26.08.1942
Efri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

51. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Nokkru eftir að þetta Alþ. hófst, kom stjórn Síldarverksmiðja ríkisins á fund minn og fór fram á það, að flutt yrði nú á þinginu frv. í svipaða átt eins og það, sem hér liggur fyrir. Það var þó þannig orðað hjá stjórn síldarverksmiðjanna, að það var óskað eftir því, að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins heimilaðist að láta reisa þær síldarverksmiðjur, sem þar var um talað, og að um leið væri veitt heimild um fjárframlag til þessara framkvæmda upp á 25 millj. kr., sem þó var rennt blint í sjóinn með, hvort væri hæfilegt framlag til þess að reisa þessar verksmiðjur fyrir, en það var ætlazt til þess, að það mundi hrökkva til þess. Till. stjórnar síldarverksmiðja ríkisins voru þær, að reistar yrðu nýjar síldarverksmiðjur svo fljótt sem ástæður leyfa,

1. Á Siglufirði 10 þús. mála verksmiðja:

2. Á Raufarhöfn 5 þús. mála verksmiðja.

3. Á Húsavík 10 þús. mála verksmiðja.

4. Á Skagaströnd 5 þús. mála verksmiðja.

Ég var fyrir mitt leyti alveg samþykkur því, að Síldarverksmiðjur ríkisins — svo framarlega sem annað eða önnur fyrirtæki ekki bættu úr þeirri þörf, sem er á auknum síldarverksmiðjubyggingum — bættu úr þeim mikla skorti, sem reynzt hefur vera á vinnslumagni Síldarverksmiðja ríkisins. Ég áleit þetta rétt og fékk samþykki stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins um það, að til væri tekið, að á Sauðárkróki yrði reist 5 þús. mála verksmiðja, og á Húsavík 5 þús. mála verksmiðja í stað 10 þús. Enda var það, held ég, samkomulag milli okkar, að það væri í raun og veru svo, þó að slegið væri upp á ákveðnu vinnslumagni verksmiðjanna á hverjum stað, þá hlyti það að vera hlutverk hæstv. Alþ. á hverjum tíma að ákveða til fullnustu um það atriði, þegar til framkvæmda skyldi koma um að reisa síldarverksmiðjurnar. Því að þetta, að reisa síldarverksmiðjur, er mál, sem er nokkuð úti í framtíðinni, eins og nú horfir við, sérstaklega með tilliti til þess, að á sumum þessum stöðum, sem nefndir eru í frv., eru ekki enn fullnægjandi hafnarskilyrði til þess að ráðast í þessar framkvæmdir, svo sem á Hólmavík og Skagaströnd. Mér þótti einnig þessi heimild um 25 millj. kr. lántöku óþarflega stór, þó að ég tæki hana inn í frv. En ég vildi taka nokkra heimild um lántöku inn í lögin í byrjun, en að ríkisstj. skyldi svo á hverjum tíma leita samþykkis hæstv. Alþ. fyrir frekari lántökum í þessu skyni, þegar til framkvæmda ætti að koma. Þar sem hér var um verk að ræða, sem næði sýnilega langt út í framtíðina, fannst mér rétt, að lánsheimildin skyldi vera orðuð þannig; að ríkisstj. heimilaðist að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs, að upphæð allt að 25 millj. kr., eða jafngildi þeirrar upphæðar í erlendri mynt, til greiðslu kostnaðar af þessum framkvæmdum. Þessum l. má að vissu leyti líkja við brúal., að það er enginn, sem segir okkur, hvort allt verður í peningamálum okkar innanlands eins og nú, þegar kemur til þess að byggja þessar síldarverksmiðjur. Og um langt skeið, þangað til nú fyrir skemmstu, hefur aldrei verið rætt um að taka lán annars staðar en í útlöndum til slíkra framkvæmda sem þessara.

Sjútvn. Nd. flutti svo þetta mál inn í þingið, alveg eins og ég hafði búið það í hendur hennar, en gerði svo, með mínu fulla samþykki, þær tvær breyt. af sinni hálfu á frv. — auk þess, sem hún breytti ofurlítið röð á staðanöfnum í frv., sem út af fyrir sig ekkert gildi hefur — að hún bætti við því ákvæði í frv., að ríkið léti enn fremur reisa verksmiðju til herzlu síldarlýsis, þegar rannsóknir sýndu, að það væri tímabært. Og enn fremur, að lánsheimildin væri lækkuð niður í 10 millj. kr. — samkv. minni skoðun. Þar sem miðað er við byrjunarframkvæmdir, þá var ekki nauðsyn á að setja það ákvæði inn, að taka mætti lán í erlendum gjaldeyri, þó að það væri skaðlaust, að það stæði. Þessar brtt. báðar voru svo samþ. í hv. Nd.

Ég hef farið ofurlítið inn á þetta mál m. a. af því, að þetta mál hefur verið nokkuð einkennilega túlkað af einu málgagni hér. Þar stóð í grein um þessi mál, fyrst :

„Stefna Framsóknarflokksins: Nýjar síldarverksmiðjur og 1ýsisherzlustöð á Norðurlandi. Ríkið byggi síldarbræðslustöðvar á Sauðárkróki, Húsavík, Skagaströnd og Hólmavík og auki við verksmiðjur sínar á Raufarhöfn og Siglufirði. Ríkið reisi, undir eins og tímabært verður, verksmiðju til herzlu síldarlýsis.“

En svo kemur fram síðast eins og skollinn úr sauðarleggnum, að ríkisstj. fari fram á að mega fá lán fyrir þessu í erlendum gjaldeyri, og svo er spurt : Hvar hafa þeir menn dvalizt undanfarið, sem gera slíkar tillögur á sama tíma og Íslendingar eiga nú 230 millj. króna erlendis í erlendum gjaldeyri?

Þetta hef ég tekið fram til þess að skýra, hvað fyrir stjórninni vakti, því að þetta er einkennilegur málflutningur hjá Framsfl.

En það er ekki búin öll sagan enn, því að það er eins og Framsfl. hafi ekki viljað lifa eftir þessari „stefnu Framsfl.“, því að þeir báru fram brtt., sem voru samþ. Í fyrsta lagi báru 2 hv. framsóknarmenn fram brtt. um að hækka ákvæðið um vinnslumagn síldarverksmiðjunnar á Húsavík úr 5 þús. málum upp í 9 þús. mál, sem var samþ. Hafði ég ekkert á móti því. Það getur hins vegar vel verið, að Alþ. vilji á þeim tíma, þegar sú verksmiðja verður reist, hækka þetta eða lækka. Svo vildu þeir framsóknarmenn bæta við einum stað enn í þessa upptalningu staða, þar sem reisa skyldi síldarverksmiðjur, nefnilega Hólmavík. Þá var frv. að vísu ekki lengur um síldarverksmiðjur á Norðurlandi aðeins, og þá varð að breyta nafninu á frv. til þess að gera sig ekki sekan um stórt landfræðilegt gat. Frv. er að þessu leyti komið hér fram dálítið öðruvísi heldur en það var upphaflega, þannig að n., í fullu samráði við mig, bar fram brtt., sem samdar voru af henni. Síðan voru þessar tvær brtt. samþykktar, sem voru að nokkru leyti óþarfar, en þó ekki þannig, að þær spilltu málinu, því að hér er um að ræða áætlun alllangt út í framtíðina, og er þá að vísu fullkomlega skaðlaust, þó að bætt sé inn í frv. nokkrum viðaukum um síldarverksmiðjur, svo framarlega sem ekki er farið út í svo miklar öfgar, að málið verði fyrir það hlægilegt. Ef hér væru komnar fram till. frá hv. þm. um verksmiðjur, sem samtals skyldu geta brætt á sólarhring t. d. mikið á annað hundrað þús. mál, þá væri náttúrlega málið orðið hlægilegt. En hér er um að ræða áætlun frá stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, sem ég tel, að Alþ. nú ætti að ganga frá, enda þótt um byrjunarframkvæmdir verði ekki strax að ræða vegna erfiðleika um kaup og flutning á efni til þeirra. Það er mikil þörf á því, að hægt sé að koma þessari aukningu á hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, enda þótt einum einstaklingi hafi verið veitt leyfi til að reisa 5 þús. mála síldarverksmiðju á Siglufirði og þó að Siglufjarðarbær fari fram á það nú eins og fyrr að fá leyfi til að stækka sína verksmiðju upp í það, að hún hafi 5 þús. mála afköst á sólarhring. Það er æskilegt, að afköst Síldarverksmiðja ríkisins verði meiri á Siglufirði og Raufarhöfn, þar sem langmest síldarmagn berst á land. Og það þyrfti þá ekki að standa á öðru en erfiðleikum á að ná í efni, að aukning á þeim verksmiðjum yrði framkvæmd, ef þetta frv. væri samþ. Hvert mikið síldarár, sem kemur, þýðir mikið óbeint tap, ef ekki er hægt að nota alla þá síld, sem veiðist.

Ég vil vonast til þess, að hv. þd. veiti þessu máli svo greiða afgreiðslu, að það geti orðið að l. á þessu þingi. Álít ég þó sjálfsagt, að frv. verði athugað í sjútvn., sem ég vil biðja að afgr. málið svo fljótt sem hún getur komið við, svo að málið þurfi ekki að stranda á því út af fyrir sig, að n. afgreiði það ekki eða afgreiði það seint.

Enda þótt hv. þm. hér í hv. d. virðist þurfa að gera breyt. á frv., eins og það kom frá Nd., þá vildi ég mælast til þess, að þeir gerðu það ekki, því að það gæti orðið til þess, að málið dagaði uppi á þessu þingi.

Ég legg svo til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og sjútvn.