31.08.1942
Efri deild: 18. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

28. mál, kosningar til Alþingis

Hermann Jónasson:

Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi athuga, sem haldið hefur verið fram, en mun vera byggt á misskilningi. Það er viðvíkjandi boðun á öðrum kjördegi. Það hafa verið færð fram rök, sem ég vil svara strax, svo að hv. þdm. geti hugleitt þetta.

Þó að boðaður verði nýr áframhaldandi kjördagur, sem mun oft geta þurft tvo daga til að gera, t. d. ef kosið er fyrst á laugardag, og svo notaður sunnudagurinn og mánudagurinn til þess að boða kjördag, þá er það alveg undir hælinn lagt, hvort það yrði til bóta og í sjálfu sér ekki meiri líkur fyrir því, að það verði til bóta, eins og hér hefur verið sett fram. Og jafnframt má benda á það til viðbótar, að það er ákaflega óhagkvæmt að þurfa að eyða tveimur dögum til þess að boða nýjan kjördag og bíða með talningu atkvæða eftir því, að þessi boðun, sem á eðlilega að komast inn á hvert heimili, geti farið fram og nýr kjördagur þannig auglýstur. Ég get t. d. bent á það, að í norðurhluta Strandasýslu, þar er það ekkert lítið verk í Árneshreppi að boða kjördag. (SÁÓ: Ætli það megi ekki nota útvarpið?) Útvarp er ekki á öllum bæjum, — og ég geri ráð fyrir, að það sé einnig svo víða í Barðastrandarsýslu og Ísafjarðarsýslum, að það sé ekkert áhlaupaverk að boða nýjan kjördag, fara t. d. norður eftir öllum Ströndum til þess að boða nýjan kjördag allt norður í Skjaldarbjarnarvík, sem er um 40 km ferð. Líka má telja Múlasýslur í þessu sambandi; þar er ákaflega erfitt að boða nýjan kjördag. Þannig getur síðari kjördagurinn dregizt og talning atkv. eftir því, ef gengið er út frá því að boða sérstaklega síðari kjördaginn, eftir að séð er veður á aðalkjördaginn. Þetta þurfa hv. þm. m. a. að athuga fyrir 3. umr. málsins.