29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Við 1. umr. var þetta mál rætt hér almennt, og ég minntist þá á afstöðu stjórnarandstæðinga, en við 2. umr. á gagnrýni frá andstæðingum frv. Þeir hafa kvartað undan því, að þeim hafi verið of lítið svarað, en það er misskilningur, þegar þess er gætt, að við allar þrjár umr. hafa þeir endurtekið sömu aðfinnslurnar.

Það er eftirtektarvert, að andstæðingar frv. eru komnir svo langt í gagnrýni sinni, að þeir eru farnir að tala eins og verðbólgan væri æskileg og mesti gróðahnykkur fyrir verkafólk og launamenn. Þeir eru farnir að tala um ráðstafanir gegn verðbólgunni eins og eitthvað, sem sé gert bara fyrir efnamenn. Ekki alls fyrir löngu fékk ég 3 hagfræðinga til að gefa sitt álit um skyldusparnað. Einn af þeim var Jón Blöndal, hagfræðingur Alþfl. Sem inngang að aðalmálinu hafa þeir látið í té álit sitt um verðlagsmálin. Þeir tala þar um verðbólguna og afleiðingar hennar. Það er fróðlegt að rifja upp, hvað þeir segja. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér upp úr áliti þeirra.

„Þeir, sem fyrst og fremst verða fyrir barðinu á verðbólgunni, er fólk, sem á peningakröfur, svo sem sparifjáreigendur, eigendur peningakrafna á hendur einstaklingum o.s.frv. Þeir, sem aftur á móti græða á verðbólgunni, eru atvinnurekendur, a.m.k. þeir, er selja á innlendum markaði, þeir, sem skulda peninga, og eigendur fasteigna og annarra raunverulega fjármuna. Flytjendur tapa aftur á móti á verðbólgunni.“

Það eru fyrst og fremst atvinnurekendur og eignamenn, sem græða á verðbólgunni og því, að stefna Alþfl. yrði ofan á, eins og hún er túlkuð hér á Alþ., — en þeir, sem tapa, eru sparifjáreigendur og þeir, sem eiga kröfur á hendur öðrum, m.ö.o. þeir, sem vinna fyrir peningum. Þeir segja enn fremur:

„Algert verðhrun peninganna mundi líka sennilega skapa slíkt öngþveiti í atvinnulífinu, að vafamál er, hvort það mundi ekki einnig í þágu atvinnurekenda, sem framleiða fyrir innlendan markað, eða þeirrar stéttar, sem líklegust er til að græða á verðbólgunni, að hún yrði stöðvuð þannig að segja megi með enska hagfræðingnum Keynes, að ráðstöfunum gegn verðbólgunni megi líkja við umferðarreglurnar, þannig að þær séu til hagsbóta fyrir alla hlutaðeigendur.“

Undir þetta skrifar hagfræðingur Alþfl., Jón Blöndal, ásamt hinum, og kveður þar við annan tón en við eigum að venjast hér á Alþ. úr þeim herbúðum.

Það hlakkar í þessum hv. þm. yfir því, ef svo kynni að fara, að þær ráðstafanir reyndust ekki fullnægjandi í framkvæmdinni til að stöðva verðbólguna. Svo þykjast þessir menn styðja sérstaklega málstað verkalýðsins með því að vera þessum ráðstöfunum mótfallnir, sem þeir segja, að séu aðeins til hagsbóta fyrir efnamenn landsins. Hv. þm. Seyðf. sér verðbólguna vaxa í landinu, honum dettur ekki í hug að stöðva hana, af því að hann álítur allar slíkar aðgerðir kúgun við verkalýðinn. Ef menn fallast á, að þessar ráðstafanir séu nauðsynlegar til að stöðva verðbólguna í landinu, kemur spurningin: Er það hægt án þess að hafa áhrif á kaupgjaldið? Eða er það af illvilja gagnvart þeim, sem taka laun fyrir störf sín, sem ráðstafanir eru gerðar til að hafa hemil á launakjörum í landinu? Það er ekki hægt að hugsa sér að stöðva dýrtíðina með öðru móti en að hafa jafnframt hemil á kaupgjaldinu. Hvernig eru ráðstafanir annarra landa til að koma í veg fyrir verðbólguna? Hafa þau látið sig engu skipta, þó að kaupgjaldið hækkaði úr öllu valdi? Í þessu sambandi er sérstaklega ástæða til að rifja upp, hvernig til hagar í Ástralíu, þar sem flokksbróðir Alþfl.-manna fer með völdin. Þar hefur verið sett löggjöf, sem er lík þeirri, sem hér um ræðir, að hafa eftirlit með verðlagi og kaupgjaldi í landinu. Svo vilja háttv. flokksbræður forsrh, í Ástralíu hér á Alþ. telja fólki trú um, að sams konar ráðstafanir hér stafi af illvilja við launastéttirnar. Það er ekki hægt að stöðva verðbólguna í landinu á annan hátt en þann að gera sömu ráðstafanir og Bandaríkin og mörg önnur lönd, að hafa hemil á kaupgjaldinu annaðhvort með samkomulagi, þar sem það er hægt að fá, eða með löggjöf. Hvernig er svo með þegnskap Alþfl.- manna, sem telja sig forkólfa verkalýðsins í landinu, þegar á að gera slíkar ráðstafanir hér? Þeir reyna að fiska nokkur atkvæði með því að beita sér gegn þessari löggjöf, sem þeir kalla kúgunarlög. Og þeir gera allt, sem þeir geta, til þess að hún verði ekki framkvæmd eða þá brotin, ef hún nær fram að ganga. Þannig er munurinn á því, hvernig þessum nauðsynlegu ráðstöfunum er tekið hér eða annars staðar. Hins vegar hafa svo fulltrúar fyrir aðrar stéttir þjóðfélagsins, sem mundu frekar hagnast á því, að verðbólgan héldi áfram að vaxa, tekið vel í þessi mál. Þeir hafa talið hina mestu nauðsyn að stöðva dýrtíðina og tekið þátt í ráðstöfunum til þess. því fer fjarri, að verkamönnum megi á sama standa, hver þróun verður í þessu efni; og þeir hafa mestra hagsmuna að gæta, ef verðbólgan héldi áfram að vaxa. Þetta er staðreynd, sem ómögulegt er að hrekja. Það er ekki hægt að fá samtök um neinar almennar ráðstafanir, og það er ekki hægt að framkvæma þær, nema með því að hafa eftirlit með kaupgjaldi í landinu, eins og öðrum þáttum verðlagsmálanna. Öllum þessum staðreyndum hefur verið neitað að Alþfl. vegna ástæðna, sem ég hef þegar greint.

Það er eftirtektarvert, að þeir Alþfl.- menn og aðrir, sem hafa talið sig forkólfa verklýðsfélaganna í landinu, þeir unnu að því fram á haustið 1941, að grunnkaupshækkanir ættu sér stað sem minnst vegna almennrar nauðsynjar. Þessir forkólfar unnu að samningum, í þessa átt fram á haust 1941, en þegar til á að taka, er ómögulegt að komast að slíku samkomulagi við þá, svo að það verður að hefta kauphækkanir með löggjöf, ef ekki á að hefjast nýtt tímabil vaxandi verðbólgu. Þá skerast þeir úr leik og bera á okkur allar vammir og skammir fyrir að setja slíka löggjöf. Ef það er kúgun við verkalýðinn að takmarka grunnkaup í jan. 1942, hvers vegna unnu þá forkólfar verklýðsfélaganna að því 1940 og 1941, að kaup héldist óbreytt? Hvers vegna létu þeir ekki verkalýðinn sækja rétt sinn á þann hátt, ef það var hægt? Svo ber þessi hv. þm., sem hér á hlut að máli, á okkur allar þær mestu vammir og skammir fyrir að halda áfram að gera þær ráðstafanir í kaupgjaldsmálunum 1942, sem hann hafði gert 1941. Enn fremur væri mikilsvert, ef gerð yrði tilraun til þess í umr. að gera grein fyrir því, hvernig takast megi að halda dýrtíðinni niðri með því móti, að verkalýðurinn og launastéttirnar í landinu hækkuðu grunnkaup og laun og fengju sinn hlut réttan á þann hátt. Mundu þá ekki aðrar stéttir rísa upp, sem hafa tekjur sínar bundnar með löggjöf? Það væri harla einkennileg löggjöf að binda tekjur sumra stétta, en láta aðrar hafa óhindraða möguleika til að selja vinnuafl sitt okurverði. Og eitt er víst, að undir slíkum kringumstæðum er alveg óhugsandi að framkvæma löggjöf til að takmarka verðbólguna. Alþfl. fann sér tvennt til afsökunar á þeirri framkomu sinni að skerast úr leik í þessum málum. Í fyrsta lagi sagði hann, að hér væri um sérstakar kúgunarráðstafanir að ræða gagnvart verkalýðnum, og ég hef drepið á, hvernig Alþfl.- menn hafa hagað sér í þessum málum undanfarin ár. Hin ástæðan er sú, að stríðsgróðinn sé ekki nægilega skattlagður, og þess vegna geti þeir ekki tekið þátt í þessu máli. Ég veit ekki til þess, að Alþfl. hafi kynnt sér, hver áætlun var gerð innan stjórnarflokkanna um skattlagningu stríðsgróðans. En hitt veit ég, að Alþfl. átti sæti í ríkisstj. 1940 og 1941 og vék úr stjórninni með litlum fyrirvara, og það var ekki vegna ósamkomulags út af skattlagningu stríðsgróðans, heldur vegna þess, að ráðsaafanir gegn dýrtíðinni, sem gera átti 1941, töldu þeir ófullnægjandi. Síðan Alþfl. hóf deiluna við okkur, hefur hann borið okkur á brýn, að við værum að kúga verkalýðinn og hlífa auðmönnunum. Síðan Alþfl. fór úr ríkisstjórninni, hafa verið lagðar fram till. um skattlagningu stríðsgróðans, sem ræddar hafa verið í þinginu. Hefur Alþfl. fundið þar sérstöðu og haft það til afsökunar því, að hann hafi ekki getað tekið þátt í ríkisstjórninni. Svo mikið voru alþfl.- menn búnir að tala um skattlagningu stríðsgróðans, að mönnum datt ekki annað í hug en að þeir reyndu að Leggja fram einhver frumvarpsslitur í þá átt, áður en 7 vikur voru liðnar af þingtímanum. En till. Alþfl., sem áttu að marka sérstöðu hans í skattamálunum, komu öfugu megin við frv. Raunar var svo lítill munur á till. Alþfl. og frv. sjálfu, að sérstaða kom ekki til greina á því stigi.

Þeir fóru fram á örlítið hærri álagningu á stríðsgróðann, en allir geta séð, að þessi ástæða gat ekki valdið því, að Alþfl. tók ekki sæti í ríkisstjórn. Nei, þetta var kosningaáróður og átti að vera yfirboð, þess vegna vildi Alþfl. ekki taka þátt í þessum ráðstöfunum. Menn hafa heimild til að draga þessa ályktun vegna þess að þær ástæður, sem fram hafa verið færðar, eru augljósar tylliástæður, ef miðað er við framkomu Alþfl. í kaupgjaldsmálunum 1941 og við till. Alþfl. í skattamálunum.

Ég hef áður tekið fram um þau atriði í þessu máli, sem sérstaklega snerta mig. Alþfl.-menn hafa mikið rætt um andstöðuna gegn þessum l. og gera mikið veður úr því, að þau séu hvarvetna brotin. Það má vel vera þar, sem menn leggja sig fram til að brjóta þau, en menn ættu ekki að koma til ríkisstj. til að tilkynna slík lögbrot. Það má segja um mörg nytsöm lög, að þau séu brotin í sumum tilfellum, þó að þan komi hins vegar að miklu gagni. T.d. eru áfengislögin mikið brotin, en þó er fjöldinn af mönnum, sem heldur fram, að þau séu til mikils gagns, þó að farið sé í kringum þau af einhverjum þegnum þjóðfélagsins. Löggjöf getur orðið til mikils gagns, þó að hún sé brotin, og það gerir hvorki til né frá, þó að hægt sé að benda á einstök dæmi um það. Nú er eftir að framkvæma þessar ráðstafanir, og það er hugsanlegt, að Alþfl. fái ánægju af að sjá verðbólguna vaxa í landinu, þrátt fyrir ráðstafanir ríkisstj. Það er ánægjulegt fyrir hann, ef hann getur átt þátt í, að svo mætti verða. Ég er ekki eins viss um, að Alþfl. verði jafnánægður með það síðar meir, ef fyrir hans tilstilli tækist að gera minna úr þessum ráðstöfunum heldur en við gerum okkur vonir um.