02.09.1942
Efri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

28. mál, kosningar til Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Ég vil tjá hv. meiri hl. allshn. þakkir fyrir, að hann hefur með brtt. á þskj. 179 tekið upp efnið í þeirri till., er við þm. Eyf. fluttum við 2. umr. og felld var, því að þó að brtt. n. sé öðruvísi orðuð, nær hún þó sama marki. Okkar till. var um, að varaþm. í tvímenningskjördæmi gæti ekki orðið uppbótarþm., ef listi hans kæmi að manni. Eins og frv. var áður, hefði annar maður á lista fengið ¾ atkv., en þriðji maður helming atkv., en samkv. þessari till. skal, þegar um útreikning uppbótarsæta er að ræða, reikna frambjóðendum eins og flokkunum eru reiknuð atkv. Annar maður fær helming atkv., sem listanum eru greidd, og er því niðurstaðan alveg sú sama og við hugsuðum okkur. Við bárum fram till. okkar út frá þeirri hugsun, að það kæmi varla fyrir, ef flokkur kæmi að einum manni og annar maðurinn, sem væri varamaður, væri útilokaður frá uppbótarþingsæti, þá kæmi þriðji maðurinn til greina. Með till. n. er orðið jafnólíklegt, að annar maðurinn komist að. Við þm. Eyf. erum alveg ánægðir með þessa till. í stað okkar, því að formið var ekki aðalatriðið fyrir okkur, heldur töldum við óeðlilegt, að næststærsti flokkur í kjördæmi fengi tvo þm., en stærsti flokkurinn einn. Þetta torveldast á sama hátt með till. n. og okkar.

Ég vil endurtaka þakklæti mitt til hv. allshn. og tel það til. bóta, ef þessi till. verður samþ.