19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (730)

58. mál, skipaafgreiðsla Eimskipafélags Íslands h/f

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Þetta frv. er flutt af okkur þm. Sósíalistafl. og er þess eðlis, að það æskir þess, að afstaða Alþ. komi fram nú þegar. Ég býst við, að það sé öllum hv. þm. kunnugt, að tilefnið til þessa er, að öll vinna við vöruskip Eimskipafél. hefur fallið niður og hafði stj. ameríska setuliðsins tilkynnt það í gær, að hún mundi láta herinn annast uppskipun þessa, ef ekki yrði neitt gert í þessu máli. Ég býst við, að við munum allir gera okkur það ljóst, hvaða afleiðingar það mundi hafa, ef við sýndum í reyndinni, að við værum ekki færir um að halda uppi stj. í landinu. Það er nauðsynlegt, að það komi fram strax, að við séum færir um að ráða fram úr vandamálum okkar, því að þessi vandamál eru þess eðlis, að það verður að finna leið til þess að ráða fram úr þeim þegar í stað.

Þetta frv. miðar þess vegna beinlínis að því, að Alþ. leysi vandamál þessi og tryggi gegn þeirri hættu, sem öllum hv. þm. er ljóst, að vofir yfir þjóðinni, ef þessi vandi er látinn halda áfram. Við förum fram á það í þessu frv., að ríkisstjórnin fái heimild til þess að taka að sér skipaafgreiðslu hjá Eimskipafélagi Íslands. Viljum við þar með sjá um, að skipin verði afgreidd, sem Eimskipafélag Íslands á sjálft, og þau, sem það hefur á leigu, til þess að tryggja, að siglingar stöðvist ekki, vegna þess, að skipin séu ekki afgreidd, sem af geta hlotizt alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðina, og það verði gert á þann hátt, eins og grg. ber með sér, að gengið verði að þeim kröfum, sem verkamenn gera, og þeim verði greitt það kaup, sem þeir fara fram á. Það er nauðsynlegt, að menn geri sér það ljóst, hvað mælir með því, að gengið verði að þessum kröfum. Ég þykist vita, að sumir hv. þm. álíti, að hægt sé að láta verkamenn afstýra þessu sjálfa. En verkamenn eru nú búnir að bíða í meira en hálfan mánuð eftir því, að gengið yrði að kröfum þeirra. Þeir gáfu fyrst þó nokkurn fyrirvara í næst síðustu viku, féllust síðan á að bíða nokkuð; þ. e. a. s. í fyrri viku lögðu þeir niður vinnu, en tóku hana upp aftur vegna þess, að vinnuveitendafélagið lofaði þeim því að gera samninga við Dagsbrún ekki síðar en á mánudag. Síðan hafnaði vinnuveitendafélagið þeim till., sem fram höfðu komið. Verkamenn eru því búnir að bíða svo lengi, að það er engin afsökun fyrir því, að beðið sé lengur með að semja um kaup verkamanna.

Kröfur verkamanna eru þær, að kaupið verði hækkað upp í 2.00 kr. á klst. og 2.25 kr. í skipavinnu og hærra við sementsvinnu. Þetta þýðir 16.00 kr. grunnkaup á dag í almennri vinnu, eða 400.00 kr. grunnkaup á mánuði. Og ég býst við, að enginn sé sá maður hér á þingi, sem vilji mótmæla því, að verkamenn eigi rétt á því að hafa 400.00 kr. grunnkaup á mánuði til þess að framfleyta fjölskyldum sínum. E. t. v. þekkir einhver hv. þm. sjálfur, hvernig það er að lifa af 400.00 kr. grunnkaupi á mánuði hér í Reykjavík. Og þeir hv. þm., sem ætla að lifa hér í Rvík á sínu þingfararkaupi einu saman, sem ég hygg, að sé eitthvað líkt því, sem þarna er farið fram á af verkamönnum, þeir vita, hvernig er að framfleyta fjölskyldu af því. 400.00 kr. grunnkaup á mán. nálgast það, að hægt sé að veita sér svona nokkurn veginn sómasamlegt líf með því. Hitt er viðurkennt hjá menningarþjóðum mörgum, að vinnudagurinn eigi að vera 8 klst. og sá vinnutími eigi að nægja til þess að framfleyta fjölskyldu. Það, að verkamenn hér hafa ekki knúð fram 8 stunda vinnudag, stafar af því, hve hörmulegt ástandið hefur verið í atvinnumálunum hér á landi síðustu áratugina. Atvinnurekendur hafa getað haldið niðri kaupi verkamanna og þeim kjarabótum, sem knúðar hafa verið fram erlendis. Ég býst við, að hv. þm. neiti því ekki, að þetta sé sanngirniskrafa. Og ég hygg, að enginn dirfist að halda því fram, að atvinnuvegirnir beri ekki þetta kaup. Þegar svo ofan á þetta bætist, að öll vandamál þjóðarinnar hafa fram að þessu verið leyst á þann hátt, að hagsmunum verkamanna hefur verið fórnað með því, að hæstv. Alþ. sjálft hefur gripið inn í og gefið út l. ár eftir ár, sem hafa bannað verkamönnum að hækka sitt kaup, og það á sama tíma, sem stríðsgróðinn hefur flætt inn í landið í milljónum króna, — þegar fortíðin er þannig, þá virðist mér ekki ná nokkurri átt að halda því fram nú, að verkamenn eigi nú enn einu sinni að fórna, heldur álít ég, að það eigi, eins og málin standa nú, að ganga orðalaust að þeirra kröfum. Ég álít það að öllu leyti sanngirnis- og réttlætismál, sem verkamenn fara fraru á með kröfum sínum.

En sanngirni og réttlæti eru e. t. v. ekki þau rök, sem alveg eru nægilega sterk til þess að ráða gerðum hæstv. Alþ. Þess vegna eru það önnur rök, sem ég vil leyfa mér að flytja hér fram og ég býst við, að hafi meiri áhrif. Þau rök eru, að verkamenn hafa nú vald til þess að geta fylgt þessum kröfum sínum eftir. Það er ekki hægt fyrir neitt íslenzkt vald að beygja verkalýðssamtökin í þessari viðureign. Og það eru staðreyndir, sem ég vil a. m. k. vonast til, að raunhæfir menn horfist í augu við. Eins og nú standa sakir, er ekki hægt að leysa þessa deilu gegn andstöðu verkamanna. Verkamannastéttin í landinu er sem stendur of sterk til þess, að það sé hægt að knýja hana til þess að fórna nú enn einu sinni. Hún veit sjálf, að hún hefur fyrir réttum málstað að berjast. Og hún hefur, sem hún hefur ekki alltaf haft áður, nægilegan kraft til þess að knýja fram málstað sinn. Þá er spurningin um það, hvort hv. þm., sem stjórna málum Íslendinga, skilja þessar staðreyndir, meta þær og breyta eftir þeim, eða hvort þeir reyna að berja höfðinu við steininn með þeim afleiðingum, sem okkur öllum hljóta að vera ljósar. Það er auðvelt að leysa þessa deilu. Og það er aðeins hægt að leysa hana á kostnað atvinnurekenda. Og það þarf ekki meira til heldur en Alþ. láti vilja sinn í ljós þannig, að það muni samþ. frv. sem þetta, til þess að vinnuveitendafélagið og Eimskipafélag Íslands gangi að kröfum verkamanna. Ég þykist þess fullviss, ef Alþ. lætur þann vilja sinn í ljós, að það muni leysa þessa deilu, þá muni vinnuveitendur þeir, sem hlut eiga að máli, ekki bíða eftir samþ. frv., heldur leysa deiluna strax. Hins vegar er ekki eftir neinu að bíða í sambandi við þetta mál. Ameríska herstjórnin tilkynnti í gærkvöldi, að hún mundi taka uppskipun þessa í sínar hendur, ef ekki yrði hafin vinna, og hún mun taka uppskipunina í sínar hendur, verði ekki hafin vinna við höfnina mjög bráðlega. Hún hefur ekki gert það enn, en má búast við, að hún geri það innan skamms. Og það reynir nú á það, hvort hægt er að bregða fljótt við eða ekki. Það er oft sagt, að aðferð þingræðisins drepi það, þingið sé ófært um að taka skjótar og réttar ákvarðanir. Ég held, að afstaðan gagnvart þessari deilu verði prófsteinn á okkar þing um það, hvort það getur tekið skjótar og réttar ákvarðanir um mál, sem þjóðinni getur stafað stór hætta af.

Ég þykist vita, að þær mótbárur muni koma fram, að það sé ekki rétt að beygja atvinnurekendur raunverulega til undanláts í þessu efni, eins og mundi verða afleiðingin af samþykkt þessa frv., og með því væri verið að skerða samtök atvinnurekenda og gera þeim erfiðara fyrir í framtíðinni, hvað snertir það að beygja verkamenn undir vilja sinn. Ég verð að segja það, að á tímum eins og þessum verður Alþ. Íslendinga að þora að horfast í augu við það að beygja atvinnurekendur undir vald sitt. Alþ. Íslendinga hefur ár eftir ár á síðustu árum gengið þannig á móti samtökum verkalýðsstéttarinnar og svipt verkalýðsfélögin rétti til þess að ákveða kaupgjald sitt. Ég vil spyrja: Þorir þetta sama þing ekki að beygja atvinnurekendur einu sinni, þannig að þeir fái að vita, að Alþ. sé ósmeykt við að leysa vandamál á kostnað atvinnurekenda? Það kemur til með að reyna á það, hvort einhverjir hv. þm. eða þingflokkar eru svo ánetjaðir ýmsum atvinnurekendum, að þeir ekki vilja ganga inn á það, sem nauðsynlegt er fyrir þjóðfélagsheildina. Ég held þess vegna, að þetta frv. og framkvæmd ríkisstjórnarinnar á því, ef það verður að l., mundi í fyrsta lagi leysa þessa deilu strax á réttlátan hátt og áhrifaríkan. Í öðru lagi held ég, að það, að Alþ. láti vilja sinn í ljós til þess að samþ. svona frv., eins og atvinnurekendur standa þar harðvítuglega á móti, verði til þess að sýna, að til er vilji hjá Alþ. til þess að leysa málin án þess að taka tillit til vilja atvinnurekendastéttarinnar og fá hana til þess að beygja sig.

Það er ekki aðeins óvitlegt að ætla að neita verkamönnum um að ganga að þeim kröfum, sem þeir halda fram. Það væri heimska að berja þannig höfðinu við steininn og ætla að standa á þann hátt á móti sterkasta valdinu, sem nú er til í okkar þjóðfélagi, því valdi, sem við sem raunhæfir stjórnmálamenn, hvaða afstöðu sem við höfum til mála annars, hljótum fyrst og fremst að „respektera“. Það hefur sýnt sig á meðan atvinnurekendastéttin hafði þá aðstöðu vegna peninga sinna og yfirráða yfir verkamönnum, þá beygði Alþ. sig fyrir þeirra sérhagsmunum. Það sýna skattfrelsisl. og þrælal. frá 1939 og síðar. Það, að þau l. voru sett, var e. t. v. ekki aðeins af því, að viðkomandi þm. væru beinlínis undirgefnir atvinnurekendum þannig, heldur var það e. t. v. líka hitt, að beygja sig fyrir því valdi, sem sterkast var. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa áttað sig á því, hvaða breyt. hafa orðið í okkar þjóðfélagi upp á síðkastið í sambandi við þetta. En ég held, að það sé nauðsynlegt, að hv. þm. geri sér það ljóst, og það eru síðustu forvöð að gera það nú þegar. Því að svo framarlega sem við leysum ekki þessa deilu, hlýtur hún að verða leyst af utan að komandi valdi, sem menn óska ekki eftir, að komi til sögunnar. Það er vitanlegt, að sáttanefnd hefur verið skipuð til þess að athuga möguleika til sátta. Hún sat á rökstólum í allan gærdag. Enginn árangur hefur orðið af því. Ég fór fram á það í gær, að þetta mál væri tekið með afbrigðum inn á dagskrána. Hæstv. ríkissj. vildi ekki ganga inn á það þá.

Ég álít, að það væri nauðsynlegt fyrir málið, að strax við fyrstu atkvgr. kæmi það fram, hvaða afstöðu þingflokkarnir hafa til þess. Ég vildi mega æskja þess, að þeir, sem „prinsipialt“ eru á móti frv. og geta ekki hugsað til að fara inn á þessa leið, þeir greiði atkv. móti því við 1. umr. Ég geri þessa till. vegna þess, ef þetta frv. fer þannig gegnum 1. umr. og verður sent til n. og það er gert á venjulegan hátt, þá getur það farið gegnum allar umr., og mundi það verka út á við. En það er nauðsynlegt, að mínu áliti, að það komi álit frá Alþ. um þetta mál strax í dag. Ég vildi þess vegna mælast til þess, að hv. þm. létu skoðun sína í ljós á þessu máli nú strax við 1. umr. En ef hv. þm. ekki treysta sér til þess, vildi ég mega vænta þess, að hæstv. forseti vildi leyfa afgreiðslu þessa frv. með afbrigðum, þannig, að þótt því yrði vísað til n. nú, þá tæki n. það þegar fyrir til þess að reyna helzt í dag að halda áfram með það. Ég held, að ástandið sé það alvarlegt, að það sé alveg hreint óhætt að bregða út af þeim venjulegu vinnubrögðum, sent höfð eru í þinginu, og afgreiða þetta mál eins og — þau mál, sem mikið liggur á. Hæstv. Alþ. hefur vitað, að þetta verkfall hefur vofað yfir, og það í hálfan mánuð, og engar ráðstafanir hafa verið gerðar. Það er þess vegna ekki nema réttmætt, að það vinni nú upp það aðgerðaleysi með því að hraða gangi málsins nú til þess að bæta upp að nokkru það, sem talizt hefur af tíma undanfarið.

Leyfi ég mér svo að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.