22.02.1943
Sameinað þing: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

Slysfarir á sjó - minning

forseti (HG):

Háttv. alþingismenn. Hæstv. ríkisstjórn.

Vér minnumst nú á fundi þessum hörmulegra atburða. Á örfáum ofviðrisdögum nýliðnum hafa hátt á fjórða tug Íslendinga farizt í sjávarháska úti fyrir ströndum landsins. Að kvöldi hins 12. febr. s.l. héldu fjórir tugir fiskibáta af svæðinu frá Súðavík til Flateyrar út á mið til veiða. Sjóveður var sæmilegt og aflavon og því sótt af kappi. Daginn eftir skall á ofsaveður. Síðla dags voru 20 bátar ókomnir að landi. Mörg hundruð manna og kvenna biðu milli vonar og ótta. Einn báturinn kom af öðrum. Um kvöldið vantaði aðeins fjóra. Til þriggja spurðist brátt. En hinn fjórði, báturinn Draupnir frá Súðavík, hefur enn eigi komið fram. Má telja fullvíst, að hann hafi farizt með allri áhöfn. Fimm vaskir sjómenn á bezta aldri létu þar lífið, þar af fjórir úr sömu sveit. Fjögur börn ung misstu þar feður og fyrirvinnu. Tvær konur voru sviptar eiginmönnum og aldraðir foreldrar vöskum sonum.

Mikil harmsaga er þessi. Þó varð skammt að líða annarrar enn stærri.

Nóttina milli 17. og 18. þessa mánaðar fórst m/s Þormóður frá Bíldudal á leið frá Patreksfirði hingað til Reykjavíkur með allri áhöfn, sjö skipverjum og tuttugu og fjórum farþegum. Af farþegum voru níu konur og eitt barn, drengur sjö ára.

Þetta mun vera eitt hið stórfelldasta manntjón Íslendinga af einu skipi og á ýmsan hátt hið allra átakanlegasta. Á einni nóttu misstu þar tuttugu og sex börn feður. Átta þeirra urðu móðurlaus um leið. Auk þess missti eitt barn fósturforeldra sína báða. Hve margar mæður og feður hafa þar misst uppkomin börn sín og ellistoð, er mér enn ekki kunnugt um.

Tuttugu og tveir þeirra, sem fórust, áttu heimili á Bíldudal, sjö konur, einn drengur og fjórtán karlmenn, allir fullþroska menn. Þeir gegndu þar fjölbreyttum störfum, nokkrir mikilvægum trúnaðarstöðum. Vinna þeirra allra og velmegan var tengd kauptúninu, og velmegun þess nátengd atorku þeirra.

Munu þess engin dæmi hér á landi, að jafnfámennt byggðarlag hafi goldið slíkt afhroð með svo snöggum og sviplegum hætti.

M/s Þormóður var um 100 smáestir að stærð. Skipið fór frá Patreksfirði s.l. þriðjudag, 18. þ.m. Hið síðasta; sem frá því heyrðist, var neyðarskeyti, er skipstjórinn sendi seint á miðvikudagskvöld. Það hljóðaði svo: „Erum djúpt út af Stafnesi. Mikill leki kominn að skipinu. Eina vonin er að hjálpin komi fljótt.“

Þetta neyðaróp er hið síðasta, sem mannlegt eyra hefur heyrt frá þessum stóra hóp. Hamfarir náttúruaflanna hindruðu alla hjálp. Enginn er til frásagnar um það, sem síðar gerðist. En óræk merki hafa þegar sýnt, hver afdrifin urðu. Enginn lýsir þeirri baráttu, sem þar var háð, unz yfir lauk. Fárviðri, náttmyrkur, stórhríð, hafsjóar og blindsker. Milli lífs og dauða skilur byrðingurinn einn, og hann lekur orðinn. Karlmennska og snilli sjómannanna varð að lúta í lægra haldi. Við ofurefli var að etja.

Sjóslys eru tíð með oss Íslendingum. Vér nefnum sjómennina oft hermenn þjóðarinnar. Þeir eiga í stríði við öfl lofts og lagar. Og meðan stríð er háð, falla jafnan hermenn, fleiri eða færri.

Missir sjómannanna er þjóðinni þungbær og ástvinum þeirra óbætanlegur. Og enn þá átakanlegra og óvenjulegra verður þetta voðaslys v ið það, að samtímis biðu bana þrefalt fleiri menn og konur, sem aðeins hugðu til stuttrar ferðar. Hún varð þeirra síðasta.

Vér Íslendingar erum fámenn þjóð. Missir 6 manna er oss stórfellt áfall, þjóðarharmur. En þó er sorgin sárust, missirinn átakanlegastur fyrir vandamenn og ástvini.

Hinum látnu þökkum vér líf þeirra og störf. Þeim, sem eftir lifa, vottum vér innilega samúð og hlýjustu hluttekningu.

Ég bið hv. alþm. að taka undir þessi orð mín með því að rísa úr sætum.