19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (737)

58. mál, skipaafgreiðsla Eimskipafélags Íslands h/f

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Ég hlýddi ekki á umr. um þetta mál, en ég heyrði sagt, að hv. þm. V.-Sk. hafi sagt, að þetta frv. sannaði, að ríkisstjórnin væri á valdi manna, sem vildu spenna allt upp úr öllu valdi.

Ég veit ekki, hvernig hans flokkur hefði tekið þessu máli, ef hann hefði verið við völd, en núverandi ríkisstjórn reynir að koma á sættum og vonar, að þegnskapur Íslendinga sé svo mikill, að fullt samkomulag geti náðst, áður en til erlendrar íhlutunar kemur, en ég veit engan síðri boðbera sætta en hv. þm. V.-Sk., enda þótt hann á helgidögum klæðist hempu.

Hv. flm. þessa frv. mega ekki ætla einhlýtt, að verkalýðurinn geti alltaf sagt fyrir verkum, hvað laun þeirra snertir. Öllum hefði verið það til blessunar, ef hægt hefði verið að halda í gerðardómslögin, og skoðun mín á réttmæti þeirra l. er óbreytt, en menn verða að viðurkenna, að l. hafa brostið. Það er augljóst, að þessi l. gátu ekki staðizt fremur en önnur l., sem þjóðin er á móti. Það byrjaði þannig, að Alþfl. tók ráðherra sinn úr stjórninni og hóf áróður gegn l., og Sósfl. tók undir þetta með honum. Strax og búið var að setja l., þá voru þau brotin, en við lokuðum augunum fyrir því, af því að það var ekki almennt. En þegar í 1jós kom, að atvinnurekendur yfirleitt greiddu hærra kaup og verkamenn heimtuðu meira en l. heimiluðu, þá var ekki annað hægt en viðurkenna þá staðreynd, að l. væru fallin.

Ég greiði atkv. með afnámi l. þessara, en í trausti þess, að annað komi í staðinn. Þjóðin verður að skilja, að verðhækkun og taumlaus verðbólga verður aðeins til bölvunar. Ef verkalýðurinn tekur hlut af arði þjóðarinnar, án þess að framtíð þjóðarinnar sé í voða, þá er það gott, en illt er, ef farið er út í öfgar, svo að þjóðinni stafi hætta af.

Ég vil brýna fyrir málsvörum verkalýðsins eða þeim, sem þykjast vera það, enda þótt þeir séu það ekki öðrum frekar, að óhóflegar kröfur geta orðið til bölvunar, sem ekki verður spornað við og þeir, sem segja, að allt sé betra en erlertd yfirráð, ættu að skilja þetta.

Ég mun ekki ræða um, hvort verkamenn eða atvinnurekendur hafa rofið samninga. Það, sem máli skiptir, er að leysa þetta mál og finna sameiginlegan grundvöll, sem hægt er að standa á framvegis. Ef til vill má skoða þetta frv. sem ógnun, en ég er því andvígur, enda þótt ég láti hlutlaust, að það fari til n.

Hv. þm. V.-Sk. sagði, að gerðardómsl. hafi aðeins verið framkvæmd fram í júní, en það er ekki rétt, því að þau voru aldrei framkvæmd. Það veitti ekki af að kenna þessum hv. þm. að segja sannleikann. (PHann: Það situr sízt á hæstv. forsrh. að tala um að kenna öðrum, því að honum gekk ekki svo vel í skóla.) Ég hef heyrt þetta áður frá rektori menntaskólans, en á meðan ég er ekki verri en það, að ég var latur í skóla, þá hcld ég, að hann ætti fremur að leggja stund á að kenna þeim unglingum, sem honum er trúað fyrir, heldur en kenna mér. Því að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Hv. 2. þm. Reykv. þótti miður, að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa beitt áhrifum sínum til þess að fá eimskipafélagið til að láta undan í þessu máli. Ef hann heldur, að afskipti okkar af deilunni um daginn hafi verið eitthvað hliðstæð þessu, þá skjátlast honum. Ég hef birt um þetta skýrslu í blöðum, ef hv. 2. þm. Reykv. les hana, mun hann sjá, að þar er alls ekki líku saman að jafna. Hitt er annað mál, að vel getur komið að því, að ég mundi beita mínum áhrifum á atvinnurekendur og verkalýð og mundi vilja reyna á, hvaða tillit þeir taka til þess. Og ég tel mig hafa gert það, sem talin er ýtrasta skylda sérhverrar ríkisstjórnar, þar sem ég hef fengið 4 hæfa menn til þess að reyna ásamt sáttasemjara að sætta deiluna. En þegar um það er að ræða að leggja grundvöll að framtíðarskipulagi, verður að ræða það svo vandlega, að það getur eðlilega skipt nokkrum dögum. Og ég hefði talið eðlilegt, að verkalýðurinn héldi áfram vinnu upp á loforð um það, að það kaup, sem semdist um, gilti frá þeim degi, er stöðvunin hófst. Mér hefði þótt þetta eðlilegra heldur en úrræði eins og þau, að ríkisstjórnin tæki valdið af Eimskipafélagi Íslands og léti það ganga inn á kröfur verkamanna.

Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða þetta mál, af því að ég tel deilur um málið á þessu stigi þess óheppilegar.