23.03.1942
Efri deild: 21. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

25. mál, íþróttakennaraskóli Íslands

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Út af aths. hv. 1. þm. Reykv. vildi ég segja það, að ég er honum samdóma um það, að þar sem nú er kominn nýr maður í n., þá álít ég, að það væri rétt og eðlilegt, að nú væri gengið frá 2. umr. málsins, en málið tekið fyrir til umr. í n. milli 2. og 3. umr. Og ég býst við, að það komi hér um bil í sama stað niður. En það gæti tafið fyrir málinu, ef ekki er hægt nú að ljúka 2. umr., ef fylgi er fyrir því.

Ég vil enn fremur segja það, að n. hefur fengið bréf frá íþróttakennara hér í bænum, sem óskar eftir að fá að láta í ljós skoðun sína á málinu, sem er sjálfsagt að taka til greina.

Út af þeirri aths. hv. 1. þm. Reykv., að þetta mál væri ekki nægilega undirbúið, þá má það satt vera. En það vill þannig til, að sá maður, sem mest hefur gert fyrir þetta mál, Björn Jakobsson, sem hefur unnið við þessa íþróttakennslu í 10 ár, hann hefur eftir sinni reynslu lagt til það efni, sem hann vildi, til þessa máls. Og íþróttafulltrúinn, sem er fulltrúi ríkisstj., hefur átt þátt í frumdrögum frv. og brtt. n., svo að ég hygg, að þeir aðilar, sem bezta hafa aðstöðu til þekkingar í þessu máli, þeir hafi um það fjallað.

Ég ætla ekki heldur að fara langt út í þær hugleiðingar hv. þm., hvort þessi skóli ætti fremur að vera í kaupstað eða úti í sveit, en ég vil þó fara um það nokkrum orðum. Ég álít, að þrátt fyrir kjördæma- og flokkamismun beri okkur hér á hæstv. Alþ. skylda til að reyna að finna í sem flestum málum það, sem er bezt fyrir landið í heild sinni. Og ég álít þá að sjálfsögðu, að Reykjavík eigi að fá sitt. En því hefur verið haldið fram af ýmsum, að höfuðstaðurinn hafi orðið afskiptur um þá góðu hluti, sem aðrir landshlutar hafi fengið að njóta. Aðrir halda fram hinu, að Reykjavík hafi fengið allt of mikið af þeim góðu hlutum í þjóðfélaginu. Nú álít ég, að Reykjavík eigi að fá sitt, og þannig eigi að gjalda keisaranum það, sem keisarans er. Ég veit, að hv. þm. mun vita, að fyrir 15–16 árum kom fram till. um byggingu sundhallar í Reykjavík. Þá sögðu ýmsir, að þetta væri allt of mikið fyrir Reykjavík, hún ætti ekki að fá meira hlutfall heldur en aðrir staðir á landinu. En ráðizt var í að byggja sundhöllinu hér, og það komst á fyrir tilstyrk þeirra manna einnig, sem ekki eru þm. Reykv. Og ég sá nýlega útlistun á því, hvað þetta væri heppilegt fyrir bæinn. Ef t.d. á þeim tímum, þegar það mál var á ferð hér á hæstv. Alþ., allir sveitakjördæmaþm. hefðu sagt: Það má byggja sundhöll fyrir Reykjavíkurbæ, en bærinn verður að kosta hana einn, — þá hefði sú framkvæmd ekki komizt á. En hún komst á fyrir það, að þm. úr Reykjavík, og ég hygg þar með hv. 1. þm. Reykv. (MJ), og þm. annars staðar af landinu lögðu sitt lið til þess. Ég álít það eðlilegt, að þessi stofnun, íþróttaskólinn, sé ekki í Reykjavík, eins og ég áleit eðlilegt, að sundhöllin vær í byggð hér á sínum tíma. Það er sem sé þannig; að það má teljast heppilegt, að sumar stofnanir séu utan þéttbýlisins. Og sú þjóð í Evrópu, sem til þessa tíma hefur verið ríkust, Englendingar, hafa tekið megnið af sínu skólauppeldi út úr bæjum og sett upp í sveit, ekki til þess að hafa það ódýrara, heldur til þess, að uppeldið gæti verið fullkomnara. Og jafnvel skólar hjá þeim eins og þeir elztu háskólar voru stofnaðir sem sveitaskólar af munkum og alls ekki sótzt eftir, að þar yrðu stórbæir, þótt sú hafi orðið raunin á seinna.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur veitt því eftirtekt, að það eru talsvert miklir örðugleikar á því að koma við hér í Reykjavík þeim æfingum í íþróttum, sem hægt er að koma við á góðum sveitarstað. Hér í bænum er ekki hægt að hafa skíðamennsku nema með því að fara um 30 km út úr bænum til næsta staðar, sem í því efni getur komið til greina, og er þar þó ekki nærri alltaf skíðafæri, þótt um hávetur sé. Við vitum einnig, að skautaíþróttin er að veslast upp hjá okkur vegna þess, að við höfum ekki aðstöðu til hennar. Við vitum, að þrátt fyrir það, þó að gífurlegur áhugi sé í Reykjavík fyrir knattspyrnu og líklega margar þús. manna stundi hana hér, þá hafa þessir íþróttamenn hér ótrúlega slæm skilyrði. Íþróttaskóli, þar sem kennd væri knattspyrna, væri, að því leyti sem til þeirrar íþróttar kemur, við eins erfiðar kringumstæður og hægt væri, ef hann væri hér í Reykjavík. Þetta kemur til af því, að hér hefur vantað skilyrði. Annars hefði það verið komið á fyrir löngu. Ég álít, að hv. 1. þm. Reykv. eigi að sætta sig við það og vera glaður yfir því, að ýmsar menntastofnanir séu utan Reykjavíkur, þó að þær hefðu gjarnan mátt vera hér. Ég álit, að menn gætu orðið mér samdóma um það, að t.d. Akureyri, Ísafjörður, Vestmannaeyjar og fleiri staðir utan Reykjavíkur hafi eitthvað til síns ágætis til þess að vega salt á ýmsan hátt á móti Reykjavík. Og viðkomandi því, hve dýrt er að vera á hverjum stað og því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði í því sambandi — enda var ekki neinn kjördæmaskipunarblær á ræðu hans —, þá má segja það, að það er að ýmsu leyti ódýrt að vera í slíkum skóla einmitt í sveit. Og þar yrðu tiltölulega góð kennsluskilyrði. Og það, sem kannske mestu skiptir, er, að þar er hægt að einangra nemendur við íþróttirnar meira en hægt væri í bæ. Þess vegna vonast ég eftir, að hv. 1. þm. Reykv. sannfærist um það, að þetta frv., með þeim breyt., sem hann og aðrir menn vilja á því gera til bóta, eigi fram að ganga.

Ég vil spyrja þennan hv. þm., hvort hann álíti ekkí, að hans tilgangi verði náð, ef n. tæki málið til umr. og athugunar milli 2. og 3. umr.