20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Skúli Guðmundsson:

Frsm. n., hv. þm. Ísaf., benti á, að enda þótt reikningar verksmiðjanna sýndu ekki tekjuafgang, þá hefðu þær þó aukið sjóði sína, og væri þess vegna um gróða að ræða. Ég get ekki fallizt á að telja það gróða, þótt afborganir séu greiddar, og tel verksmiðjurnar reknar með tapi, ef þær geta ekki greitt í sjóði það, sem lögákveðið er. Þeim útgjöldum, sem hv. þm. Ísaf. drap á, verður alltaf að gera ráð fyrir. Hitt er rétt, að eignir verksmiðjanna hafa aukizt á síðar í árum. Hv. þm. Ísaf. telur vel séð fyrir hag verksmiðjanna með þessum sjóðgjöldum og afborgunum. Mér fyndist skynsamlegra að greiða meiri afborganir af stofnkostnaði nú, svo að það verði léttara fyrir viðskiptamennina, þegar illa árar. Ég tel auðveldara fyrir síldareigendur að greiða meira af hverju máli, þegar það er í 18 krónum, heldur en þegar það er aðeins í 3 krónum, eins og jafnvel hefur komið fyrir.

Þó að þetta frv. verði samþ. nú, þá verður án efa bið á, að allar þær verksmiðjur verði reistar, sem frv. gerir ráð fyrir, bæði sökum skorts á vinnuafli, byggingarefni o. fl. En þótt svo verði, þá er þó rétt að ákveða með l. nú þessar verksmiðjubyggingar í framtíðinni. Það er sambærilegt l. um vega- og brúagerð, sem sett eru, þó að það taki oft langan tíma að framkvæma þau lög.