11.08.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (996)

13. mál, vöru- og farþegaflutningar með ströndum fram og flugleiðis

Steingrímur Aðalsteinason:

Það eru víst allir sammála um nauðsyn þess, að sem mest sé gert til að ráða bót á erfiðleikunum á flutningum með ströndum landsins, og þessi þáltill. verður því að sjálfsögðu samþ. En mér finnst, að sérstaklega verði að leggja áherzlu á það, að skiprúm, sem til er í landinu, sé hagnýtt á sem beztan og hagkvæmastan hátt, og þá ekki einasta það skiprúm, sem notað er til strandferða, minni skipin, heldur einnig þau stærri skip Eimskipafélags Íslands og önnur skip, sem notuð eru aðallega til þess að flytja vörur til landsins. Það hefur þegar komið fram í umr. og er á allra vitorði, að þessi stærri skip liggja oft mjög langan tíma í höfn í Rvík og eyða þannig miklu af dýrmætum tíma, en annars væri möguleiki á að nota þau til vöruflutninga. Og ég held, þrátt fyrir það, sem komið er fram í þessum umr. um, að erfiðleikar mundu á að hagnýta þau betur en gert er, að sá möguleiki kunni þó að vera fyrir hendi. Þar með á ég þó ekki við, að hægt sé að nota þessi skip að neinu verulegu leyti til strandferða, heldur hitt, að hægt verði að gera meira en þegar hefur verið gert að láta þau flytja vörur ekki einungis til Rvíkur, eins og aðallega hefur verið, heldur utan hjá Rvík til að annast stærstu hafnirnar í landinu. Ég fullyrði, að það hefur ekki verið gert eins mikið að því að koma vörum þannig til Akureyrar eins og hægt var, og heppilegt var, að stjórn Eimskipafélags Íslands hefði þar getað gert betur. Ég vil geta þess, að á s. l. vori, eftir að Kaupfélag Eyfirðinga, sem er stærsti vöruinnflytjandinn til Akureyrar, hafði gert allmikið til þess, og enn fremur hafði bæjarstjórn Akureyrar átt nokkurn hlut að máli, að fá eitt af skipum Eimskipafélags Íslands til að sigla beint frv Ameríku til Akureyrar, þá var því að vísu lofað. En framkvæmdin var sú, a. m. k. í það skipti, að byrjað var á að láta nokkur hundruð tonn af vörum til Reykjavíkur í botn skipsins, síðan vörur til Akureyrar, sem var meginhlutinn, en að síðustu 300 tonn af vörum til Rvíkur ofan á Akureyrarvörurnar. Þetta hafði í för með sér, að skipið varð að sigla fyrst til Rvíkur, varð að bíða hér a. m. k. hálfan mánuð, síðan sigldi það til Akureyrar og aftur til Rvíkur til að losa vörurnar úr botni skipsins.

Ef framkvæmd á því að sigla skipum fram hjá Rvík til stærri hafna úti um landið, — þótt ekki sé talað um að þau sigli á smáhafnirnar — verður á þessa leið, þá kemur hún auðvitað engum að gagni, ef skipin þurfa samt sem áður að sigla til Reykjavíkur og tefja þar langan tíma. En það kunna að vera nokkrir erfiðleikar á því vegna skipaskorts að fá í skip heila farma erlendis til ákveðinna hafna úti á landi. Þó hygg ég, að því er nemur til Norðurlands og Akureyrar, hljóti það að vera hægt, ef stjórn Eimskipafélags Íslands og þeim öðrum, sem sjá um siglingar skipanna og afgreiðslu, er full alvara. Um Norðurland er þetta auðvelt vegna hafnarskilyrða og vinnuafls á Akureyri, að afgreiða án nokkurrar verulegrar tafar þær vörur, sem fluttar eru frá útlöndum og til Norðurlandsins. Og mér þykir sennilegt, að nokkuð svipuðu máli mundi vera að gegna t. d. um Ísafjörð, að flutningsþörfin af erlendum vörum til Vestfjarðakjálkans muni vera svo mikil, að nægilegt verkefni sé fyrir eitt skip af þeirri stærð, sem Eimskipafélag Íslands hefur, að flytja vörur aðeins á þá staði, a. m. k. ferð og ferð. Með þessu sparaðist ekki aðeins sá tími, sem skipin að öðrum kosti eyða í bið í Rvík eftir afgreiðslu. heldur mundi þetta létta undir með flutning á smáhafnirnar á Norðurlandi, og til hans mætti nota minni skip heldur en til að flytja frá Rvík til sömu hafna. Sömuleiðis væri hægt að nota minni skip og á annan hátt auðveldara að afgreiða vörur frá Ísafirði til annarra hafna á Vestfjarðakjálkanum og á Ströndum heldur en ef vörurnar fara allar gegnum Rvík og er síðan miðlað á hafnir umhverfis allt landið.

Ég álít sem sagt, að þetta sé atriði, sem vert er að taka til rækilegrar athugunar í sambandi við afgreiðslu þessa máls, og leyfi mér að beina áskorun um það til þeirrar n., sem fjallar um málið, og sömuleiðis til hæstv. ríkisstj.