13.04.1943
Neðri deild: 101. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Ég kemst ekki hjá því að fara nokkrum orðum um ræður hv. síðustu ræðumanna, og skal ég þá fyrst snúa mér að hv. þm. V.-Ísf. Hann sagði, að sér kæmu þessi ræðuhöld ákaflega á óvart, hann hefði ekki búizt við þessum ósköpum út af jafnlitlu atriði, hér sé um smátt atriði að ræða, atriði, sem ekki sé hættulegt þó að bíði. Hann sagði, að það væri ljótt, að menn skyldu bera það sér í munn, að hér hafi orðið stefnubreyting hjá Alþfl. og Sósfl. Hann sagði, að þetta væri hundaþúfa, sem Framsfl. væri að reyna að hreykja sér upp á. Ég vil benda hv. þm. V.-Ísf. á það, sem ég raunar gerði í fyrri ræðu minni, að þetta litla atriði, þessi hundaþúfa, þetta atriði, sem má bíða og ekki er þess vert að sé rætt, það er atriði, sem Alþfl. hefur á undanförnum árum borið fyrir sig og sagt: „Vegna þess að þessu atriði, einmitt þessu atriði skattal., og varasjóðunum er skipað á þann hátt, sem er í l., getum við ekki tekið þátt í neinu jákvæðu stjórnmálastarfi.“ Upp á þetta litla atriði, sem nú má bíða, hefur Alþfl. haldið tvennar alþingiskosningar. Hann hefur borið fyrir sig þetta atriði. Þetta atriði er sú hundaþúfa, sem Alþfl. hefur setið á, síðan stríðið hófst.

Hv. þm. V.-Ísf. sagði, að það hefði þurft að taka tillit. Til hverra þurfti að taka það tillit að fella niður þetta atriði? Hver var það hér á Alþ., sem ætlaði að fella frv., ef þetta atriði væri ekki tekið út? Það væri fróðlegt að hv. þm. V.- Ísf. vildi upplýsa það. Er hv. þm. V.-Ísf. að upplýsa það, að Sjálfstfl. hafi ætlað að drepa frv. stj., ef þessi skattaákvæði yrðu samþ. Og hver átti að fella frv. með Sjálfstfl., ef þetta yrði ekki tekið út? Það væri æskilegt, að hv. þm. V.-Ísf. vildi upplýsa það, hver það var, sem ætlaði að hjálpa Sjálfstfl. til þess að drepa frv., ef þetta atriði yrði ekki tekið út.

Mér þykir leiðinlegt, ef ræða mín skyldi koma hv. þm. á óvart. Ég vona, að það séu ekki svo mikil brögð að því, að það geri þá mikið til. En hann verður að fyrirgefa mér það, þó að mér sé þetta nokkurt alvörumál vegna þess, að Framsfl., og ég sérstaklega, hefur fengið margt óþvegið orð á undanförnum árum frá flokksbræðrum hv. þm. V.-Ísf. og Sósfl. fyrir það að hafa tekið það tillit til annarra að ganga inn á, að safnað væri í varasjóði, eins og verið hefur í l. fram að þessu. Þetta er eina atriðið, sem þessir hv. þm. hafa barizt fyrir, og þeir hafa ekki túlkað neina aðra lausn á dýrtíðarmálinu en einmitt þá að skattleggja stríðsgróðann. —

Ræða hv. 2. þm. Reykv. finnst mér vera glöggt dæmi þess hvernig fer, þegar greindur maður neyðist til þess að tala gegn betri vitund. Ég verð að segja hv. 2. þm. Reykv. það, að það er alveg þýðingarlaust fyrir hann að spinna þennan lopa hér frammi fyrir alþm. Það er enginn maður hér á Alþ., svo skyni skroppinn, að hann sjái ekki í gegnum þennan lopa. Ég vil segja þessum hv. þm. það, að ég efast um, að lítilsigldustu hópsálirnar í hans eigin flokki mundu taka fyrir góða og gilda vöru þau undanbrögð, sem þessi hv. þm. hefur haft hér í frammi. Þó að mikið hafi verið gert til þess að drepa úr því fólki heilbrigða dómgreind, þá efast ég um, að það taki þetta fyrir góða og gilda vöru.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það hefði verið rætt um skattamálin í fjhn., hann sagði, að fulltrúar vinstri flokkanna hefðu orðið sammála um það að skipa n. til þess að athuga þessi mál, og ætti hún að ljúka störfum fyrir 15. ágúst. Þetta er ekki rétt, a.m.k. er það mjög villandi sagt frá, því að hv. þm. V.-Húnv. hafði fyrirvara um þetta atriði, sem hér er verið að tala um, það meginatriði að breyta varasjóðsákvæðunum einmitt núna. En það var vegna þess, að okkur er ljóst, að verði þessu atriði ekki breytt nú, þá verður ekki hægt að ná nema litlum hluta þess fjár, sem fæst í ríkissjóð, með því að samþ. það ákvæði, sem fellt hefur verið úr frv.

Hv. þm. var í þessu sambandi að fara með aðrar eins röksemdir og þær að segja: „Halda menn. að þetta fé hlaupi á brott? Halda menn, að þetta fé náist ekki, ef samþ. verður róttækur eignaaukaskattur?“ Og hv. þm. sagði þessa kynlegu setningu, „að peningarnir mundu verða til í enn ríkara mæli.“ Er ómögulegt að fá þennan hv. þm. til þess að skilja það, að hefðu þessi ákvæði verið samþ. nú, þá hefði meiri hl. af þessu fé komið undir skattstigann, sem ákveður, að 70-90% skuli tekin af stríðsgróðanum? Getur hann ekki áttað sig á því, að 70–90% er meira En 25%, að þessar reglur eru kjarni málsins, sá kjarni, sem þessi hv. þm. er að reyna að komast fram hjá með þessu eins og öllu öðru, sem hann segir? Hv. þm. sagði, að öllum ætti að vera það ljóst, að höfuðatriðið í þessu máli væri ekki tekjuskatturinn eða varasjóðirnir. Höfuðatriðið væri eignaaukaskattur. Ég vil ekki draga úr því. að eignaaukaskattur sé stórt atriði, en þessi hv. þm. getur ekki komizt hjá því, að það er einmitt þetta atriði, sem Sósfl. hefur gert að aðalatriði fram að þessu, þ.e. sjálft fyrirkomulag tekjuskattsins og stríðsgróðaskattsins, alveg á sama hátt og Alþfl. Síðan kom hv. þm. að því að afsaka það, að þetta ákvæði hefði verið fellt út úr frv., og afsökunin var í fyrsta lagi sú, að hér í Nd. hafði verið gert samkomulag, þ.e.a.s. það hafði gerzt, að Framsfl. og Sjálfstfl. höfðu „skriðið saman.“ Um hvað höfðu þeir svo skriðið saman? Jú, þeir skriðu saman um það „að eyðileggja frv.“ og koma í veg fyrir það, sem verkalýðnum væri fyrir beztu. Hvaða atriði voru það svo, sem urðu þess valdandi, að þm. Sósfl. urðu að gripa til óvenjulegra leiða? Í fyrsta lagi það, að inn í frv. hafði verið sett ákvæði um það, að ef samkomulag næðist við alþýðusambandið og bandalag opinberra starfsmanna, þá væri ríkisstj. heimilt að fara eftir því samkomulagi. Þetta var annað atriðið, sem Íhald og Framsókn skriðu saman um. Hitt atriðið var það, að stofna skyldi 3 millj. kr. sjóð til þess að standa undir atvinnuleysistryggingum, og félmrh. skyldi setja reglugerð um sjóðinn. En áður hafði þetta verið þannig, að sérstök mþn. skyldi setja reglugerð um sjóðinn. Nú átti ráðh: að setja reglugerðina, og sjóðinn átti að leggja fram; ef samkomulag næðist milli alþýðusambandsins og ríkisstj. Sem sagt, alþýðusambandið hafði það í hendi sinni, hvernig reglugerðinni yrði komið fyrir. Það var nú þessi voði, sem Íhald og Framsókn skriðu saman um. Ekki var að furða, þó að sósíalistarnir yrðu hræddir.

Það var því engin efnisbreyting gerð á frv. að þessu leyti. Það er sama, hversu hv. 2. þm. Reykv. eyðir löngum tíma í að sýna fram á að svo hafi verið. Það er ekki hægt. —

Það leit því ekki vel út, þegar frv. fór frá Nd., og þá var ekki við góðu að búast, þegar frv. kæmi til Ed. — Ég gleymdi að geta þess að hitt ódæðið, sem framið var í Nd., var það, að leggja skyldi helming þess fjár, sem inn kæmi vegna 7. gr., í raforkusjóð. Það var nú ekki lítið ódæði.

Annars verður gaman að heyra, þegar hv. 11. landsk. fer að tala við kjósendur sína um þetta mál, þar sem hann hefur látið sem raforkumálin væru hans aðaláhugamál og hefur verið sendur út af örkinni af sósíalistum til þess að sýnast í þeim málum. Raunar væri einnig gaman að heyra, þegar hv. þm. V.-Ísf., fer að tala við kjósendur sina. - Nú tók ekki betra við, því að nú fór frv. til Ed., og þá er málið sett þannig upp af hv. 2. þm. Reykv. Þarna stóð sem sé til eitt allsherjar samkomulag við Sjálfstfl., undir forustu þm. S.-Þ., um það að eyðileggja frv. Vesalings sósíalistarnir áttu nú ekki annars úrkosta en að flýja til sjálfstæðismanna og reyna að fá þá til þess að bjarga frv, fyrir sig, ef sósíalistar felldu aftur niður skatt af stríðsgróðanum, því að Jónas ætlaði nú að eyðileggja frv.:

En hvernig kemur þetta nú heim við raunveruleikann. Þetta er hreinn uppspuni hjá hv. 2. þm. Reykv. Fulltrúi Framsfl. í fjhn. lýsti strax yfir því, þegar málið kom til meðferðar í Ed., að Framsfl. vildi standa að frv. óbreyttu, eins og það væri, sósíalistar þurftu því ekki að kaupa sig undan neinni ofsókn af hendi Jónasar Jónssonar í sambandi við þetta mál í Ed. Þetta sýnir ekkert annað en það, hvað hv. 2. þm. Reykv. er gersamlega þrotinn að öllum vörnum, að hann skuli leyfa sér að bera annað eins fram og þetta.

Þegar ég minntist áðan á meðferð málsins í fjhn., þá gleymdi ég að minnast á eitt atriði, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Reykv. Hann sagði, að það hefði þurft að fresta sköttunum, vegna þess að það hefði ekki náðst samkomulag um þá. Við hverja náðist ekki samkomulag? Það náðist ekki samkomulag við fulltrúa stríðsgróðamannanna í fjhn., eins og hv. 2. þm. Reykv. hefur ekki verið feiminn við að orða það. Hvað ætli hv. 2. þm. Reykv. og sósíalistar yrðu að bíða lengi með það að skattleggja stríðsgróðann, ef þeir ætluðu að bíða eftir því samþykki? Ætli þetta sé ekki álíka framkoma eins og það, að þessi hv. þm. hefur í allan vetur verið að ræða myndun vinstri stj., en svo einn góðan veðurdag, þegar búið er að sitja yfir þessu í marga mánuði, þá kemur það fram í blaði flokksins, að þetta geti verið varhugavert, það geti verið að það sé einhver á móti því, það gæti orðið um það deilt og þess vegna sé ákaflega varhugavert að leggja út í það. Hvað ætli að þyrfti lengi að bíða eftir vinstri stj., ef það ætti að bíða eftir samþykki íhaldsmanna? Það er málflutningur annað eins og þetta, og þetta er hv. alþm. boðið upp á af hálfu hv. 2. þm. Reykv. Eins og ég sagði áðan, þá efast ég um það, þó að það sé búið að drepa niður dómgreind margra af laxbræðrum hv. 2. þm. Reykv., að þetta sé af þeim álitin góð og gild vara lengur, og alls ekki fyrir það fólk, sem léði þeim atkv. sitt við síðustu kosningar í trausti þess, að þeir væru aðrir en þeir nú virðast vera. En þeir reikningar verða gerðir upp á sínum tíma.

Það var þetta í Ed.: Þar var Jónas Jónsson, og hann sat á svikráðum, og það stóð til að eyðileggja málið, - Ég skildi þar við þann þráð, og vegna þess var nú ekki annað fyrir hendi heldur en að leita til sjálfstæðismanna um að fá þetta í lag, eins og hv. 2. þm. Reykv. orðaði það. Einhverjum hefði nú fundizt ekki óviðeigandi, áður en til þessa úrræðis var gripið, að grenslazt hefði verið eftir því, hvað Framsfl. var að far a í Ed., en það var alls ekki gert. Sósíalistum datt alls ekki í hug að kynna. sér það, þrátt fyrir það að fulltrúi Framsfl. í fjhn. Ed. lýsti því yfir, að það kæmi ekki til mála, að Framsfl. fylgdi neinni breyt. á frv. Það er þýðingarlaust fyrir hv. 2. þm. Reykv. að vera að tala um till., sem fluttar hafi verið um alþýðutryggingarnar í sambandi við fjárl., því að Framsfl. hefur alltaf verið reiðubúinn að ganga inn á það að sinna því máli, og fullkomlega til móts við það, sem þessir hv. þm. hafa fengið í greiðslu fyrir svik sín í skattamálunum, ekki merkilegra heldur en það nú er. —

Þá kom þessi hv. þm. að framtíðinni og talaði nú ekki lítið digurbarkalega um það, hvað til stæði. Ég minntist á það í fyrri ræðu minni, hvað það væri broslegt að heyra þennan hv. þm. vera að bollaleggja um framtíðina og ráðgera að flytja frv. um að skattleggja stríðsgróðann, eftir að hann er búinn að drepa till. sinna eigin n1anna í þeim efnum. Ég vænti þess, að ekki færi á sömu leið aftur. En einhvern veginn fannst mér ég heyra það á hv. þm., að það mætti alveg eins búast við því, að aftur færi á sömu leið. Það var, þegar hann talaði um það, að böggull fylgdi skammrifi. Það mundi þurfa talsverða skilmála frá hendi sósíalista, til þess að þeir gætu orðið með því að skattleggja stríðsgróðann. Eitthvað var það í þessari ræðu hv. þm., sem gaf mér tilefni til þess að minnast þeirra starfsaðferða, sem sósíalistar hafa haft hér á þessu þingi. Sósfl. hefur haft þá aðferð að bjóða upp á samninga um ýmis mál og sett sem skilyrði sín eigin sjónarmið, og geti aðrir ekki fallizt á sjónarmið hans, þá drepur hann þau með Sjálfstfl. Það hefur gerzt æ ofan á æ á þessu þingi. Og svo er röksemdafærslan þannig, að hv. þm. segir, að Framsfl. hafi látið málið drepast í höndunum á sér. En hvernig fyrirfórust þessi mál? Urðu þau sjálfdauð? Þau fóru þannig, að Sósfl. drap þau með Sjálfstfl. Og það skyldi nú aldrei eiga að vera eitthvað líkt þessu, þegar að því kemur að samþ. þetta mál, þá verði skilyrðin fyrir því hjá Sósíalistafl. þau, að ómögulegt verði að ganga að þeim, og svo ef þessi skilyrði verða felld, þá kalli sósíalistar það náttúr lega að drepa málið, og ef þeir geta ekki fundið nógu vitlaus skilyrði, drepi þeir málið samt. Getur það ekki verið þetta, sem þeir ætla sér? Það kann að vera, að vel megi rætast úr. En illan bifur hef ég á ræðu hv. 2. þm. Reykv. En það sýnir sig, hver meiningin er, þó að ég heyri ekki betur en að hér sé verið að undirbúa sama skrípaleikinn og á skattamálunum hér nýlega. Og þá framkomu verður ekki hægt að skýra á annan veg en þann, að það sé „sabotage“, skemmdarstarfsemi, hreint og beint, sem sósíalistar hafa haft hér í frammi. Því að ef sá flokkur hefði haft nokkurn áhuga fyrir þessu máli, skattamálinu, þá hefði hann verið búinn að knýja það fram sérstaklega, heldur en að láta það vera í sambandi við þetta frv. og drepa það svo með því að segja, að þeir ætli að flytja það á næsta þingi. Og það verður fróðlegt að vita, hvort þeir halda áfram þessari starfsemi á næsta þingi. Og þessi vinnubrögð, að fella skattana niður nú, eftir að búið er að sitja allan þennan tíma yfir afgreiðslu dýrtíðarfrv., sem afgreiddar verða nú einhverjar reitlur af, þau eru fyrir neðan allar hellur, og það veit hv. 2. þm. Reykv. ákaflega vel. Og þessi vinnubrögð eru af Sósíalistum vafalaust gerð af ráðnum hug, og ekki í því skyni að auka sóma þingsins.

Ég get svo látið útrætt um þetta. Klukkan er nú orðin rúmlega eitt að nóttu, og ég geri ekki ráð fyrir, að ég taki aftur til máls, enda gerist þess ekki þörf. Það getum við verið sammála um, og jafnvel getur hv. 2. þm. Reykv. tekið undir það með mér, þó að ég efist um, að hann hafi hreinskilni til þess.