07.09.1942
Efri deild: 25. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Ég skil ekki, í hverju sá ódrengskapur á að vera fólginn, þó að birt sé þetta nál., og hitt get ég enn síður skilið, hvernig nokkur á að geta haft mikið við því að segja, að stjskrn. skili áliti svo sem aðrar n. (JJ: Þó að logið sé upp á þá „specielt“. — HermJ: Þið eigið eftir að iðrast eftir þetta. — Forseti: Ekki að munnhöggvast í hv. d.). En framkomu hans mun verða minnzt sem hinnar ódrengilegustu á Alþ. fyrir það, er hann hefur gert sig sekan um.

Ég veit ekki, hvort hv. 1. þm. Eyf. hefur gert sér ljósa grein fyrir afleiðingum af dæmum þeim, er hann tók úr sögu annarra ríkja máli sínu til stuðnings. Hann vitnaði í Þýzkaland 1918 og Frakkland 1870, þegar Napóleon var vikið frá völdum. (BSt: Hann sagði af sér.) Hann var píndur til þess að segja af sér, eins og hv. þm. Str. (HermJ: Gott var að fá það fram. — Forseti: Ekki samtal í hv. d.). Kemur það líka heim við það, sem hv. þm. S.-Þ. sagði hér á dögunum, að Framsfl. hefði liðið vel í ráðherrastólunum. Af því, sem gerðist í þessum tveimur löndum 1870 og 1918, leiddi það, að allt hið gamla stjórnskipulag var látið fara og síðan hvatt til þjóðfundar eða stjórnlagaþings á algerlega nýjum grundvelli. Er það þá það, sem vakir fyrir hv. þm. að svipta alþm. umboði sínu og fá það í staðinn, er byggist á öðrum réttargrundvelli en þeim, er íslenzka ríkið hefur staðið á? Þetta er afleiðingin, sem hver hlýtur að sjá, sem ekki ber höfðinu við steininn.

Hv. 1. þm. Eyf. var að segja það, að ég hefði verið að halda fram einhverri nýrri kenningu, að Alþ. ætti að ráða þessu málum sjálft. Með leyfi hæstv. forseta langar mig í því sambandi að lesa upp úr grein, er ég hef skrifað í Andvara um þessi mál:

„Hún (þ. e. a. s. ályktun Alþ. 1940) afnemur ekki konungdæmi á Íslandi og sviptir konung ekki tign sinni. Ísland er eftir sem áður konungsríki, og hinn rétti konungur vor tekur aftur við völdum, þegar er Alþ. telur skilyrði vera fyrir höndum til þess, að svo megi verða.“

Ég hef alltaf litið svo á, að Alþ. hefði þetta í hendi sinni, en það breytir aftur ekki því, að, er taka á hina endanlegu ákvörðun, verður að setja um það stjórnskipunarl. Þetta er regla, sem bæði hv. þm. Str. og allir aðrir hingað til hafa viðurkennt, að rétt væri. Í sömu grein minni í Andvara segi ég :

„Ef þau atvik yrðu fyrir hendi, sem tvímælalaust sýndu, að Íslendingar væru ekki framar bundnir af sambandslögunum, mundi eðlilegast, að Alþingi og handhafi konungsvaldsins gæfu yfirlýsingu þess efnis, og síðan yrði þjóðaratkvgr. henni til staðfestingar látin fara fram, með hliðsjón af 2. mgr. 75. gr. stjskr. Jafnframt þessu þyrfti Alþ. að samþykkja nýja stjskr., þingrof að fara fram, nýjar kosningar, hið nýkosna Alþ. að samþykkja stjskrfrv. fyrra þingsins og handhafi konungsvalds að staðfesta það.“

Hér er sem sagt nákvæmlega það sama tekið fram og ætlað er að gera með því, er felst í frv. þessu. Það er hv. 1. þm. Eyf., sem með óskiljanlegum hætti þykist hafa fundið einhverja nýja kenningu. En það breytir ekki þeirri staðreynd, að nýrri stjskr. verður ekki komið á, fyrr en ný stjórnskipunarl. hafa verið sett.