17.08.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (1257)

38. mál, brúargerðir á Barðaströnd

Flm. (Gísli Jónsson) :

Það er einkanlega brú á Haukabergsá, sem ég vildi leggja aðaláherzluna á við hv. fjvn. Það er svo ástatt um þessa á, að hún rennur fyrir neðan túnið á Haukabergi. Þeir ferðamenn, sem leggja þarna leið sína, m. a. til þess að sækja lækni, hafa oft orðið að snúa aftur vegna þess, að áin hefur verið ófær, eða þá að bíða við ána í nokkra daga, þar til hún er aftur fær. Þetta er náttúrlega alveg óviðunandi, og ber brýna nauðsyn til þess, að þetta verk verði framkvæmt þegar á næsta hausti. Hins er einnig að gæta, að vegamálastjóri hefur nú ákveðið aðalbraut milli Patreksfjarðar annars vegar og Brjánslækjar hins vegar til þess að koma á sambandi við Stykkishólm. Í því sambandi eru þær brýr, sem hér eru nefndar í þáltill., nauðsynlegar. — Ég skal svo ekki hafa meiri umr. um málið, en legg til, að því verði að lokinni umr. vísað til hv. fjvn.