01.09.1942
Sameinað þing: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (967)

8. mál, úthlutun bifreiða

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Eins og hv. þm. Ísaf. lýsti hér í ræðu sinni, gat n. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Stafaði það e. t. v. nokkuð af því, að beitt var hér alveg sérstakri vinnuaðferð í n. Þegar vitað var um, að annar fulltrúi Framsóknarflokksins í n. mundi viðmælanlegur um skynsamlega lausn á málinu, og líklegur til þess að geta komið á samkomulagi um nefndarálit, var hann látinn víkja af fundi, en annar flokksmaður hans sendur í hans stað, sem betur berðist fyrir því, að ekki fengist samkomulag um afgreiðslu málsins.

Tel ég það illa farið, að svo skyldi til takast. En um það þýðir ekki að sakast.

Minni hl. lítur svo á, að málið þurfi að fá þá afgreiðslu á Alþingi, sem líkleg sé til að bæta úr þeirri megnu óánægju, sem verið hefur með bifreiðaeinkasöluna á meðal landsmanna, og að það verði ekki gert með því einu að skipa n., heldur með því jafnframt að finna heilbrigðan grundvöll fyrir úthlutun bifieiðanna. Minni hl. vildi því, að ákveðnar reglur yrðu settar fyrir úthlutuninni, sem ríkisstj. staðfesti, og kæmi þá nokkurn veginn í sama stað, hver annaðist úthlutunina á eftir. Þetta vildi meiri hl. ekki fallast á, en vildi hins vegar, að n. setti sér sjálf einhverjar reglur fyrir úthlutuninni. En hv. þm. hlýtur að vera það ljóst, að það er reginmunur á því, hvort hún setur sjálfri sér reglur eða hvort henni eru settar reglur að fara eftir, sem staðfastar eru af ráðuneytinu, sem samkv. lögunum um bifreiðaeinkasölu ber fulla ábyrgð á stofnuninni og getur því ekki að lögunum óbreyttum afsalað sér þessu valdi og sízt af öllu afhent það öðrum til þess að beita því gegn hagsmunum þjóðarinnar að þess áliti. Að n. gat ekki orðið sammála, var einmitt langmest af því, að meiri hl. vildi endilega, að n. fengi úthlutunarvaldið, en minni hl. gat ekki fallizt á, að hægt væri eða þinglegt að taka það vald af ráðuneytinu nema með því að breyta sjálfum l. Fyrir því skilar minni hl. séráliti og ber fram jafnframt brtt. á þskj. 168 við aðalþál.

Ég vil nú gjarnan spyrja hv. meiri hl., hvað unnið sé við það, að n. gefi Alþ, skýrslur um starfsemi sína, t. d. hverjum hún hafi úthlutað bifreiðum og hverjum ekki, hve margar umsóknir hafi komið o. s. frv. Hefur hv. Alþ. ekki annað að gera en að sökkva sér ofan í slíkar skýrslur? Ef það er ofviða ráðuneytinu að fylgjast með þessum málum, svo sem nauðsynlegt er, eins og haldið hefur verið fram, þá tel ég það bæti ekki úr, að Alþ. fari að skipta sér beint af framkvæmd málanna, fram yfir samþykkt á l. og reglum, sem starfa ber eftir.

Ég tel, að með till. meiri hl. skapist aðeins meiri óánægja um þessi mál en orðin er, og er þó víst ekki á hana bætandi.

Ég vil því skora á hv. þm.samþ. till. minni hl. á þskj. l43 að viðbættri brtt. á þskj. 168. Skyldi svo fara, að meiri hl. hv. þm. sæi sér ekki fært að samþykkja aðalbrtt. minni hl., sem þegar hefur verið lýst, er þess vænzt, að samþykkt verði varabrtt. hans, því að hann lítur svo á, að málinu sé þó betur komið, ef stj. skipar n. skv. 2. lið á þskj. 169, þar sem slík n. mundi þá að sjálfsögðu vinna í fullri samvinnu við ráðuneytið um lausn málsins.

Með því móti er og tryggt, að hver flokkur fær fulltrúa í n., og er þá fullnægt vilja meiri hl., að gera úthlutunina að pólitísku máli. En þá verður að sjálfsögðu heldur eigi mælt gegn því, að ráðuneytið, sem ber ábyrgð á stofnuninni og úthlutun, tilnefni og skipi 5. manninn.

Ég vil því spyrja hv. þm., er ætla sér að greiða atkv. með brtt. á þskj. 108, hvort þeir vildu ekki fyrst athuga að samþ. brtt. á þskj. 169.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að ástæðunum fyrir þessu vandræðaástandi. Það er nú ljóst, að allt þetta öngþveiti í bifreiðamálunum stafar af því, að bifreiðaeinkasalan gat ekki uppfyllt skyldur sínar um það, að uppfylla óskir manna og þarfir um bílakaup og bílainnflutning.

Á þessu ári hafa 158 bílar verið fluttir inn í landið utan við einkasöluna, en aðeins 120 á vegum hennar. Ef innflutningsmöguleikarnir hefðu verið teknir af einstaklingum, þá væri ástandið þeim mun verra sem þá væri 158 bílum færra í landinu.

Nú geta ekki verið nema tvær ástæður fyrir því, að þetta skyldi geta skeð, önnur, að bifreiðaeinkasalan hafi vanrækt störf sín og skyldur um bifreiðakaup, hin, að aðrir hafi getað gert betur en einkasalan. En hvor ástæðan, sem valdið hefur þessu ástandi, er nægileg til þess, að stofnunin ætti að hætta störfum og verzlunin að. gefast frjáls.

Till. á þskj. 108 fer fram á að taka alla úthlutun af einkasölunni og fá hana n. Í fyrsta lagi er till. meiri hl. frekasta vantraust, sem fram hefur komið á forstjóra einkasölunnar, því að þar er tekið fram, að hún geti ekki leyst þetta mál af hendi á viðunandi hátt. En ef svo er, er þá ekki hreinlegra að leggja stofnunina alveg niður? Í öðru lagi stríðir þessi till. algerlega á móti ákvæðum laganna, og verður þar af leiðandi ekki sinnt af ráðuneytinu, þótt samþykkt verði. En út í það skal ekki farið frekar hér. Aftur á móti vil ég minnast nokkuð á b-lið brtt. á þskj. 108, þar sem ákveðið er, að n. úthluti 2/3 allra fólksbíla til atvinnubílstjóra. Verði þetta samþykkt, er gengið mjög á rétt þeirra landshluta, er útundan hafa orðið til þessa um bíla. Það ætti fremur að athuga, hve margir bílar væru til á hverja 1000 menn í hverju héraði, og fara síðan nokkuð eftir því við úthlutunina. Mun þá koma í ljós, að það eru mörg héruð, sem fengið hafa sama sem ekkert af bifreiðum. Bæri því frekar að uppfylla sjálfsagðar og nauðsynlegar beiðnir frá þeim héruðum, áður en farið væri að sinna kröfum frá öðrum héruðum, m. a. Rvík, sem er þegar yfirfull af bifreiðum. Og ekki er víst, að ávallt liggi þar annað á bak við en hagnaðarvon ein. Það þarf fyrst og fremst að sinna atvinnuvegum, en ekki þeim, sem eru að „spekúlera“ með bifreiðakost sinn hjá hinu erlenda setuliði, til mismunandi þarflegra og þjóðlegra ferðalaga á nóttu og degi. Ég treysti því, að Alþ. gangi ekki svo freklega á rétt dreifbýlisins eins og farið er fram á í till. þessari. Ég veit, að einhver muni svara, að ekki sé rétt að láta héruð, sem hafa lítið af akvegum, fá svo og svo mikið af bifreiðum. Enda ætlast ég ekki til þess, heldur til hins, að fyrst sé séð fyrir þeirra nauðsynlegustu þörfum, því að það er ekkert réttlæti að gera hvort tveggja, að svíkja þessi héruð um vegina og þegar loks opnast einhver möguleiki til að nota bifreiðir þar, þá að svíkja þau einnig um bílana. Ég veit, að í Austur-Barðastrandarsýslu er nú fyrst lagt nokkurt fé til vegar, og verið að leggja hann smátt og smátt eftir héraðinu. En þar er ekki til einn einasti bíll, hvorki til fólks- né vöruflutninga, svo að menn verða að reiða á hestum á hinum nýju bílavegum, af því að þeir hafa engan kost átt á því að fá bíla. Það er og upplýst af vegamálastjóra, að sumpart hefur orðið í sumar að aka í hjólbörum og jafnvel bera á handbörum ofaníburð í vegi þar vestra, vegna bílaskorts, til þess að þurfa ekki að stöðva verkið alveg. Þannig er nú ástandið þar.

Ég tel því, að Alþ. geti á engan hátt slegið föstu hér, hvernig skuli úthluta bílunum, eins og gert er í till. Það verður tvímælalaust að vera verk nefndar í samráði við ráðuneytið að ákveða, eftir hvaða reglum það skuli gert, enda sé þá fullt tillit tekið til þarfa héraðanna í heild. Telur minni hl. rétt, eins og fram kemur í till., að þær reglur fái staðfestingu ráðuneytisins sem samkv. l. ber fulla ábyrgð á stofnuninni gagnvart þinginu og þjóðinni, og þá jafnframt í því, að sanngirni og réttlæti sé ekki fyrir borð borið í þessu máli frekar en öðrum stjórnarathöfnum. Engin önnur afgr. getur verið sæmandi fyrir Alþ. eða til hagsbóta fyrir þjóðina. Það getur aldrei orðið friður um þetta mál, ef þrír menn rammpólitískir fara að þræta um það lengri eða skemmri tíma, hvort þessi eða hin bifreiðin skuli afhent Framsflm., Sjálfstflm., Alþflm. eða Sósíalistaflm., nema þá að sett verði hér um það ákveðin lagafyrirmæli, að bifreiðunum skuli úthlutað til flokkanna í hlutfalli við atkvæðatölu, sem þeir hafa fengið í kosningum! — og láta þá síðan um það, hvernig þeim verði skipt til notenda. Það væri máske rétt, en ég geri ekki ráð fyrir, að það vaki fyrir meiri hl.

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. meira, nema tilefni gefist til, en bið hv. þm. að athuga vel, þegar þeir greiða atkv., hvað sé heppilegast til úrbóta í þessu máli, svo að vel megi við una.