07.09.1942
Efri deild: 24. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Gísli Jónsson:

Herra forsetl. — Mér finnst eðlilegt, að ég sem nýliði hér á Alþ. geri grein fyrir afstöðu minni í þessu máli með nokkrum orðum.

Frá því fyrst, að ég fór að hugsa um þessi mál, hafði ég aðeins eina skoðun á þeim, sem sé, að því fyrr sem Ísland yrði frjálst, því betra. Margra ára kynni mín af erlendum þjóðum hafa æ betur og betur sannfært mig um það, að aðeins með stórhug getur þjóðin unnið stærstu sigrana, t. d. með stofnun Eimskipafélags Íslands og skipun sendiherra erlendis, hvort tveggja móti vilja erlends valds, eða hvert það spor á frelsisbrautinni, sem hátt stefnir.

Þegar ég tók til athugunar hin nýju viðhorf í þessu máli, þá voru það tvær hliðar, sem við mér blöstu. Annars vegar var sú hliðin, sem vissi að íhlutun erlends valds. Ég leit á hana aðeins sem hjalla, að vísu örðugan, en taldi þó enga goðgá, þótt Íslendingar tækju upp baráttuna gegn þessu valdi, og engan glæp, þótt þjóðin yrði að leggja eitthvað í sölurnar fyrir frelsi sitt, eins og aðrar þjóðir. Ég gat ekki sannfærzt um, að það hefði mikla hættu í för með sér að stríða gegn þessu valdi, því að með viðurkenningu og móttökum sendiherra okkar bæði í Brettandi og Bandaríkjunum sýndu þær þjóðir innræti sitt til okkar, og ég trúði því ekki né trúi enn, að þær gangi á bak orða sinna. Þetta var önnur hliðin. Mér fannst aðalatriðið vera það, að þing og þjóð stæðu saman sem einn maður, en það kom ekki til samheldni þjóðarinnar, því að samheldni Alþ. brast. Hin hliðin var sem sagt deilurnar innan Alþ. Íslendinga, og af hverju voru þær deilur sprottnar? Af því að einn flokkurinn, stærsti flokkur þingsins, vildi ekki vera með sökum gremju, er hann þurfti að lúta vilja þings og þjóðar og afsala sér gömlum sérréttindum, sem nýi tíminn viðurkenndi ekki. Fyrir þá sök brustu stoðirnar, og ræður hv. framsóknarþm. hér sýna, að þetta er rétt. Ég vil spyrja þessa hv. þm., hvort þeir líti ekki á sjálfstæðismálið sem heilagt mál. (HermJ: Á þessi hv. þm. við það, að þetta frv. sé heilagt?) Ég á við, að sjálfstæðismálið sé heilagt, og hv. þm. Str. hefur áreiðanlega ekki umboð kjósenda sinna til þess að traðka á þessu máli. Út á við var þjóðinni nauðsynlegt, að Alþ. stæði saman sem eitt, en þegar ég sá, að byrjað var að grafa skotgrafir, þá var það hið eina, sem fékk mig til að hvika frá marki, ekki af því að ég hefði misst trúna, heldur vegna þess, að þegar svo var komið málum sem raun bar vitni um, þá áleit ég betra að fara kelduna en krókinn. Ég greiði þessu frv. atkv., þó að ég sjái, að með því verði eigi náð marki eins fljótt og von var um, ef stærsti flokkur þingsins hefði ekki brugðizt á síðustu stundu.

Ég hef ekki margt fleira að segja um þetta, en ég vil benda á, að í nál. minni hl. á þskj. 213 virðist mér ekki vera neitt, sem getur bent til þess, að hann vilji fara skynsamlega leið. Þar eru allar till. neikvæðar. Það er það sama og kemur fram í ræðum framsóknarmanna hér, niðurrif og svik við þjóðina, er mest reið á.

En nú vildi ég spyrja hv. þm. Str. og hv. þm. S. Þ., hvort þeir vildu nú kasta öllum deilumálum til hliðar og taka þátt í að mynda allra flokka stj. og hrinda þessu máli sem fljótast í framkvæmd. En ég veit svo sem, hvaða svar ég fæ að þeir þurfi ekki að hugsa um málin, úr því að þeir fara ekki með stj. En ég vona, að þjóðin beri gæfu til að standa saman um þetta mál, stærsta mál hennar. Það er ekki sæmandi að deila um þetta mál allra mála.