16.04.1942
Neðri deild: 36. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

3. mál, útsvör

*Sigurður Kristjánsson:

Ég hef gerzt meðflm. þessarar till., sem hér liggur fyrir. Ég heyri, að hæstv. fjmrh. og hv. þm. Borgf. eru mjög undrandi yfir því, að þessi till. skuli koma hér fram, og finnst hún vera hrein fjarstæða. En ég vil nú rifja þetta mál svolítið upp fyrir hv. þm. Það er sem sagt ekki alveg eins nýtt hérna og þeir vilja vera láta. Það er eins og það hafi hrapað af himnum ofan, fyrirvaralaust. En sannleikurinn er sá, að það er búið að deila um það í hv. Ed., og á undanförnum þingum hefur verið deilt um það óbeinlínis í sambandi við tekjumöguleika fyrir Siglufjarðarkaupstað. Það, sem ég tel æskilegt að gera og brtt. fer fram á, er frá minni hálfu miðað sérstaklega við Siglufjörð. Og það er ekkert undarlegt, þó að þessi till. komi fram.

Ég held, að hv. þm. ættu að muna svo langt, að harðar deilur stóðu um tekjumöguleika fyrir Siglufjörð. Ég og fleiri hv. þm. báru fram, samkvæmt ósk bæjarstjórnar og bæjarfógeta Siglufjarðar, þá hóflegu till., að vegna þess, að Siglufirði yrði að sjá fyrir tekjum, væri honum heimilað að leggja 1/2% vörugjald á allmargar vörutegundir. Þessi till. var drepin hér algerlega rakalaust, bara af því, að hv. þm. voru hræddir um, að það mundi geta komið illa við einhverja kjósendur sína, einn á Akranesi, einn í Hafnarfirði, einn í Grindavík, einn á Akureyri, einn á Norðfirði o.s.frv. í kringum landið. Það var svo sem ekki tekið sem landsmál. Nei, heldur var það tekið sem kjósendamál, og till. var drepin. Þá stóð þannig á með Siglufjörð, að rúm 50% af öllum atvinnurekstri þar var ekki útsvarsskyldur, og kaupstaðurinn hafði því ekki meiri tekjur af þessu í bæjarsjóð. Nú er svo komið, að það eru aðeins 3/10, sem eru útsvarsskyldir á venjulegan hátt. Allir hljóta að sjá, að við þessu verður eitthvað að gera. Það er búið að gera tilraun til þess að láta þennan kaupstað fá sérstakar tekjur, en Alþingi hefur þverneitað og engin rök fært fyrir. Nú er komið með þessa till., að honum sé heimilað að leggja á atvinnurekstur, sem rekinn er um stundarsakir, en það mætir sömu mótspyrnu. Og nú eru færð tvenn rök fyrir þessu. Í fyrsta lagi, að till. komi mönnum á óvart við 3. umr., en það er hv. 7. landsk. búinn að sýna fram á, að ekki er rétt. Málið hefur verið á leiðinni í gegnum þingið og sætt venjulegri málsmeðferð. Þá hefur hann einnig leiðrétt, að sama till. hafi verið flutt í Ed. og felld þar. Sá stóri munur er á þeim, að hér eru felld undan veiðiskip. Annars hefur hér oft verið breytt málum, sem komið hafa frá Ed., og það er engin skylda fyrir þessa hv. d. að leyfa sér ekki að hafa aðra skoðun en hv. Ed. Hin ástæðan, sem færð er gegn þessari till., er sú, að rangt sé að skapa öryggisleysi um útsvarsálagningu, og var vitnað í það, að núverandi ákvæði, sem með þessari till. á að breyta, hafi verið sett til öryggis, af því að menn hafi verið verndarlitlir fyrir nokkuð frekum útsvarsálagningum þar, sem þeir höfðu selstöð um stuttan tíma.

Út af þessu vil ég segja það, að hér er mikil breyt. á orðin. Ég ætla alls ekki að mæla Siglfirðinga undan því, að þeir kunni að hafa gengið fulllangt um útsvarsálagningu áður. En þeir hafa a.m.k. rekið sig á það síðan, að það borgaði sig ekki. Og síðan það gerðist, hefur verið skapað öryggi fyrir útsvarsgreiðendur. Það er vitað, að þá gátu menn ekki komið málum sínum lengra en til ríkisstj., ef þeir vildu kæra undan útsvari, og þá átti pólitískur ráðh. að lokum að skera úr, hvort útsvarið skyldi lækka, hækka eða standa óhaggað. Og í þeim hörðu pólitísku erjum og með þeim pólitísku fylkingum, sem verið hafa hér í landinu, þá þótti þetta vafasamt öryggi, og var það oft og tíðum ekkert öryggi. Nú hefur skipazt þannig, að ríkisskattan. sker úr þessu. Og ég sé enga ástæðu til að ætla annað en að bæði hafi hún tök á að afla sér upplýsinga um þessi mál, og heldur hef ég ekki ástæðu til að efast um, að hún muni fella úrskurði sína ópólitískt og eftir beztu samvizku. Hér er því skapað mikið aukið öryggi.

Hæstv.- fjmrh. sagði, að það væri ekki nema dugnaður bæjarstjórnar Siglufjarðar að ná ekki sínum hluta af útsvörum þeirra manna, sem búsettir eru utan Siglufjarðarbæjar, en reka atvinnu þar, og Hann taldi þessi mál í góðu lagi hér í Reykjavík, af því að fast væri fylgt eftir um framkvæmd þeirra. En ég hef talað um þetta atriði við ráðandi menn í bænum, sem kvarta undan því að ná gjöldum, sem önnur sveitarfélög eiga að greiða. Og mér er kunnugt um það viðkomandi Siglufjarðarkaupstað, sem átti að ganga eftir sínum hluta af gjöldum þeirra manna, sem ráku atvinnurekstur þar snertandi sjávarútveg, að það hefur gengið ákaflega hörmulega, mest vegna þess, að undanfarin ár höfðu verið mestu vandræðaár fyrir sjávarútveginn. Og þó að menn hafi fengið úrskurðaðar svo og svo miklar upphæðir til sinna sveitarfélaga af þessum útsvörum, hefur oft ekki verið hægt að ná þeim sökum fátæktar og fjárhagsvandræða. Og það þýðir í þessu efni ekkert að miða við þann stríðsgróðatíma, sem nú er. Þetta er og verður alltaf mestu vandræðum háð að eiga að sækja útsvörin á þennan hátt, sem ætlazt er til í l., þegar á að skipta þeim.

Nú fer því fjarri, að ég vilji halda fast við það fyrirkomulag, sem til er lagt í brtt. okkar hv. 7. landsk., að haft verði á þessu. En ég er sjálfur búinn að reyna að fá hæstv. Alþ. til að ganga inn á aðra leið í þessu máli, og því hefur verið þverlega synjað. Og ég veit ekki, hvort hæstv. Alþ. og þá hæstv. fjmrh. telja sér það óviðkomandi, hvort sveitarfélögin geta náð inn þeim gjöldum, sem þau þurfa til þess, að þau geti fullnægt fyrirskipunum l. Mér skilst, að vandi hæstv. fjmrh. vaxi nokkuð, þar sem þessi mál heyra undir hann. Og ef hann vill beita sér gegn þessari breyt. á útsvarsl., verð ég að vænta þess, að hann muni telja sér skylt að finna einhverja aðra leið, sem fullnægi tekjuþörf a.m.k. þessara sveitarfélaga, sem ég hef hér haft alveg sérstaklega í huga. Fyrst hann gerist nú aðili í þessu máli, vil ég vænta þess, að hann hugsi sér að koma því í viðunandi form, þó að hann með sinni málafylgju verði kannske þessari brtt. að bana.