé meira sagt.