24.08.1942
Neðri deild: 13. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hef leyft mér að bera fram brtt. við 1. gr. frv. um, að heimilt verði að reisa síldarverksmiðju á Hólmavík að stærð 5000 mál. Þó að síldarverksmiðja verði reist á Skagaströnd, getur auðveldlega svo farið, að hún reynist ófullnægjandi, en eins og kunnugt er, þá eru oft beztu síldarmiðin út af Húnaflóa og í grennd við hann, og er þar oft mikill afli. Getur því hæglega svo farið, að Skagaströnd geti ekki tekið á móti öllum þeim afla, sem þar bærist að landi. Nú hagar svo til á Hólmavík, að innsigling er þar mjög góð og sjálfgerð höfn.

Skipalægi er þar á staðnum og auðvelt með afgreiðslu, því að þar er nýleg stórskipabryggja, og er aðstaða þar því öll góð til athafna við þennan veiðiskap. Ég tel því vel til fallið, fyrst nú er verið að gera breyt. á l. um þessi efni, að heimilað verði að reisa síldarverksmiðju á þessum stað. Það getur á engan hátt skaðað, þó að þessi heimild verði veitt, því að auðvitað verður ekki ráðizt þarna í framkvæmdir, fyrr en tækifæri er til og hentugleikar leyfa, en það gæti orðið til fyrirgreiðslu um þessa framkvæmd, að heimildin væri í l. Ég vil því mega vænta þess, að d. geti fallizt á þessa brtt.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um till.