26.08.1942
Efri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (689)

65. mál, notkun byggingarefnis

Gísli Jónsson:

Mér virðist hv. þd., eftir þeim rökum, sem fram hafa verið tekin hér, vera sammála um það, að nauðsyn sé á því að tryggja nokkru betur rétt dreifbýlisins heldur en gert er með þessu frv. Er og þess að vænta, að þeir menn hér í hv. d., sem á því hefðu áhuga, kæmu sér saman um brtt., sem tryggði þetta að fullu, og bæru hana þá fram við 3. umr. málsins. Ég held, að óhætt sé að ganga út frá því, að ef þetta verður ekki gert, muni löggjöf sú, sem frv. stefnir að, verða til ákaflega mikils óhagnaðar fyrir dreifbýlið, ekki einasta hvað viðvíkur verzlun með timbur,. heldur og einnig með ýmsar aðrar vörur. Nú er vitað mál, að þetta mætti laga með úthlutun innflutningsleyfa. En nú er það svo, að einmitt þessar stóru verzlanir, sem verzla með timbur, draga að sér innflutninginn og eiga þar betri aðstöðu heldur en smáverzlanir í dreifbýlinu. Þess vegna held ég, að ekki sé hægt að tryggja rétt dreifbýlisins eingöngu með innflutningsleyfum í þessu efni. Og þess vegna held ég, að það verði með ákvæðum laga eða ákvæðum reglugerðar að tryggja þeim rétt í þessu tilliti, sem í dreifbýlinu búa, þannig að þar verði ákveðið, hvernig þessu efni skuli skipta milli landshluta. Ég er því kunnugur, að einmitt miklum hluta af því byggingarefni, sem flutt hefur verið til Rvíkur, hefur verið lofað út á land. Og ef þau loforð á að svíkja fyrir aðgerðir hæstvirts Alþ. með þessum l., teldi ég ákaflega illa að farið í þessu máli. Þess vegna vænti ég þess, að svo vel verði gengið frá þessu máli við 3. umr., að allir partar geti verið öruggir um, að engum verði gerður óréttur með þessum l.