12.03.1942
Neðri deild: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (458)

35. mál, raforkusjóður

*Sigurður Kristjánsson:

Ég skal ekki lengja þessar umr., því að mál þetta mun fara til n. Og ég vil undirstrika það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að mín orð ber ekki að skilja sem andstöðu gegn rafveitumálunum. Ég álit hins vegar, að svo ona mál eigi skilið allan þann stuðning, sem hægt er að veita því. En ég vil þó benda á, að það er að sönnu alveg rétt, að það er óþarfi fyrir mig að kalla þetta refsiskatt. Og ég skal fúslega viðurkenna, að það er engin þörf á að gefa í skyn, að neinn illvilji eigi sér stað frá hendi flm. frv. til neinna annarra. En þetta verður nú samt eins konar refsing á þá framtakssömu menn, sem búnir eru að koma þessum stöðvum upp hjá sér. Í því sambandi verð ég að leiðrétta einn misskilning, sem virtist koma fram hjá 1. fim. frv. (PO), að rafveitur í landinu séu byggðar við allra beztu skilyrði. Það er mjög upp og niður með þau skilyrði. Stöðvarnar hafa orðið til vegna fjölmennisins, sem hefur krafizt þess að fá þessi þægindi. Þær hafa sumar verið byggðar þar, sem skilyrði hafa verið ákaflega erfið og kannske erfiðari heldur en líkur eru til, að verði nokkurs staðar hér á landi, þar sem rafveitur koma. Í því sambandi vil ég benda á Ísafjörð. Þar er komin á rafveita við ákaflega erfið skilyrði, rafveita, sem óhugsandi er annað en að hljóti alltaf að verða notendum mjög dýr. En fjölmennið í kaupstaðnum krafðist þess, að eitthvað yrði gert. Slíkar rafveitur standa ákaflega illa að vígi með að inna af hendi gjöld til annarra rafveitna, bæði vegna þess, hve skilyrði hafa verið erfið frá náttúrunnar hendi til að koma þeim upp, og líka hins, að þær hafa verið byggðar á þeim tíma, þegar lán fengust ekki nema með óhagstæðum vaxtakjörum, voru mjög dýr. Mér er einnig sagt af hv. þm. Seyðf., að sú rafveita, sem byggð hefur verið á Seyðisfirði og orðin er 30 ára gömul, sé algerlega ófullnægjandi. Af þessari gömlu rafveitu á að gjalda skatt samkv. þessu frv., sem að vísu er ekki stór, af því að rafveitan er lítil, en skatt samt, á sama tíma og verið er að hafa úti allar klær til þess að afla fjár til byggingar nýrra rafveitna og fullkomnari en þessi rafveita á Seyðisfirði er. Það virðist mér alls ekki sanngjarnt. Og það er ekki hægt að komast hjá því, að manni finnist það einkennilegt, að fyrir þinginu liggja nú 3 mál um rafveitur. Hvers vegna er ekki hægt að sameina þessi mál á einhvern hátt? Það er rafveita fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri eitt málið, það er frv. um rafveitur ríkisins og þetta er þriðja málið um rafveitur. Þó að þetta séu allt þörf mál, ef rétt er með þau farið, get ég samt ekki alveg lokað augunum fyrir því, að mér finnst, að það geti verið nokkuð samband á milli flutnings þeirra og þess, að búizt er við kosningum mjög bráðlega. (BjB: Hefur hv. þm. ekki séð þessi mál fyrr á kjörtímabilinu?).