16.03.1942
Efri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

3. mál, útsvör

Erlendur Þorsteinsson:

Ég get vel fallizt á þessa viðbótartill. frá hv. þm. Vestm., því fyrir okkur vakti engan veginn, að lagt yrði útsvar á fiskiskip, sem leggja upp afla sinn á Siglufirði, eða verkafólk, sem þangað leitar til þess að afla sér atvinnu.

Hv. 11. landsk. fannst það lítið, ef ekki væru nema 3 menn í Reykjavík, sem við gerðum kröfu til að fá útsvarshlut frá. En eftir að breytingin var gerð á b-lið 9. gr., eru ekki nema 3 slíkir menn í Rvík. Það eru ekki fleiri, sem söltun reka á Siglufirði. Af þessu dró hv. þm. þá ályktun, að ekki væri mikil þörf á brtt. okkar. En þetta er misskilningur. Till. okkar er eins nauðsynleg fyrir þessu, því að það eru aðrir aðilar, er atvinnu reka á Siglufirði, sem við viljum ná útsvari frá. Árið 1939 lögðum við útsvar á alla þessa menn, og vil ég taka hér tvö dæmi, sem sýna, hver nauðsyn er á till. okkar. Eru komnir hæstaréttardómar í málum þessara tveggja aðila. Annar þeirra saltaði á Siglufirði 8 eða 9 þúsund tunnur á einu sumri. Hann taldi sig eiga heima á Akureyri árið 1939 og hafði þá ekki aðra atvinnu en þessa söltun á Siglufirði. En hann var sýknaður á grundvelli þess, að hann ætti heima á Akureyri og hefði ekki haft opna skrifstofu á Siglufirði allt árið. Hinn aðilinn er félag, sem skrásett er á Akureyri, en á eignir á Siglufirði. Félag þetta hefur haft starfrækslu á Akureyri, en starfræksla þess á Siglufirði er þó heldur meiri. Það var sýknað á grundvelli þess, að það ætti heimili á Akureyri. Hins vegar býst ég við því, að eitt félag, sem lagt var á, muni verða dæmt til útsvarsgreiðslu vegna atvinnurekstrar á Siglufirði, því að það hafði þar opna skrifstofu allt árið. Er þá spurningin, hvort þetta félag tekur ekki upp þann hátt til þess að losna við útsvarsgreiðsluna að loka skrifstofu sinni á Siglufirði í einn eða tvo mánuði á ári.

Hv. 1. þm. N.-M. taldi, að þetta væri ekki rétt leið hjá okkur, og get ég ekki verið honum sammála um það. Hann viðurkenndi þó, að með till. okkar yrði konið í veg fyrir, að menn hefðu gerviheimili, sem harm nefndi svo. Ég veit t.d. um nokkra skipstjóra á Siglufirði, tekjuháa menn, sem hafa flutt heimili sín inn í Fljót. Bóndinn í Tungu í Fljótum hefur leigt einum þeirra húsnæði og látið skrá hann þar. Það getur sennilega orðið erfitt að neyða þessa menn til að búa á Siglufirði. Þetta eru einhleypir menn, en hafa alla sína atvinnu á Siglufirði eða á siglfirzkum skipum. Þar má nefna tvo skipaeigendur, er báðir eiga skip í ísfiskflutningum, sem nú gefa góðan arð. Bæði skipin eru skrásett á Siglufirði. Annar þessara manna hefur flutzt til Hafnarfjarðar og telur skipið rekið þaðan. Hinn hefur stofnað félag í Reykjavík, sem á að reka hans skip. Hvort tveggja er þetta útsvarsflótti frá Siglufirði, sem stafar af því, að ekki er unnt með núverandi útsvarslöggjöf að ná útsvörum af þeim atvinnurekstri, sem þar fer fram.

Ég tel, sem sagt, öll rök mæla með því, að brtt. okkar sé samþ. Hins vegar hef ég þegar tekið það fram, að ég er reiðubúinn að taka upp í brtt. viðbót, sem útiloki, að hægt sé að misbeita henni gagnvart skipum, sjómönnum og verkafólki, og henni sama hefur hv. 1. flm. lýst yfir.