02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (1053)

19. mál, raforkumál

Bjarni Benediktsson:

Það er orð að sönnu hjá hv. síðasta ræðumanni, að framkvæmd raforkaveitna víðs vegar um landið yrði ekki stöðvuð. Það sýnir og lofsverðan áhuga hjá hæstv. forseta að taka þetta mál fyrir mig, þegar komið er fram yfir miðnætti og margir gengnir af fundi. Og að hann skuli gera það, þrátt fyrir það að hv. 1. flm. hafi haldið hér uppi málþófi í kvöld og flutt sömu ræðuna sem svo oft áður, um afrek verkfræðinganna og Jón Þorláksson, svo að segja orði til orðs. Eins og ég segi, þá sýnir það lofsverðan áhuga forseta, að hann skuli taka till. fyrir nú, þegar svo margir eru viknir af fundi, þar sem mér virðist, að um 13 þm. Framsfl. séu hér ekki viðstaddir nú, þ. á m. vantar allt að því helming sjálfra flm. till. (SvbH: Hvað vantar marga þm.Sjálfstfl.?) Mér telst svo, að þeir muni vera 11 fjarstaddir.

Það virðist svo sem hv. 1. flm. till. (JJ) hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvað í till. felst. Hann talar um n., sem eigi að byrja rannsóknir til undirbúnings rafveituframkvæmda í landinu, en eftir því, sem um getur í till., á þessi n. eingöngu að athuga möguleika til fjáröflunar í þessu skyni. Ef það er tilgangur með till. þessari, að þessi 5 manna n. hefji öfluga rannsókn í rafveitumálum okkar, þá er nauðsynlegt, að það komi skýrar í ljós í þáltill. heldur en nú er, og væri því ekki vanþörf á því, að þáltill. færi til allshn. og hún yrði þar athuguð betur, einmitt frá sjónarmiði flm.

Annars get ég sagt það um till. þessa, að mér finnst hún að ýmsu leyti góð, a. m. k. með þeirri skýringu, er hv. þm. S. Þ. gaf á henni, er hann áleit n. eiga að hafa með höndum rannsóknir, sem nauðsynlegar eru í máli þessu. Í till. er talað um aukinn stríðsgróðaskatt, sem vel má ræða um, þótt vinningurinn við hækkun hans sé ærið hæpinn. En þá stefnu í fjármálum, er þessi hv. þm. S. Þ. hefur beitt sér fyrir, að byggja sérstakar framkvæmdir á sérstökum tekjuöflunarleiðum, tel ég að ýmsu leyti varhugaverða. Það gerir t. d. yfirlit yfir ríkissjóðinn miklu erfiðari, og það er sízt af öllu þessu mikilvæga máli til framdráttar og tryggingar að ætla að láta framkvæmd þess vera undir stríðsgróðanum komna. Ef á að finna einhvern sérstakan tekjustofn, þá á það vissulega að vera einhver öruggari en stríðsgróðaskattur.

Því er ekki að leyna, .að hv. þm. S. Þ. hefur tekið sinnaskiptum til hins betra frá því, sem áður var í þessu máli. Og þar sem vitað er, að þessi hv. þm. vill umfram allt vera nákvæmur í frásögn og leggja kapp á að fara rétt með heimildir, þá furðar mig á því, að hann skuli vilja láta líta svo á, að hann hafi fundið upp einhverja nýjung í þessu máli, því að þar er hv. þm. að fara með staðlausa stafi. Alla þá hugsun, er í þessari þáltill. kemur fram, er að finna í frv. Jóns Þorlákssonar frá 1929. Málið var þá að vísu ekki til fulls athugað, en meginatriðin í því frv. voru nákvæmlega þau sömu og hv. þm. S.-Þ. leggur nú áherzlu á, að að gagni geti orðið. Hann vill, að ríkið standi fyrir framkvæmdum í þessu efni, en slíkt hið sama kom fram í frv. 1929, að ríkið hefði forgöngu í þessu máli. Frv. þetta er nokkuð langt, en mig langar til að vitna í það, sem einn þm. sagði þá um það og hver væri kjarni þess. Hann segir: „Hér er því í raun og veru ekki um annað en þjóðnýtingu að ræða og hún það víðtæk, að stærri þjóðnýtingartill. hefur aldrei verið borin fram af sjálfum sósíalistum, því að hér er farið fram á að setja allan þjóðarauðinn í þessar framkvæmdir.“ — Þetta eru ummæli hv. þm. S. Þ. (JJ) í Alþt. 1929 C-deild á bls. 563 um frv. Jóns Þorlákssonar. Þá talaði hv. þm. S. Þ. um það sem hina mestu þjóðnýtingu, er þekkzt hefði, að ríkið stæði undir rafveitukostnaðinum að verulegu leyti. Þá taldi hann þetta vera óholla fjármálastefnu og var á móti frv. af þeim sökum. Það kemur og glögglega fram í síðari ræðu þessa sama hv. þm. á sama þingi, að hann leggur allt upp úr því, að ríkið leggi einungis eitthvað fram á móti til þeirra litlu og ónógu framkvæmda, er þá voru hafnar og einstaklingar stóðu að. M. ö. o., þá var þessi hv. þm. staddur á samkeppnisgrundvelli skýrt og greinilega.

Hann heldur því enn fremur nú fram, þessi hv. þm., að rafmagnið komi ekki að fullum notum og nái ekki tilætluðum árangri, fyrr en rafmagnið verði jafnódýrt til sveita og það er í þéttbýlinu, en einmitt þessi sama meginhugsun kom fram í 5. gr. í frv. Jóns Þorlákssonar, að vísu með nokkuð öðrum hætti en í þáltill. þessari, en sama meginhugsunin liggur þar að baki í báðum tilfellum, því að í frv. Jóns Þorlákssonar er berum orðum tekið fram, að menn skuli eigi fá erfiðari aðstöðu um heildarkostnað fyrir orkunotin en þeir mundu fá, ef hver fyrir sig ætti kost á meðallagi hagkvæmri vatnsorku heima fyrir og virkjað í hana til heimilisþarfa. En hv. þm. S.-Þ. sagði áðan í ræðu sinni, að gefnu tilefni frá mér, að slík virkjun væri bændum yfirleitt ekki ofvaxin vegna kostnaðar. Ekki skal þó vera að sakast um skoðanaskipti í þessu efni hjá hv. þm. S. Þ., heldur tel ég honum það miklu fremur til lofs. Og það, er vissulega ánægjulegt til þess að vita, að hann skuli ekki hafa staðnæmzt á því ömurlega stigi, sem Jónas Þorbergsson er á enn og kemur fram í blaði hans Þjóðólfi, þar sem talað er um að raflýsa fátæktina. Þar er Jónas Þorbergsson á sama sjónarhól í þessu máli sem hv. þm. S.-Þ. var 1929. Það verður að segja það hv. þm. S.-Þ. til lofs, að hann hefur í þessu efni lært mikið frá því 1929, á þeim 13 árum, sem liðin eru síðan, en hinum, sem ekkert hefur lært og talar um að raflýsa fátæktina, til óbærilegrar smánar. (JJ: Það eru þeir Pétur í Málaranum og Ragnar í Smára, sem segja þetta.) Það er Jónas Þorbergsson, sem stendur að Þjóðólfi, hann hefur sagt mér það sjálfur og beðið mig um auglýsingar í hann.

Annars er það alveg rétt, sem um getur í till., að mikil nauðsyn sé á því, að hafizt sé handa til rannsóknar og komið sé skipulagi á rafmagnsmálin. Hv. þm. S. Þ. telur það nú vera eitt af því ánægjulega, að allir geti sem fyrst orðið rafmagnsins aðnjótandi. En árið 1929 taldi þessi sami þm. það vera eitt af því ægilega, eins og lesa má í Alþt. Það er á bls. 559 í C-deild. Þar segir þessi hv. þm., og maður getur enn, 13 árum síðar, heyrt skelfinguna, sem kemur fram í orðum hans: „Nú má gera ráð fyrir, og það er hér um bil víst, ef að byrjað yrði á þessum framkvæmdum, að þá mundu drífa að umsóknir úr öllum áttum. Allir mundu vilja verða þeirra hlunninda aðnjótandi, sem frv. er ætlað að veita“

Eins og ég segi, er þetta lofsverður þroski frá 1929, og hann sýnir, að hv. þm. S.-Þ. lærir af lífinu sjálfu, og hann hefur skilið, að góð mál verða ekki stöðvuð, og ég efast ekki um það, að málinu muni vel borgið, ef hann leggst á það með sínu mikla kappi og dugnaði. En það er sízt af öllu þessu máli til framdráttar að vera með málþóf um það og falsa sögu þess.