24.08.1942
Efri deild: 13. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (625)

46. mál, bifreiðalög

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Samgmn. hefur haft þetta mál til athugunar, og eins og nál. ber með sér, þá hefur n. fengið upplýsingar frá dómsmrn. um það, að þessi breyt., sem gerð er með brbl. á l. nr. 23 16. júní 1941, sé fram komin vegna hörguls á bifreiðarstjórum, einkum til mjólkurflutninga. Nú lítur n. svo á, að þessi vöntun á bifreiðarstjórum muni hverfa, með því að sífellt koma fleiri og fleiri beiðnir um úthlutun bifreiða til einstakra manna, sem sýnir, að til séu margir menn í landinu, sem geti stjórnað bifreiðum og tekið þær til notkunar. Það er ekki hægt að uppfylla þessar beiðnir, og þess vegna verður eðlilega að álykta, að svo margir bifreiðarstjórar verði til í náinni framtíð, að þess sé ekki þörf að láta þessi brbl. gilda lengur. Með þessum forsendum hefur n. .lagt til, að við 4. gr. frv. bætist : „og gilda til ársloka 1942“. Þá hefur n. einnig lagt til, að við greinina bætist: „Þó skulu þeir, sem fengið hafa ökuleyfi samkvæmt þessum l., halda þeim, þótt þeir hafi þá ekki náð aldrei þeim, sem áskilinn er í 20. og 21. gr. bifreiðalaganna.“

Það er þannig lagt til, að þeir menn, sem hafa fengið ökuskírteini samkv. þessum brbl., séu ekki sviptir þeim, meðan þau gilda.

Um hitt atriðið, það að láta undan beiðnum manna um það, að unglingar, 17 ára, fái ökuleyfi, er n. sammála, að það skuli ekki gert. Hún lítur svo á, að það beri ekki undir neinum kringumstæðum að minnka þær kröfur, sem gerðar hafa verið til þess, að menn fái ökuleyfi sem bifreiðarstjórar, hvorki um nám né aldur, og sérstaklega með tilliti til þess óvenjulega ástands, sem nú er, hvað snertir umferð um vegi landsins vegna hernámsins. Vill samgmn. sérstaklega benda á, að það sé ekki rétt af hæstv. Alþ. að taka á sig ábyrgð þá að leyfa 17 ára vanþroskuðum unglingum að fara með bifreiðar eftir vegum landsins. Flestar þessar bifreiðar eru vátryggðar fyrir 30000 kr. og upp undir 20000 kr. kaskótryggingu, þannig að hér er um verðmæti að ræða, sem nema 50000 kr., sem eru í höndum unglinga, sem ekki eru eldri en 17 ára gamlir. Það er skoðun n., að að þessu ráði beri ekki að hverfa.

Að öðru leyti skýrir nál. sig sjálft.