17.12.1942
Neðri deild: 20. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

55. mál, eignarnámsheimild á Höfn í Siglufirði

Bjarni Ásgeirsson:

Um þetta frv. má segja; að hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það, því að hv. þm. Siglf. og meðflm. hans virðast vera að feta í fótspor Reykvíkinga, sem hafa borið fram frv. um svipaða eignarnámsheimild, er liggur nú fyrir hv. Ed. Við því er ,að vísu ekkert að segja, þó að bæir fari fram á heimild til að taka eignarnámi land til ræktunar, enda hefur Alþ. stutt slíkar kröfur. Árið 1941. samþ. þingið löggjöf í þeim tilgangi að tryggja bæjum og þorpum ræktunarland, og ég held, að bæirnir geti fengið allt það ræktunarland, sem þeir þurfa, samkvæmt þeim l. En í þessum l. er reynt að trygg ja það, að ekki verði vaðið inn á lönd einstaklinga og þau tekin eignarnámi nema í brýnni nauðsyn og þá samkv. mati Búnaðarfélags Íslands. Ég held, að búnaðarfélagið hafi alltaf sýnt fullan skilning á þörfum bæjanna í þessu efni, og ég hefði kunnað betur við, að hér hefði legið fyrir umsögn þess aðilans, sem samkv. l. á að meta slíkar þarfir. Ég held að hv. Alþ. geti tæplega hlaupið til og samþ. heimild eins og þessa, án þess að slík umsögn liggi fyrir. Alþ. hefur nú eigi alls fyrir löngu sýnt Siglufjarðarðbæ velvild, er það samþ. kaup bæjarins á Hvanneyrartorfunni. Vel má vera, að bærinn þurfi á ennþá meira landi að halda. En ég skýt því hér með til n. þeirrar, sem fær málið til meðferðar, að athuga þessa hlið málsins og ganga úr skugga um það, hvort fyrir liggur nokkur rannsókn eða umsögn óvilhallra aðila, áður en málið kemur aftur til úrskurðar þingsins.