23.03.1942
Efri deild: 21. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

25. mál, íþróttakennaraskóli Íslands

*Magnús Jónsson:

Ég ætla ekki að fara að hreyfa neinum aths. við þetta frv. En mér finnst það ekki bera að eins. og mér finnst eiginlega að þyrfti að vera um svo merkilegt mál, sem hér er um að ræða, að setja upp alveg nýjan skóla, nefnilega íþróttaskóla. Og ég get hugsað mér það, þótt ég hafi ekki sett mig sérstaklega inn í þessi mál eða rætt þau við þá menn, sem sérstaklega er ástæða til að ræða þau mál við, að það vanti enn þá nægilegar umsagnir um málið til þess að maður geti verulega áttað sig á því. Að vísu er sagt hér í grg. frv., að það sé samið eftir till. Björns Jakobssonar íþróttakennara, Bjarna Bjarnasonar skólastjóra og Þorsteins Einarssonar íþróttafulltrúa, og að það sé byggt á reynslu þessara manna. Og það er náttúrlega mjög mikils virði, að þessir reyndu menn í þessum efnum hafa fjallað um það. En mér finnst nú vera búið svo sterklega um íþróttamálin með löggjöf og slíku, að mér þætti nauðsynlegt, að beinlinis lægju fyrir umsagnir frá íþróttafulltrúanum og þeim félagsskap, sem stendur að íþróttamálunum í landinu, og t.d. að n. hefði fengið alveg greinilegar slíkar umsagnir um málið. Annars finnst mér í raun og veru, að frv. um stofnun nýs skóla ætti að vera stjfrv. og að sá aðili í ríkisstj., sem hefur með þessi mál að gera, ætti þá að kveðja þá menn, sem til þess þættu hæfastir; til að undirbúa þetta frv. Ég segi þetta án þess að gagnrýna þetta frv. sérstaklega. Það geta alltaf verið uppi mismunandi sérskoðanir um þessi og önnur svipuð mál. Og því virðist mér nauðsynlegt, áður en löggjöf er undirbúin um mál sem þetta, þá fái ríkisstj. till. viðkomandi manna og vinni úr þeim á þann hátt, sem gæti orðið heppilegast. T.d. viðvíkjandi vali á stað fyrir skólann, þá er það að ýmsu leyti ekki óheppilegt að hafa hann á Laugarvatni og byggja á vísi þeim, sem þar er fyrir. En ég geri ráð fyrir, að þetta geti þó nokkuð orkað tvímælis. Og viðvíkjandi kostnaðarhliðinni, að það sé ódýrara nám við sveitarskóla á Laugarvatni heldur en mundi vera við íþróttaskóla í Reykjavík, þá er á það að líta, að 1/3 — einn þriðji — hluti þjóðarinnar á heima í einni borg, og þá er fyrir þann stóra part þjóðarinnar ódýrast að ganga í skóla þar, sem það fólk á heima. Og þó að ýmis skilyrði séu betri á Laugarvatni en í Reykjavík, þá er þess líka að geta, að hér í höfuðstaðnum skapast ýmis skilyrði, sem ekki eru fyrir hendi annars staðar. Ég þori ekki að tala um þetta nema svo ósköp varlega, því að ég er enginn sérfræðingur í þeim efnum frekar en hv. þm. S.Þ. gæti kannske játað, að hann sé sjálfur. En ég gæti hugsað mér, að við slíkan skóla, þar sem fara ætti fram kennsla sem í þessum skóla, væri gott að geta haft aðgang til manna, sem sérstaklega væru færir á ýmsum sviðum í þessu efni. Því að þegar ala á upp íþróttakennara, þá er ekki nóg, að þeim sé kennt að kenna að fara á skíðum o.þ.h., heldur þarf það að vera margháttuð kunnátta, sem kennarar í slíkum skóla þurfa að hafa. Annars ætla ég ekki nú að fara út í efnisatriði málsins, heldur víkja að undirbúningi þess í sambandi við form frv.

Í áliti menntmn. er sagt, að einn nm. hafi ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins, og er nú kunnugt, að hann óskar ekki að starfa í þessari n., og hefur því verið skipt um mann í n. Þætti mér þá heppilegt og vel við eigandi, að málið væri nú tekið til athugunar í n. þessari eftir að hún er fullskipuð. Og þó að hv. flm. hafi ekki viljað bíða eftir því óhæfilega lengi, að maðurinn vær í skipaður í n., vonast ég eftir, að hann taki þessi orð mín til greina.