04.09.1942
Sameinað þing: 14. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (1145)

33. mál, drykkjumannahæli

Pétur Ottesen:

Ég skal ekki hafa mörg orð um þessa till. og get vísað til fyrri afstöðu minnar til þessa máls. Að því er snertir afgreiðslu þessa máls í fjvn., vil ég láta nægja þá skýringu, sem hv. þm. Ísaf. og hv. þm. S. Þ. hafa gefið.

Að gefnu tilefni vil ég láta þess getið hér, að ég álít, að til framgangs þessa máls sé sú leið öruggust, sem fjvn. leggur til, að farin verði. Því að það er ekki nóg að afgreiða mál í þingi, heldur verður að afgreiða það þannig, að líkur séu til, að það komist í framkvæmd, sem. ver ið er að stefna að. En til þess að ná þessu marki, álít ég langsamlega hyggilegast, að þeir, er þetta mál snertir, láti undirbúa það, — því að það er ekki undirbúið, það verðum við að viðurkenna —, til næsta þings, og þá ætla ég, að það sé nokkurn veginn öruggt um það með þeirri aðstöðu, sem skapazt hefur, að málið nái fram að ganga og þannig verði frá því gengið, að það komist í framkvæmd, og það er vitanlega aðalatriðið.

Nú finnst mér það renna sem stoð undir það, að málinu sé með þetta fyrir augum vísað til ríkisstj., að það hefur verið undirbúið og lagður grundvöllur undir það einmitt af öðrum aðilanum, sem stjórnin benti á, sem er landlæknir. Auk þess er bent á í bréfi fjvn., að einnig beri að leita um það til þeirra manna, sem með lögreglumál fara, hvernig beri að setja slíka stofnun á laggirnar.

Ég held þess vegna, að sá góði vilji, sem virðist vera í þinginu nú, nái langsamlega bezt tilgangi sínum með því að láta undirbúa málið til afgreiðslu á næsta þingi og haga því svo, að málið sé komið í þann farveg fyrir áramót, að hægt sé að hefja framkvæmdir eftir því, sem föng eru til. Því er það, að mér finnst, að sá góði vilji og áhugi, sem menn hafa viljað sýna þessu máli, nái bezt tilgangi sínum með því að viðhafa þessa afgreiðslu, og þætti mér vænst um, að við gætum sameinazt um það hér á þessu þingi að ganga þannig frá þessu nú, og tek ég því undir það, sem hv. þm. S.-Þ. lagði til, að vísa því til ríkisstj. til frekari fyrirgreiðslu, en ég er algerlega andvígur till. hv. 1. þm. N.-M., sem felur ekkert annað í sér en að vísa málinu frá, en það er allt annað en að undirbúa það til næsta Alþ.