07.09.1942
Efri deild: 24. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Bernharð Stefánsson:

Hv. þm. S.-Þ. hefur tekið af mér mesta ómakið að svara hv. þm. Barð. En út af ummælum þess hv. þm. áðan vildi ég skýra honum frá, að ég hef yfirleitt ekki orðið var við þessi kostaboð, sem hann taldi að Framsfl. hefði verið boðin á þessu þingi.

Ég hef í sumar lítið orðið var við annað í afstöðu annarra flokka til Framsfl. en svívirðingar og ósannar ásakanir. T. d. er hamrað á því í blöðum flokkanna dag eftir dag og eins hér á þingi, að Framsfl. tefði þingið, einmitt þegar framsóknarmenn sögðu varla orð á þinginu.

Hv. þm. varð að játa, að hv. þm. Borgf. hefði sömu afstöðu til þessa máls og Framsfl., en sagði, að það væru allt aðrar ástæður, sem lægju til þeirrar afstöðu en hjá okkur. Nú veit hv. þm. vel, að hann fer með bein ósannindi, þegar hann talar um Framsfl. í heild, því að það er yfirlýst á þingi, a. m. k. af einum framsóknarmanni, að afstaða hans markast alveg af sömu ástæðum og hv. þm. Borgf. Ýmsir framsóknarmenn hafa ekkert opinberlega sagt um málið, og því veit hann ekkert, hvað það er, sem markar afstöðu þeirra, en eftir því, sem fram hefur komið, er það líkt því, sem hv. þm. Borgf. lýsti yfir, það, sem lýst hefur verið yfir af framsóknarmönnum, að þeir teldu þetta mál lítils virði og ekkert spor stigið í sjálfstæðismálinu. Svipuð ummæli hafði hv. þm. Borgf. í Nd., þegar málið var þar til umr.