02.09.1942
Efri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

28. mál, kosningar til Alþingis

Eiríkur Einarsson:

Við 1. umr. þessa máls gat ég nokkurra atriða, er ég taldi betur mega fara. Hér hef ég gert brtt., er miðar að því, og eru þær á þskj. 175. Hv. þm. Str. (HermJ) var núna í ræðulokin að minnast á 1. brtt. þar, sem er um það, að hámark kjördeilda í hreppi skuli vera 3 í stað 4. Satt að segja bar ég fram þessa brtt. af því, að mér þótti, fljótt á litið, að þetta mundi nægja og hverjum hreppi mundi með því borgið. Ég skal fúslega játa, að mig brestur um þetta fullkominn kunnugleika. Það má vera, að slíkir erfiðleikar séu um samgöngur í einstaka sveitum, að 3 kjördeildir nægi varla í hrepp. En ég hygg þó, að það séu hreinar undantekningar.

Þar sem svo er ástatt, verður manni á að detta í hug, að þeir, sem búa við svo erfiða kosningasókn, hljóti og að eiga erfiða aðstöðu um margt annað, svo sem t. d. læknissókn o. fl. En það er nú svo hér á Alþ., að hugulsemin í þessu efni er einna mest, þótt ég véfengi ekki, að hv. þm. Str. gangi gott. til í þessu máli.

Ég veit dæmi um víðlent hérað, sundurskorið af stórám. Fyrir síðustu kosningar var áhuginn þar ekki meiri fyrir kjördæmaskiptingunni en svo, að því var ekki einu sinni skipt í 2 kjördeildir, hvað þá fleiri. Ég nefni þetta sem dæmi, og hver og einn tekur dæmi þaðan, sem hann er kunnugastur. Ef hv. d. samþ. að hafa hámarkið 4 í staðinn fyrir 3, þá mun ég sætta mig við það. En ég tek till. mína ekki aftur.

En það er athugunarvert, þar sem kjördeildir eru mjög margar, að það líkist ekki um of gamla heimakosningafyrirkomulaginu. Það þótti nokkuð nærgöngult og vafasamt. Ég segi því, að menn mega ekki um of teygja armana heim til kjósendanna, því að um sama annmarkann getur þá orðið að ræða. Hv. d. sker úr um þetta. Mér er það ekki kappsmál.

Þá er 2. brtt. mín, við 47. gr., sem fjallar um umframseðla. Það er sagt, að þeir megi vera minnst 10%. En mér þótti þetta vera nokkuð óákveðið og vil segja nákvæmlega 10% með nánari skilgreiningu, en sleppa orðinu „minnst“.

Þá kemur 3. brtt., við 92. gr., þar sem ég óska lögfest, að kjörstjórn sé óheimilt að bjóða sjóndöprum eða fötluðum aðstoð sína við kosninguna, því að þess eru dæmi, að þær hafa boðið fram hjálp sína. En það er gott, að kjörstjórnirnar viti, að þetta varðar við lög og hvaða viðurlög eru fyrir hendi. Ég tel þessa brtt. sjálfsagða.

4. brtt. er um öryggi í frágangi kjörgagna. Þá vil ég að síðustu geta eins, það eru bráðabirgðaákvæðin. Ég ætla ekki að ræða um, hvort brtt. um 2 kjördaga eigi að samþ. eða ekki. En ég vil aðeins geta þess, ef þetta verður að l., eins og það nú er á þskj. 141, þá tel ég að breyta þurfi atriði í 1. málsgr., ákvæði til bráðabirgðu, þar sem gert er ráð fyrir tveimur kjördögum, þó ekki í kaupstöðum eða kauptúnum. Það er ekkert tekið fram um, hvernig er þar, sem hreppsfélag er með kauptúni. Ég leyfi mér því að bera fram skriflega brtt. um, að kjördeildirnar verði að öllu leyti að vera utan takmarka kaupstaða eða kauptúna, til þess að þar megi vera 2 kjördagar. Ég get t. d. nefnt Stokkseyri. Þar er stórt kauptún, en þar er alltaf ein kjördeild. Því tel ég þetta réttmætt og sanngjarnt, og fel ég hv. d. till. mínar til þeirrar afgreiðslu, er henni þykir bezt fara á.