01.09.1942
Sameinað þing: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (980)

17. mál, neyzluvatnsskortur kauptúna

Flm:

(Bjarni Bjarnason) : Þetta mál er nú orðið nokkuð gamalt, borið fram snemma á þessu þingi, og máske virðist svo sem það sé ekki stórt við fyrstu sýn. En við nánari athugun munu menn þó sammála um, að gott neyzluvatn sé eitt frumskilyrði lífsins, og verður það aldrei nógsamlega lofað að hafa nóg af góðu vatni. Brunnvatn hefur lengi tíðkast að nota, og getur það vatn verið gott. En ef athugað er, hvernig brunnarnir líta út víða, þá verður það augljóst, að brunnvatn getur verið hreinasta skaðræði. Hygg ég, að margir kannist við brunna af því tagi, að talsvert rennur í þá af ofanjarðarvatni, og sjá þá allir, hversu ógeðslegt er að neyta slíks vatns. En auk þess getur brunnafyrirkomulagið að sjálfsögðu ekki fullnægt nema allra brýnustu þörfinni, sem sé matargerðinni.

Ég hygg, að gott og nóg neyzluvatn sé einnig höfuðskilyrði heilbrigði, og allir munu kannast við, sem komnir eru til vits og ára, að hættulegar sóttir hafa einatt verið raktar til eitraðs neyzluvatns. Og margir Íslendingar munu hafa látið lífið skjótlega fyrir að hafa neytt eitraðs vatns. Samt sem áður hefur það verið látið viðgangast, að slík vatnsból væru mjög víða um landið. Þó má segja, að það sé sérstaklega tilfinnanlegt fyrir þéttbýlið að nota lélegt neyzluvatn. Og ég hygg, að eitt af almestu framfaramálum Rvíkurbæjar hafi verið vatnsleiðslan frá Gvendarbrunnum og að aldrei verði nógsamlega lofað þetta góða vatn, sem Reykvíkingar hafa getað veitt sér frá þessari dýrmætu og ágætu uppsprettu.

Ég sagði áðan, að tilfinnanlegast væri fyrir þéttbýlið að búa við vatnsskortinn. Og það er svo enn þá í þessu landi, að mörg kauptún vantar nægilegt vatn. Bæirnir og nokkur kauptún munu vera búin að leysa úr þessum vandræðum. Á Akranesi t. d., sem var kauptún og er nú bær með 2–3 þús. íbúa, er þetta vatnsmál alveg nýlega leyst. Og fjöldamörg sveitaheimili hafa þegar komið á hjá sér vatnsleiðslu og þykir hvarvetna hinn mesti búhnykkur ekki aðeins vegna þæginda og vinnusparnaðar, heldur er miklu tryggara að fá gott vatn, ef tekið er úr lind nokkuð frá, heldur en að hafa brunn í hlaðinu eða nálægt gripahúsum.

Hugmynd mín með flutningi þessarar till. er sú, að þeim kauptúnum sérstaklega, sem erfiðasta eiga aðstöðu og enn eiga þetta mál óleyst, verði hjálpað bæði með ráðum frá því opinbera, þ. e. mönnum, sem hafa þekkingu til þess að rannsaka vatnsból, og enn fremur hreint og beint með hvatningu til að hefjast handa í þessu efni. Og mér finnst það geta mjög vel komið til mála, að á sama hátt og Búnaðarfélag Íslands veitir bændum aðstoð um áveitur, þurrkun lands og fleira, þá geti ríkisstj. látið ráðunaut sinn í vatnamálum hafa forustu um að hjálpa sérstaklega þéttbýlinu til að undirbúa svona framkvæmdir. Enn fremur hef ég hugsað mér, að það væri alveg sjálfsagt að reyna að bora eftir vatni. Á því er þegar nokkur hreyfing og til fleiri en einn jarðbor. Væri athugandi, hvort ekki væri rétt að fá fleiri jarðbora til að leita eftir vatni í nánd við kauptún, einmitt frá því sjónarmiði, hve dýrt er að leiða vatnið lanan veg. Ég hygg, að sá erlendi her, sem hér dvelst, hafi gert tilraunir með vatnsboranir í herbúðum sínum með ágætum árangri á hinum ólíklegustu stöðum.

Ég vil enn nefna eitt, sem styður það, að vaxandi hætta sé af vatnsleysi í kauptúnum. Nú meðan landið er hersetið og börnin úr bæjunum látin dveljast í skólabyggingum og fundahúsum og öðrum slíkum stöðum, eru vatnsaðdrættir oft miklum erfiðleikum bundnir. Ég hef verið sjónarvottur að því, að á einu slíku barnaheimili var alveg vatnslaust og vatnið sótt í bifreið margra kílómetra veg, og ekki var kostur á að ná í meira en þurfti til neyzlu. Geta menn skilið, hve gífurlegir erfiðleikar hafa verið á því að viðhafa allt hreinlæti svo fullkomið sem krafizt er og fullnægja heilbrigðisskyldum. Og það má búast við, að það ástand haldist enn um nokkurn tíma, að börn úr bæjum þurfi að flytja til ýmissa staða úti á landi. Og ætli það hrykkju ekki einhverjir við, ef einn góðan veðurdag kæmi upp hættulegur sjúkdómur á slíkum stöðum og hægt væri ,ð rekja orsök hans til vatnsbóls og vatnsleysis? Hygg ég, að þessi hlið málsins hafi ekki verið athuguð svo sem vert væri. Ég hef enn fremur verið sjónarvottur að því, að maður eftir mann hefur þurft að fara í sömu vatnsskálina til að þvo sér úr sama vatninu, af því að ekki var annað til.

Það má nú segja að vísu, að hér komi fram nokkurt ráðaleysi og framkvæmdaleysi sveitarstj. á slíkum stöðum. En að verulegu leyti stafar þetta af því, að kauptúnin hafa ekki fjárhagslega getu til að leysa þetta mál. Að öðru leyti má segja, að nokkuð sama gildi, hver ástæðan er. Staðreyndirnar eru eins og ég hef lýst. Ef hægt er með aðstoð hins opinbera að hvetja þessi sveitarfélög til að hefjast handa í þessu efni, hjálpa þeim með vatnsborunum og rannsóknum á vatnsbólum, kostnaðaráætlunum um leiðslur án útgjalda fyrir kauptúnin, gæti það lyft málinu allmikið. Enn fremur, ef ríkisstj. hefði aðstöðu til að hjálpa sveitarfélögunum með ríkisábyrgð á erlendu efni og fleira. Og ég er sannfærður um, ef þm. vilja hugsa um málið af alúð, að þeir komast að þeirri niðurstöðu, að það er stórmál, sem mætti greiða fyrir á margvíslegan hátt, án þess að leggja fram stórkostlega fjármuni. Það er í alla staði óviðunandi að hafa ekki nóg vatn, ekki einungis til matargerðar, heldur einnig til hreinlætis og þæginda og til iðnaðar.

Ég gæti sagt margt fleira um nauðsyn þessa máls og möguleika til bóta, en læt þetta nægja. Ég sé tæplega ástæðu til að vísa því til n., en óska, að hæstv. forseti sjái sér fært að vísa því til síðari umr. strax að þessari umr. lokinni, svo að málið megi ganga fram á þessu þingi.