28.08.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (933)

62. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Áður en Alþ. kom saman, hafði ríkisstj. rætt um efnishlið þessa máls, sem borið er fram hér í þáltill. á þskj. 83. Og eftir að þingið kom saman, bar ríkisstj. það undir þá af þm. Sjálfstfl., sem sérstaklega bera hagsmuni sveitanna fyrir brjósti og dómbærastir eru um það, með hverjum ráðum er helzt hægt að uppfylla þær þarfir, sem þarna eru fyrir hendi. Þessir hv. þm. höfðu svo skilað áliti sínu til ríkisstj. Og það hnígur í mjög svipaða átt eins og sú þáltill., sem hér er borin fram, og er þá einnig í samræmi við það, sem ríkisstj. telur eðlilegt og rétt í þessu máli. Það er alveg áreiðanlegt, að það er ekki aðeins nauðsyn bændanna, heldur einnig alls þjóðfélagsins, að bændur landsins beri nú frá borði nokkuð svipað eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins. Því hafa allir hv. þm. lýst yfir og viðurkennt, að það sé til framdráttar öllum stéttum þjóðfélagsins, að verðlagsröskun verði ekki frá því, sem nú er. Og mér skilst, að það sé viðurkennt af öllum, að nauðsyn sé á því að stöðva fólksstrauminn frá sveitunum og á mölina. En til þess liggur ekkert ráð jafnöruggt og það að eiga þátt í því eins og auðið er að gera afkomu bændanna nokkuð svipaða afkomu annarra sambærilegra stétta þjóðfélagsins. Það er augljóst mál, að þeir bændur, sem aðallega framleiða það kjöt, sem selt yrði til útflutnings, ef til slíkrar sölu kæmi, þurfa auðvitað að bera svipað úr býtum eins og hinir, sem framleiða til sölu á innlendum markaði, að því frádregnu, sem kann að vera munur á framleiðslukostnaði einstakra héraða, en út í það er erfitt að fara nákvæmlega. Ég lít þess vegna svo á, að annaðhvort verði bændur nú, ef gert er ráð fyrir, að þeir verði að selja kjöt til útflutnings, sem mundi þá verða selt fyrir lágt verð, að fá tryggingu hins opinbera fyrir því, að þeir fái uppbætur á það kjöt, eða þá hins vegar, eins og hv. flm. gat um, verður að hækka verðið á innlendum markaði, þannig að af því verði hægt að taka hæfilega fúlgu til verðuppbótar á útflutt kjöt. Og meðan ríkissjóður hefur ástæður til, vill ríkisstj. samkv. vilja — ég geri ráð fyrir allra hv. þm. — eiga hlut að þessu, að bændur fái kjötið verðbætt, ef á þarf að halda. En ég er ekki alveg viss um, að til þess komi, að þessar uppbætur þurfi að greiða. En ef til þess kemur, að flytja þurfi út kjöt, verður ríkissjóður að verðbæta það. Ef ríkissjóður ekki verðbætti kjötið í því tilfelli, yrðu bændur að ákveða verð innan lands á kjötinu nú hærra en þeir annars ætla sér. Ég legg því eindregið til, að bændur ákveði kjötverðið á innlendum markaði frá því sjónarmiði, að ríkið bæti upp verð á útfluttu kjöti, ef eitthvað af kjöti þarf að flytja út af framleiðslu þessa árs. Með því móti fá neytendur kjötið við því verði, sem bóndinn þarf að fá, og bóndinn fær tryggingu fyrir því, sem hann þarf að fá fyrir þessa vöru. Ég álít þetta eina heilbrigða sjónarmiðið fyrir þá, sem viðurkenna nauðsyn þess, að bóndinn þurfi að bera svipað úr býtum og aðrar stéttir í þjóðfélaginu, og það er mín skoðun, — og ég ætla, að ég mæli það fyrir hönd flokks míns, það stendur ekki flokkssamþykkt fyrir því að vísu, en ég hef rætt við marga hv. flokksmenn mína um þetta, — að svona þurfi það að vera. Þetta hygg ég vera skoðun Sjálfstfl., og ríkisstj. stendur óskipt að þeirri skoðun.

Það stendur að vísu nokkuð öðruvísi á um hitt annað, sem nefnt er hér í þáltill, og farið er fram á, að verðbætt verði. En ég viðurkenni þau rök, sem bæði tilgreindir hv. alþm. Sjálfstfl. höfðu sett fram við ríkisstj. og einnig er hér greinilega skjalfest í grg. þáltill., að það er í órjúfanlegu sambandi við kjötverðið, hvers verðs bændur mega vænta sér fyrir ull og gærur. Það kemur bóndanum ekki að liði, svo að fullnægjandi sé, þó að hann fái hátt verð fyrir kjöt, ef hann fær lágt verð fyrir ull og gærur. Svo mikill hluti eru þessar vörur af framleiðslu bóndans. Ég get því tekið undir það með hv. flm. þál. till. og þeim sjálfstæðismönnum, sem hafa lagt það fyrir ríkisstj., að það sé eðlilegt og nauðsynlegt að tryggja bændum einnig viðunandi verð fyrir þessar vörur. Ég segi það því fyrir hönd ríkisstj. og þeirra sjálfstæðismanna, sem um þetta hafa fjallað, að ríkisstj. og þeir eru samþykkir þeirri till., sem borin er fram um verðuppbætur á þessum vörum.