09.04.1942
Neðri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (898)

71. mál, reki og rekaréttur

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti: É,g he fleyft mér að bera fram í Nd. þáltill., sem ég nefni till. til þál. um undirbúning löggjafar um reka og rekarétt.

Það, sem hér er farið fram á, er algerð endurskoðun á þeim ákvæðum í l., sem eru í gildi um reka á fjöru.

Eins og grg. þessarar till. ber með sér og kunnugt er þeim, sem nokkuð hafa við þessi mál fengizt, þá er meðal þeirra, sem hafa afskipti af slíku, talin næsta brýn þörf að hefjast handa með þessa endurskoðun: En það, sem sérstaklega rekur eftir og veldur því, að þetta mál er komið út í öngþveiti, er það, að nú berst mikið upp á fjörur manna um land allt svo að segja af öllu tagi. Þessi ákvæði eru gömul, með því allra elzta, sem til er í okkar löggjöf. Aðalákvæðin eru í Rekabálki Jónsbókar, en hún er okkar aðalheimild í l. frá eldri tíð, frá því að Grágás þraut. Má segja, að þetta séu klassísk ákvæði. Þar eru reglur, sem enn má hlíta, því að enn má nota það, sem fornt er, en fært í viðeigandi búning, eftir því sem tímar breytast, en auk þess hafa hætzt ýmis nýrri ákvæði í Alþingissamþykktum og konungsbréfum. Mér þykir óþarfi á þessu stigi málsins að tilgreina dæmi, sem til ásteytingar hafa verið í meðferð þessara ákvæða, en tvennt má þó benda á, sem mörgum hefur þótt orka tvímælis og afarerfitt er fyrir löggjafann að fást við í raun og veru. Annars vegar er það, hvernig reka skuli úthlutað milli fjörueigenda og landareigna. Sums staðar hagar svo til, að erfitt er viðfangs að eiga við slíkt, og hefur jafnvel orðið að láta undir höfuð leggjast að gefa þar út ákveðna úrskurði, heldur verið komið á sættum, með því að skýr lagaákvæði voru ekki til. Hins vegar getur slíkt kostað áreiðar og athugun á landssvæðum, því að sums staðar eru fjörur breytingum undirorpnar, bæði fyrir áhrif af sæ utan og landi ofan. Þetta er annað atriðið. Hitt er það, að nokkurri hulu er undirorpið, hvernig skipt skuli reka milli landeigenda og leiguliða. Er það nokkurt þrætuefni, og er þar farið eftir gömlum venjum, sem eru nokkuð samræmanlegar, en þó nokkuð sundurleitar, eftir því sem leigumálar hafa gerzt hér og þar.

Ég hef bent á þessar höfuðlínur, til þess að menn sjái, hvernig þetta mál stendur, og að nú er þörf, og þó að fyrr hefði verið, að gera gangskör að því að bæta úr, þó að ég vilji, að allt það verði gert með gætni og í engu rasað fyrir ráð fram, en notað tækifærið til þess að fá góða og gegna löggjöf, sem nokkuð mætti styðjast við eldri löggjöf, en er tímabær. Verður þar að leita aðstoðar þeirra, sem bezt eru menntir í þessum efnum.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, að till. verði samþ. Ég tel ekki þörf að vísa henni til n., en set mig ekki á móti því, ef einhver þm. teldi það æskilegt.