29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Ísleifur Högnason:

Ég ætla hér ekki að fara að endurtaka það, sem ég sagði við 2. umr., þar sem ég lýsti áhrifum þessara l. að því er dýrtíðina snertir og skoðun minni á því, hverjar væru orsakir dýrtíðarinnar.

Mér þykir rétt að geta þess, að það virðist svo sem meiri hl. allshn., sem ekki er nú hér viðstaddur, hafi þó látið sér skiljast, að það væri til lítils að ausa fé úr ríkissjóði til þess að sjá um það, að verð á vörum hækkaði ekki frá því, sem það var í árslok 1941, því að hv. n. hefur flutt brtt., þar sem þetta ákvæði er fellt niður úr l. Annars þykir mér slæmt, að hér skuli ekki vera frsm. n., og hefði ég því helzt kosið, að þessari umr. væri frestað, þangað til hann verður til staðar. Ég fæ ekki séð, að svo brýn nauðsyn sé á að slíta umr. og afgreiða málið í kvöld, að það geti ekki beðið til morguns, og vil ég því leyfa mér að spyrja hæstv. forseta þess. (Forseti: Ég vil geta þess, að frsm. n., hv. þm. Barð., er veikur, og ég hef hugsað mér að halda umr. áfram, svo að henni geti. orðið lokið í kvöld.) Það þykir mér slæmt, því að flestir hv. þn). eru farnir, og það er til lítils gagns að tala yfir tómum stólum.

Ég ætla þá að sleppa því að ræða brtt. þær, sem n. gerði, en minnast nokkrum orðum á ræðu hæstv. fjmrh., enda þótt hann sé nú líka farinn úr d. Hæstv. fjmrh. talaði um það, eins og reyndar fleiri hæstv. ráðh. hafa gert í sambandi við þetta mál, að þjóðin yrði að skilja það, að menn yrðu að leggja talsvert að sér til þess að létta dýrtíðinni af. Og hann sagði, að menn vildu ekki skilja það, að þeir yrðu að beygja sig fyrir þjóðarnauðsyn og færa fórnir. Mig undrar ekki, þótt almenningi gangi illa að skilja ráðh. og taka þá alvarlega, þei sem þeir í verkinu sýna, að þeir færa minnstar fórnir sjálfir. Enda hef ég skjallegar sannanir fyrir því og ætla mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp kafla úr þingræðu, sem hæstv. forsrh. flutti í sambandi við héraðsskólalögin: „Það er eins og hræðsla eða geigur við vinnuna sé til hjá lanaslýðnum, og, er slíkt ákaflega hættulegt fyrir þjóðlíf okkar. Ég held að það stafi af þeirri ofþjökun vinnunnar, sem þjóðin varð að líða um margra alda skeið. Eins kann það að vera þess vegna, hve mönnum hér gengur ákaflega illa að hlýða öllum yfirvöldum og fyrirskipunum og líta þau hornauga. Þessi óbeit á vinnunni er nú ríkjandi hugsunarháttur í okkar þjóðfélagi, og honum þarf að útrýma.“ Í sömu ræðu segir þessi sami ráðh.: „Ég þykist ekki hafa neitt sérstaklega mikið að gera og ekki meira en margir aðrir, en ég mundi samt telja þakkarvert, ef ég gæti tekið mánuð á hverju sumri til að hvíla mig:

Samræmið í þessu sjá nú allir. Og yfirleitt er það þannig, að þegar ráðh. eru að eggja verkamenn á að færa fórnir, þá er það krafa, sem vitanlega enginn tekur mark á. En það er vegna þess, að ríkisstj. sjálf og þeir, sem hana styðja, gera ekki hið allra minnsta til þess að leggja neitt til frá sjálfum sér. Enda eru þeir fulltrúar yfirstéttarinnar í landinu og hlífa sjálfum sér við þeim álögum, sem nauðsynlegar eru til þess að halda dýrtíðinni í skefjum.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það, að hann vissi þess dæmi, að setuliðið greiddi hér tvöfalt kaup við það, sem Íslendingar greiddu fyrir sömu vinnu. Það er ekki að undra, þótt ríkisstj. vilji fækka í þessari setuliðsvinnu. En hvernig hún á að fá setuliðsstjórnina til þess að skilja, að það sé til meiri hagsbóta fyrir þjóðarheildina að veiða síld, sem vitanlega er borguð með útlendum gjaldeyri, heldur en að fá gjaldeyri fyrir vinnu hjá setuliðinu, sérstaklega þegar verkamenn fá þar tvöföld laun við það, sem þeir fá við að framleiða síld til útflutnings, það fæ ég ekki séð. Verkamenn sjá þetta líka sjálfir. Og setuliðsstjórnin sér, að það eru einhverjar aðrar ástæður fyrir þessu en þær, að það sé þjóðhagslegt tjón að setuliðsvinnunni. Sannleikurinn er sá, að þetta er gert fyrir þá, sem geta grætt á því. Það er gert aðallega fyrir þá menn, sem eiga útgerðarfyrirtækin og hafa hag af því að kaupa vinnu þessara manna.

Þá hliðraði hæstv. fjmrh. sér við að svara fyrirspurnum þeim, sem ég lagði fyrir hann, og flokksbróðir minn, Einar Olgeirsson, ítrekaði, en þær voru um það, hvort ríkisstj. ætlaði sér að gera nokkrar ráðstafanir til þess að tryggja matvælaframleiðslu þjóðarinnar, og hvort hún hefði hugsað sér að leita samkomulags við verkalýðsfélögin um skiptingu vinnuaflsins milli setuliðsins og atvinnurekendanna. Það er ekki til neins að bera þessar fyrirspurnir fram hér aftur, þar sem hæstv. ráðh. er farinn af fundi og hæstv. forseti hefur lýst yfir, að umr. verði slitið í kvöld.

Þá virðist mér þessi sami hæstv. ráðh. gera þá fyrirspurn til mín og okkar sósíalistanna í þessum hv. d., hvort við vissum um það, hvort grunnhaupshækkanir ættu sér stað í Rússlandi. Ég get ekki sagt um, hvort um nokkrar kauphækkanir hefur þar verið að ræða, síðan stríðið milli Þýzkalands og Sovétríkjanna hófst. En það er mér kunnugt um, að verkamenn í Sovétríkjunum eru sínir eigin húsbændur, og ég veit, að á síðustu tveim áratugum hafa þeir hækkað kaup sitt, en samtímis hefur vöruverð lækkað. Og að verkamenn í Sovétríkjunum gera ekki verkfall, kemur til af því, að verkamenn gera ekki verkfall gegn sjálfum sér. Það væri álíka fjarstætt og það, að bóndi, sem aðeins hefði skyldulið á jörð sinni, færi að gera verkfall til þess að fá hækkuð laun sín. Með þessu álít ég að því sé svarað. Mér finnst það ekkert undarlegt, þó að hæstv. ráðh. geri fyrirspurnir til okkar sósíalista um það, hvaða kynni við höfum af því, hvernig atvinnumálum í Sovétríkjunum er háttað, því að það verður ljósara með hverjum deginum, sem líður,, að skipulagið, sem þar ríkir, er öllum öðrum þjóðum til fyrirmyndar.

Hæstv. viðskmrh. endurtók í ræðu sinni þá staðhæfingu og skírskotaði til þeirra 3ja hagfræðinga, sem ríkisstj. hefur haft sér til ráðuneytis í dýrtíðarmálunum, að þessi löggjöf stuðlaði að því einu að bæta kjör hinna fátækari. Og auðvitað segja þessir hagfræðingar, að verðbólgan orsaki það, að hinir ríku verði ríkari og hinir fátæku fátækari. En menn þurfa ekki að hafa mikla þekkingu í hagfræði til þess að sjá, að þetta er vægast sagt mjög gróf skilgreining á þessum hlut, því að það er auðsætt, að þeim, sem eiga peninga í bönkum, verður minna úr þeim, svo að að því leyti má segja, að hinir ríku verði fátækari. En hvað hina fátækari snertir, þá hafa þeir borið meira úr býtum síðan dýrtíðin óx en áður. Og um verkamennina hér í Reykjavík og annars staðar á landinu er það að segja, að þeir auðgast ekki á því, að þessi l. voru sett. Það þýðir ekkert fyrir þennan hæstv: ráðh. að segja það nokkrum meðalgreindum manni, að það, að setja bann við hækkun grunnkaups og hvers konar kjarabótum, sé ráð til þess að gera snauða menn ríka. Þetta er svo mikil firra, að það má furðulegt heita, að menn skuli bera slíka vitleysu upp í sig.

Þá sagði hæstv. viðskmrh. enn fremur það, að við hlökkuðum yfir því, að verðbólgan héldi áfram að vaxa. Þessu mótmæli ég. Við höfum borið fram till. um það, að tollar á nauðsynjavörum yrðu hækkaðir og stríðsgróðinn yrði tekinn úr umferð. Enn fremur höfum við borið fram till. um það hér á Alþ. í sambandi við gerðardómsl. síðastliðið haust, að bændur yrðu styrktir til þess að kaupa vinnuafl frá kaupstöðunum með beinum fjárframlögum úr ríkissjóði, gegn því að þeir afhentu síðan afurðir sínar til almennings, án þess að þær hækkuðu í verði. Við þessu hefur þingmeirihl. skellt skolleyrum, eins og reyndar öllum okkar málum. Þau eru send til n. og svæfð þar.

Að lokum vil ég láta hv. d. vita það, að verkalýðsfélögin eru ekki sofnuð í þessu máli, og þau munu áreiðanlega verða þess minnug, hverjir það eru, sem leggja samþ. sitt á þessi gerðardómsl. Enn þá berast Alþingi mótmæli, síðast í dag frá fimm stéttar félögum í Vestmannaeyjum, og er skeytið, með leyfi hæstv. forseta, þannig :

„Undirrituð stéttarfélög í Vestmannaeyjum ítreka kröftuglega mótmæli sín gegn gerðardómslögunum og gera flokka ríkisstjórnarinnar ábyrga fyrir lögum þeim, nái þau fram að ganga. Hefjumst einnig þess, að verkalýðsfélögin verði samningsaðilar um dreifingu vinnuaflsins, ef um skipulagningu verður að ræða.

Fyrir hönd

sjómannafélagsins Jötunn

Guðmundur Helgason,

verkamannafélagsins Drífandi

Gestur Auðunsson.

verkakvennafélagsins Snót

Margrét Sigurþórsdóttir,

verkalýðsfélags Vestmannaeyja

Ágúst Þórðarson,

vélstjórafélags Vestmannaeyja

Tryggvi Gunnarsson.“