12.03.1942
Efri deild: 14. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

Jóhann Jósefsson:

Ég ætla ekki að fara að halda uppi löngum umr. um þetta mál, en ég heyri á ræðum manna hér, að þeir eru mér í raun og veru sammála, og að því leyti, sem það getur ýtt undir réttláta notkun á þessu landi, þá sé ég engan veginn, að það sé forkastanlegt, að Vestmannaeyjabær eigi slíkar eignir.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að leigan eftir þessar Vestmannaeyjajarðir er sjálfsagt eftir nútímamælikvarða mjög lág, því að ég geri ráð fyrir, að margir sitji í gömlum leigumálum. En það er nú samt opið til ýtarlegrar athugunar, því að ég hygg, að afgjöldin til ríkissjóðs hafi vaxið allmikið á síðari árum. Þó að ekki séu stórar landspíldur né há afgjöld hjá hverjum um sig, dregur það sig saman. Sjálfsagt er það rétt, að það mundi verða dýrt fyrir Vestmannaeyjakaupstað að festa í einu kaup á öllu landi þar með núverandi gangverði. Það hef ég aldrei hugsað mér, heldur að keypt yrði það, sem með góðu móti losnaði, og einkum ræktarlönd, sem bráðliggur á að nota, og lóðir þær, sem höfnin og bæjarfélagið verður sumpart að taka vegna framkvæmda sinna og verða líka þeirra vegna dýrmætari og dýrmætari með hverju árinu. Ég var eiginlega hálfhissa á því í ræðu hv. 1. þm. N.-M. (PZ), að það sé nokkur ný kenning, jafnvel hjá íhaldsmönnum, sem hann kallar, og veit ég ekki, við hve marga þeirra hann hefur raunar talað um málið, að það sé hið opinbera, sem hagnast ætti á verðhækkun, sem stafar af opinberum framkvæmdum. Ég held gott samkomulag sé um það, að þess ætti hið opinbera að njóta, og í þessu máli sé um það að ræða.

Af því að hv. 1. þm. N.-M. leyfði sér að nefna pólitík í málinu, gæti ég minnt hann á þá pólitík, að það er einn hv. flokksbróðir hans, sem hefur leyft sér að týna einni jörðinni í Vestmannaeyjum, svo að hún fyrirfinnst hvergi, týna heilli jörð með gögnum öllum og gæðum ! Og hans eigin flokksbræður, sem yfir hann eru settir, hafa ekkert um þetta fengizt. Sú saga er svo fróðleg og merkileg, að ég skyldi gjarnan rekja hana, ef hv. þm. kærði sig um.

Þá talaði hann um menn, sem keypt hefðu landbletti af öðrum fyrir tífalt verð. Mennirnir hafa selt sína vinnu og það, sem þeir hafa verið búnir að leggja í kostnað við löndin. Ef um óheilbrigða sölu skyldi vera að ræða í einstökum tilfellum, vil ég fullyrða, að þau eru mjög fágæt og yfirleitt fá dæmi þess, að menn sleppi blettum sínum. Vitanlega kemur það fyrir við dauða manns eða burtflutning, þegar eigendur blettanna eru farnir að skipta hundruðum.

Hægt hefði verið að bera þetta mál fram sem sérstakt frv., en mér virtist einfaldara og eðlilegra að láta það og þetta Siglufjarðarmál fylgjast að. Hvað skilmála snertir, tel ég alveg rétt að setja bæjarfélögunum einhverjar reglur um meðferð landanna. Það er satt hjá hv. 1. þm. N.- M., að þar hefur mikið á skort hingað til, þær föstu reglur eru ekki til eða þeim framfylgt. Ég get sagt það, að ég hef aldrei stuðlað að braski með lóðir og lendur í Vestmannaeyjum á nokkurn hátt og hef haft andúð gegn því. En aldrei er alveg hægt að útiloka það, sízt í kaupstað í örum vexti, meðan reglur vantar.

Hæstv. forsrh. tók fram, að sín hugmynd hefði verið að halda jörðunum á Heimaey það stórum, að þar byggju bændur, sem þyrftu ekki að leita sér annarrar atvinnu. Þá hugsjón hans skil ég vel, en engu að síður kemur þar fram ókunnugleiki hans á sérstöðu Vestmannaeyja. Ég er þar upp vaxinn og man ekki til, að nokkur bóndi hafi þar verið, sem ekki átti hlut í skipi eða stundaði sjó á vertíðum. Það mun haldast eins og hingað til. Víða á jörðunum hafa orðið mannaskipti, og á sumum sitja nú fullorðnir menn eða ekkjur, og ekki líklegt, að miklu sé spillt, þótt ráðgert væri, að kaupstaðurinn tæki við, þegar jarðir losna. Úthlutun jarðarskika, 2 ha eða nálægt því, margfaldar hið ræktaða land, en búskaparformið, sem verið hefur frá ómunatíð, helzt í aðalatriðum, þ.e. að menn hafa einhverja gripi á landi sínu og kartöflugarð heimili sínu til viðurværis, en stunda annars sjóinn. Þetta hygg ég verði þar heppilegasta fyrirkomulagið og að því beri að stefna, að sem flestir eigi kost á jarðarbletti, sem gefur af sér a.m.k. kýrfóður, og nægt garðland að auki. Á hinn bóginn verður að reyna að fyrirbyggja, að löndin liggi óræktuð áratug eftir áratug. Þróun ræktunarinnar í Vestmannaeyjum, síðan bændur jarðanna sátu að þeim einir, stafaði af því, að menn þoldu ekki mjólkurleysið og fóru því að reyna að festa sér land til túnræktar. Þrýstingur þeirrar hreyfingar óx, svo að ekki varð móti staðið. Bændur fóru að láta Pétur og Pál hafa bletti. Mikil breyting varð þar til batnaðar fyrir atbeina Karls Einarssonar, sem lengi var bæjarfógeti. — Ég skal ekki fjölyrða lengur um málið, en vona, að það mæti skilningi hjá deildinni.